Bráðum hata ég þigHeimilisböl er verra öðru böli, út á það ganga ófá leikrit og sögur, enda óhamingjusamar fjölskyldur óhamingjusamar hver á sinn hátt, eins og skáldið benti á. Í leikriti Sigtryggs Magnasonar, Bráðum hata ég þig, sem var frumsýnt í Nemendaleikhúsinu í gærkvöldi, hittum við fjórar húnvetnskar systur. Steinunn, Snæfríður og Anna búa enn á heimaslóðum, Halla ein hefur slitið sig þaðan, farið „suður“. En daginn sem leikritið gerist kemur hún aftur heim af því mamma hennar er dáin og hún ætlar að mæta í jarðarförina. Í rútunni hittir Halla Árna, sem er á leið í Víðidalinn líka, og kippir honum með sér í jarðarför og erfisdrykkju þótt hún hafi aldrei séð hann áður.

Þá erum við komin með klassískar aðstæður: fjölskyldu sameinaða eftir langt hlé, svarta sauðinn snúinn aftur og gest til að horfa á allt með gests augum. Reyndar eru utanaðkomnir tveir því presturinn, sr. Bjarni, er nýr í sveitinni, nývígður meira að segja, þetta er fyrsta jarðarförin hans. Þetta ástand þróast á ýmsa vegu í vel skrifuðum, dramatískum texta sem ýmist er ljóðrænn eða grimmur og víða verulega áhrifamikill.

Fjölskylda systranna í Hvammi býr yfir þungbæru leyndarmáli sem hefur þrúgað hana í fimmtán ár og liggur undir öllum samtölum og þögnum í verkinu. Við fáum fljótlega að vita að móðir systranna var ekki gömul og ekki veik, samt kom dauði hennar ekki á óvart. Hún hafði þráð dauðann í fimmtán ár, frá því faðirinn dó. Andstæður lífs og dauða, ástar og haturs eru viðfangsefni Sigtryggs í þessu verki, eins og fyrri verkum sínum, Herjólfur er hættur að elska og Yfirvofandi. Eða öllu heldur vill hann sýna að þarna á milli eru ekki andstæður. Dauðinn getur verið líf, hatrið ást. Sá lifandi getur verið dauðari en sá dauði.

Sigtryggur skrifaði hlutverkin beint upp í leikarana ungu og hvort sem það er því að þakka, góðri þjálfun í skólanum eða leikstjórn Unu Þorleifsdóttur (eða öllu þessu) þá fóru þau með textann eins og þau ættu hann sjálf. Leikurinn var eðlilegur, áreynslulaus þrátt fyrir erfiðan efnivið. Þau sköpuðu skýrar persónur, ólíkar innbyrðis, sem sumar þekkjast náið, aðrar alls ekki, og maður fann vel á andanum milli persónanna hvort þær áttu saman fortíð eða ekki. Una treystir leikurum sínum líka til að þegja – jafnvel langtímum saman í erfisdrykkjunni – og það var makalaust hvað sú þögn gat verið talandi. Þó fór svo í seinni hlutanum að þagnir urðu frekar þreytulegar en þrungnar og hefði kannski átt að herða á sýningunni þar á parti.

Steinunni, elstu systurina, leikur Svandís Dóra Einarsdóttir, hávaxin og afar glæsileg stúlka. Steinunn varð líka glæsileg í meðförum hennar, sjálfsöruggur dugnaðarforkur út á við en öryggislaus ástarfíkill hið innra. Samskipti hennar við manninn sinn, Jón (Hilmar Guðjónsson), voru flókin blanda af fyrirlitningu og barnslegri þrá eftir kærleika og umhyggju. Hilmar var dásamlegur Jón, einfaldur maður sem vill vel, gerir ekki miklar vitsmunalegar kröfur til lífsins en er gírugur í mat og kynlíf. Þegar hann fór að úða í sig hangiketi ofan í rúllutertuna í erfisdrykkjunni varð mér beinlínis bumbult. Samskipti Steinunnar við prestinn (Ævar Þór Benediktsson) eru jafnvel ennþá flóknari, enda eru trúmál eitt af hliðarþemum verksins. Kannski finnst henni hún fá langþráða handayfirlagningu þegar presturinn leitar á hana fyrst, en það þróast á ömurlegan hátt. Ævar Þór fór skínandi vel með bældan guðfræðinginn, kúgaðan mömmustrák sem vonast eftir frelsi og sjálfstæði á nýjum stað en ólánið hefur flutt með honum norður.

Tvíburarnir Halla og Snæfríður eru hvor sín hliðin á peningnum og þær urðu átakanlega skýrar í meðförum Láru Jóhönnu Jónsdóttur og Önnu Gunndísar Guðmundsdóttur. Snæfríður hefur ekki einungis haldið sig heima í Víðidalnum heldur er hún bundin í hjólastól og hefur þar að auki ekki talað síðan tvíburasystirin hvarf að heiman. Halla ætlaði að slíta sig frá henni og dauðanum í húsinu og verða sjálfstæð en hefnist fyrir það. Hún kemur líka með Árna (Hilmir Jensson), dularfulla gestinn. Hilmir fór vel með hlutverkið en persónan er helst til óljós. Samtal Árna og Höllu í rútunni var vel unnið og spennandi en þáttur hans í endalokunum var ekki nógu vel undirbyggður. Yngstu systurina, Önnu, leikur Þórunn Arna Kristjánsdóttir og gefur sannfærandi mynd af “barninu” í fjölskyldunni.

Axel Hallkell leikmyndahönnuður nýtti rýmið í Smiðjunni vel. Í upphafi eru herbergin þrjú hvert á sínum stað, í Hvammi, á heimili Steinunnar og Jóns og á prestsetrinu, en þegar allir eru samankomnir í erfisdrykkjuna eru þetta ólíkar vistarverur í Hvammi. Einfalt og vel leyst. Búningar hans voru líka vel hugsaðir og útfærðir. Öll önnur umgerð var til sóma, lýsing Egils Ingibergssonar markviss, hljóðmynd Högna Egilssonar nístandi þegar það átti við, myndbönd Brynju Björnsdóttur skemmtilega notuð, til dæmis á leiðinni norður.

Það er alltaf gaman að sjá nýja leikara og þessi hópur er afbragðsgóður. Annar hvati til að sjá þessa sýningu er að hún er á nýju fantaspennandi verki eftir íslenskt leikskáld. Þriðji hvatinn (ef þið þurfið fleiri) er nýr leikstjóri, áður óskrifað blað í mínum huga að minnsta kosti, sem skirrist ekki við að gera í hæsta máta óvenjulegar kröfur til leikara sinna. Sem þeir standast svo eftir verður tekið.

Silja Aðalsteinsdóttir