Íslenska óperan sýnir nú gamanóperuna Brúðkaup Fígarós eftir W.A. Mozart og Da Ponte, einhverja alvinsælustu óperu allra tíma, í Þjóðleikhúsinu þar sem fer einkar vel um hana. Sagan er óttaleg endaleysa en lögin eru dásamleg og fjörið smitandi þegar vel tekst til eins og í þetta sinn. Leikstjórinn John Ramster og Bridget Kimak leikmyndahönnuður nota hringsvið hússins markvisst til að draga fram hamaganginn, við förum herbergi úr herbergi í höll greifans og út í garðinn þar sem aðaltælingarnar eiga að eiga sér stað – þó að margt fari öðruvísi en ætlað var. Bjarni Frímann Bjarnason stýrir Hljómsveit Íslensku óperunnar en Magnús Ragnarsson stjórnar kórnum, hvort tveggja lýtalaust.

Brúðkaup Fígarós

Söguhetjur okkar eru Súsanna (Þóra Einarsdóttir) og Fígaró (Andri Björn Róbertsson) sem bæði þjóna greifahjónum, hún frúnni (Eyrún Unnarsdóttir) og hann herranum (Andrey Zhilikhovsky). Þau hafa fengið herbergisboru í höllinni og vilja gifta sig til að geta búið þar saman en greifinn er heldur á móti því. Hann girnist Súsönnu og finnst alla vega að hann eigi að fá að njóta hennar fyrstur, í samræmi við gömul lög um húsbóndarétt sem hann hafði þó sjálfur fellt úr gildi þegar hann kvæntist greifynjunni. Þetta líst hjónaleysunum ekki á og grípa til afar flókinna ráða til að koma giftingunni í framkvæmd án íhlutunar greifans. Inn í málið blandast fríðleikspilturinn Cherubino (Karin Björg Torbjörnsdóttir) sem er hrifinn af greifynjunni – eins og öllum öðrum fallegum konum, líka ólánsparið Bartolo (Davíð Ólafsson) og Marcellina (Hanna Dóra Sturludóttir) sem vilja taka Fígaró upp í skuld og gifta hann Marcellinu. Loks þykir greifynjunni leitt hvað maðurinn hennar er orðinn henni afhuga og til að bæta úr því setja þær Súsanna upp kvikindislegan blekkingaleik úti í garði að kvöldi brúðkaupsdagins þar sem þær skipta um gervi, körlunum til nokkurrar hrellingar!

Kjarninn innan í allri hringavitleysunni er sem sagt hjúskapartryggð og traust milli karls og konu og það efni er í sjálfu sér gilt á öllum tímum. Að lokum sér greifinn villu síns vegar og biður konu sína fyrirgefningar sem hún veitir honum þótt hún hafi áreiðanlega varann á sér framvegis.

Það sem kemur fyrst og fremst á óvart í þessari uppsetningu er að þrjú aðalhlutverkin og tvö minni hlutverk eru sungin af ungum íslenskum söngvurum sem ekki hafa sungið í Íslensku óperunni áður. Þau Eyrún, Andri Björn og Karin Björg voru öll alveg skínandi góð og sömuleiðis Sveinn Dúa Hjörleifsson sem Basilio og Harpa Ósk Björnsdóttir í hlutverki Barbarinu. Raddirnar agaðar og öruggar, hreyfingarnar eðlilegar og leikurinn lifandi þótt hasarinn væri mikill. Þetta er ekki lítil auðlegð fyrir litla þjóð. Sérstaklega langar mig að nefna söng Cherubinos um ást sína á konum, aríu sem allir þekkja, hún var svo fallega sungin í gærkvöldi að gæsahúðin hríslaðist niður hrygginn.

Ekki má gleyma stjörnu kvöldsins þó að hún sé óperuunnendum hér vel kunn, Þóru Einarsdóttur; hún fór leikandi létt með stórskemmtilegt hlutverk Súsönnu hinnar ráðsnjöllu sem stýrir eiginlega allri framvindunni af sinni eðlislægu röggsemi. Rússinn Andrey er líka skínandi fínn söngvari og verulega lúnkinn gamanleikari, mjög ólíkur því sem hann var í hlutverki Évgenis Onegin hjá Íslensku óperunni fyrir þrem árum. Raunar má hrósa öllum skaranum fyrir leikinn því hálft gamanið við þessa óperu er auðvitað að horfa á persónurnar hlaupa bak við stóla, upp í rúm, bak við gardínur og inn í skápa eða stökkva út um glugga í feluleiknum endalausa! Þar langar mig að nefna sérstaklega Eyjólf Eyjólfsson sem var alger senuþjófur í litlu hlutverki Curzios lögfræðings.

Eins og áður gat lék hljómsveitin af list undir stjórn Bjarna Frímanns og litríkir búningarnir hennar Bridget Kimak sjá um að augun fái sitt ekki síður en eyrun. Brúðkaup Fígarós er sannkallaður gleðigjafi á regnvotu og stormasömu hausti.

 

Silja Aðalsteinsdóttir