Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gærkvöldi söngleikinn sígræna Söngvaseið á stóra sviði Borgarleikhússins í þýðingu Flosa Ólafssonar. Gersamlega óþarft er að tíunda efni og boðskap þessa verks sem allir þekkja, það eina sem spurt er um er hvernig tekst til með sviðsetninguna: Nær hún máli miðað við fyrri uppsetningar sem fólk hefur séð hérlendis og erlendis og miðað við kvikmyndina frægu með Julie Andrews og Christopher Plummer frá 1965? Ég ætla að svara þessu strax og segja: Já!

SöngvaseiðurNæst þarf að bæta við að viðmiðunin er auðveld að því leyti að hér eru farnar troðnar slóðir alla leið; ekkert kemur á óvart í meðferð efnisins, sviðsmynd, búningum eða lýsingu (Snorri Freyr Hilmarsson, Stefanía Adolfsdóttir og Þórður Orri Pétursson), tónlistin var nákvæmlega eins og við kunnum hana (Agnar Már Magnússon með einvala lið), dansar og aðrar hreyfingar snoturlega unnar (Ástrós Gunnarsdóttir). Þetta er svo hefðbundin sýning hjá Þórhalli Sigurðssyni að hún gæti þess vegna hafa gengið í áratugi. Kannski á hún það eftir!

Þótt leikstjóri ákveði að setja ekki mark sitt á sýningu með sprelli eða óvæntum snúningum er ekki þar með sagt að hann “geri ekki neitt”. Í fyrsta lagi þarf hann að velja krafta til að hefðin megi njóta sín sem best, og svo þarf hann að þjálfa þessa krafta þannig að allt renni smurt og fullnægi kröfum áhorfenda sem eru auðvitað ennþá harðari vegna hefðarinnar. Þetta hefur Þórhallur unnið af sinni einstöku alúð svo að hvergi má hnökra finna. Hann hefur líka úr úrvalsliði að velja í leikaraliði hússins. Það er ekki ónýtt að hafa glæsilega söngkonu eins og Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur til að syngja hlutverk abbadísarinnar, lögin hennar eru auðvitað hreinar aríur fyrir stórsöngkonur en Jóhanna Vigdís var dásamleg í hlutverkinu. Í kringum hana í klaustrinu röðuðu sér þessar líka fínu leik- og söngkonur, Sigrún Edda Björnsdóttir, Þórunn Erna Clausen og Linda Ásgeirsdóttir auk Hallveigar Rúnarsdóttur og fleiri kórfélaga. Annar stórsöngvari (og gamall von Trapp) er Jóhann Sigurðarson sem leikur og syngur lítið en mikilsvert hlutverk Max Dettweiler menningarmálaráðunauts sem ræður von Trapp-börnin til að syngja á söngvakeppninni sem reynist svo örlagarík ákvörðun. Katla Margrét Þorgeirsdóttir er stórglæsileg Elsa Schrader, konuefni von Trapps og þjónarnir á heimilinu eru í traustum höndum Bergs Þórs Ingólfssonar (sem var óþekkjanlegur rétt einu sinni) og Hönnu Maríu Karlsdóttur. Vanþakklát hlutverk nasistanna sjá þeir um með prýði Pétur Einarsson og Theodór Júlíusson, en Guðjón Davíð Karlsson var aðeins of gamansamur í hlutverki Rolfs símasendils og kærasta. Er erfitt að losna við Flóna?

Annað aðdráttarafl þessa verks eru öll barnahlutverkin í því. Kapteinn von Trapp er ekkjumaður með sjö börn, sem ætti að öllu jöfnu að fæla leikhús frá verkinu en gerir þvert á móti. Elst er Lísa, sextán ára (Lára Sveinsdóttir), yngst er Gréta, fimm ára. Þau sem sungu hlutverk barnanna á frumsýningu voru hreint út sagt yndisleg: Árni Beinteinn Árnason (Friðrik), Lilja Eivor Gunnarsdóttir Cederborg (Lovísa), Jakob Van Osterhout (Kurt – eða “hvað sem hann heitir”), Agnes Gísladóttir (Birgitta), Rebekka Ósk Svavarsdóttir (Marta) og Sara Lind Styrmisdóttir (Gréta) sungu ekki bara vel heldur fóru þau undantekningarlaust vel með setningarnar sínar. Þar er þó freistandi að nefna Agnesi og Söru Lind sérstaklega, þeim var treyst fyrir miklu og brugðust ekki leikstjóra sínum.

Aðalaðdráttaraflið er þó líklega ástarsagan. Hinn ólíklegi en þó algengi samdráttur fólks af ólíkum þjóðfélagsstigum. Jóhannes Haukur Jóhannesson leikur og syngur kaptein Georg von Trapp og gerir það vel. Hann er myndarlegur á velli, kannski nokkuð ungur (miðað við elstu dóttur von Trapps) en ekki trúi ég að það pirri nokkurn mann. Hann er enginn Jóhann Sigurðarson en syngur ágætlega, og það besta er að hann nær góðu tilfinningasambandi við mótleikara sinn í hlutverki Maríu. Það er lykilatriði.

María er aðal, og í þessu tilviki hefur tekist fantalega vel að velja söng- og leikkonu í hlutverkið. Valgerður Guðnadóttir er ekki aðeins afburða söngkona og gullfalleg heldur hefur hún til að bera innilega og barnslega einlægni, gleði og hlýju sem gerir hana að bestu Maríu sem ég hef séð. Julie Andrews ekki undanskilin. Maður hreinlega trúir á persónuna þótt hún sé auðvitað býsna ólíkindaleg. Maður trúir því að hún temji villingana hans von Trapps nánast overnight, að hún, óskóluð fjallastelpa, heilli frosinn yfirstéttarhermann, að vísu á soldið lengri tíma, að hún geri barnahópinn að öguðum sönghóp sem getur  lagt undir sig heiminn. Það var mikil gæfa fyrir leikfélagið að fá Valgerði til liðs við sig í þessari sýningu. Ég spái því að Julie Andrews verði bæði hrifin og öfundsjúk ef satt er að hún ætli að sjá sýninguna í haust …

Ég sagði í upphafi að allir þekktu þetta verk. Þó var ég svo heppin að hafa með mér í leikhúsinu 19 ára afmælisbarn sem aldrei hafði séð það áður en þekkti auðvitað lögin. Hún átti í engum vandræðum með að ganga því á hönd, lifa sig inn í langa söguna sem dettur í svo marga parta og endar svo oft, hlæja og gráta og óttast um þetta góða fólk þegar nasistarnir koma til sögunnar. Viðbrögð hennar sannfærðu mig um sígrænu verksins, og viðbrögð sjálfrar mín sögðu mér að sýningin væri unnin af aðdáunarverðri alúð og metnaði. Þórhallur Sigurðsson átti fyllilega skilið það standandi lófatak sem hann hlaut í leikslok.

 

Silja Aðalsteinsdóttir