Stóru leikhúsin opnuðu dyr sínar fyrir fyrstu gestum haustsins um helgina og hófu bæði vetrarstarfið á íslenskum verkum. Það var um það bil það eina sem þau áttu sameiginlegt. Á stóra sviði Þjóðleikhússins var okkur sögð saga mexíkóska myndlistarmannsins Fridu Kahlo á föstudagskvöldið, átakanleg ævisaga vörðuð slysum og svikum; á litla sviði Borgarleikhússins var á laugardagskvöldið rifjað upp sextán ára gamalt framhaldsleikrit í útvarpi sem segja má að hafi verið upphafið að samfelldri sigurgöngu Spaugstofuhópsins á ljósvakanum.

FridaEftir að hafa gert tveim jafnólíkum konum og Edit Piaf og ambáttinni Brák eftirminnileg skil á sviði ræðst nú Brynhildur Guðjónsdóttir í að túlka hina litríku og sorglegu Fridu Kahlo. Frida var eftirlætisdóttir ljósmyndarans föður síns, gáfuð stúlka og tilfinningarík og byrjuð í læknisfræði þegar hún lenti í voðalegu umferðarslysi sem lagði hana í rúmið við hryllilegar þjáningar í heilt ár og setti mörk sín á hana ævilangt. Bundin niður í rúm byrjaði hún að mála til að stytta sér stundir og áttaði sig smám saman á því að það gæti verið framtíð í þeirri iðju. Eftir það vann hún þjáningar sínar, líkamlegar og andlegar, inn í málverkin sín sem eru einstæður vitnisburður um sálarlíf skapheitrar og ástríðufullrar en sárþjáðrar konu. Þar má líka sjá að hún leit á sjálfa sig sem píslarvott, og ekki að ástæðulausu.

Brynhildur semur verkið og leikur sjálf aðalhlutverkið en eiginmaður hennar, Atli Rafn Sigurðarson, leikstýrir. Með sér hafa þau fengið önnur listræn hjón, Vytautas Narbutas og Filippíu Elísdóttur. Saman freista fjórmenningarnir þess að endurskapa líf Fridu á sviðinu með stöðugum myndrænum vísunum í verk hennar sem einnig má sjá við og við á bakvegg. Sýningin er oft sláandi falleg, enda mikið lagt í allan myndrænan undirbúning. Hljóðmynd Egils Ólafssonar er líka heillandi og fagurlega flutt.

Frida Kahlo varð bara 47 ára en það er samt erfitt að endurgera svo langan tíma á einni kvöldstund. Þá verður að velja. Aðaláherslur leikritsins eru á slysið ljóta, óbærilegar kvalirnar sem Frida leið og ástina stóru sem hún bar til eiginmanns síns, myndlistarmannsins Diego Rivera (Ólafur Darri Ólafsson). Hann var henni ekki trúr og sárast fyrir Fridu var samband hans við systur hennar Cristinu (Birgitta Birgisdóttir). Sjálf greiddi hún í sömu mynt með sambandi sínu við Trotsky (Ólafur Egill Egilsson). En þótt áherslurnar séu þessar er reynt að gera mörgu öðru skil, kannski of mörgu. Annað fólk sem snertir líf þeirra hjóna lauslega í verkinu eru foreldrar Fridu (Kjartan Guðjónsson og Esther Talía Casey), læknir hennar og trúnaðarvinur (Baldur Trausti Hreinsson), Tina Modotti vinkona Diegos (Edda Björg Eyjólfsdóttir) og tilfallandi gestir, Picasso, Salvador Dalí og André Breton sem karlleikararnir skipta á milli sín. Óhjákvæmilega verða þetta hopp í tíma og margir verða klisjurnar tómar. Bygging verksins minnir á verk Sigurðar Pálssonar um Edit Piaf sem Brynhildur lék og söng í ein tvö til þrjú leikár, ef ég man rétt. Ekki að undra þótt það hafi áhrif. Þar tengdi tónlistin og lyfti öllu í æðra veldi, en þó tónlistin sé drjúgur þáttur í Fridu er hún ekki frumþáttur heldur viðbót og getur ekki orðið annað en skraut. Nú er ævi Fridu til bæði á bók og í bíó og því hefði verið upplagt á sviði að kafa í líf hennar á einum tímapunkti. Það hefði getað dýpkað persónuna.

Tvær verur fylgja Fridu alla leið og gera sitt til að líma sýninguna saman, dauðinn (Elma Lísa Gunnarsdóttir) og dýrið Xólotl (Ólafur Egill), við þau bætist svo apinn sem Rivera gefur Fridu (Vignir Rafn Valþórsson), og það lifnaði mikið yfir sviðinu þegar tveir þeir síðastnefndu léku listir sínar. Því það verður að viðurkennast að lengst af er þetta myndasýning, tableaux, og það þótt stórleikararnir Brynhildur og Ólafur Darri beiti sér. Það vantar dýpt í verkið sem jafnvel ástríðufullur leikur getur ekki skapað nema augnablik í senn.

Harry og HeimirHarry, Heimir, fröken Díana Klein og félagar, túlkuð af Íslenska spaugblendifélaginu, eru ekkert að hugsa djúpt. Myndu sjálfsagt hrækja fyrirlitlega ef þau væru orðuð við þungbær örlög og stórar ástríður. Þar er málið að láta ólíkindalega, grípa frasa á lofti, snúa út úr þeim og gefa klisjunum undir fótinn. Þar eru allar persónur staðlaðar og eiga að vera það, á það er spilað út í gegn. Í rauninni eru þeir Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Örn Árnason og Ólafur Örn Thoroddsen hljóðmaður að sýna okkur að sviðið er ekki síður en útvarpið opið fyrir öllum leikaðferðum og leyfir allt sem hugkvæmum listamönnum dettur í hug.
Það er leikritið Með öðrum morðum sem þeir eru að leiklesa í útvarpið þarna á sviðinu. Verkið berst um víða vegu eins og er svo einfalt í útvarpi, alla leið til Transylvaníu, en þangað fara einkaspæjararnir Harry Rögnvalds (Kalli) og Heimir Schnitzel (Siggi) til að leita að eiginmanni fröken Díönu Klein (Örn, drepfyndinn) sem hvarf á brúðkaupsnóttina. Þegar þangað kemur lenda þeir í kasti við mennskan og ómennskan óþjóðalýð, og af því að leikarar eru ekki fleiri (og af því að í útvarpi sér maður ekki hver lemur hvern) verða þeir hver af öðrum fyrir því að berjast við sjálfa sig, kyrkja sig, draga sig inn í skáp, hlekkja sig og hræða líftóruna úr sér. Það var mikið grín, og milli þess sem maður tók andköf af hlátri dáðist maður innilega að því hvað þeir eru fimir þessir strákar, og hvað þeir eru ótrúlega öruggir á sínu, skipta um ham örar en auga á festi aftur og aftur og aftur. Þvílík snilld og þvílík skemmtun.

Þó fór svo að sýningin var teygð í tvo tíma með algeru handafli og þó að það hafi ábyggilega verið vandlega hugsaður partur af gríninu fannst mér óþarfi að láta manni fara að leiðast undir lokin eftir þessa dýrindis skemmtun. Kannski voru þeir smeykir um að annars myndum við ekki vilja yfirgefa salinn?

 

Silja Aðalsteinsdóttir