Danir eiga gífurlegan fjársjóð í sönglögum af öllu tagi, fyndnum og harmþrungnum, léttum og einföldum og þungum og flóknum, barnalögum og lögum um ellina, ástarljóðum og – ekki síst – söngljóðum um lífið og tilveruna. Hversdagsvitur ljóð sem gott er að grípa til þegar þörf er á andlegum styrk í dagsins önn. En Charlotte Bøving byrjar dagskrá sína í Iðnó, „Þetta er lífið – om lidt er kaffen klar“, á því að minna okkur á hvaða dönsk kvæði við syngjum helst hér á landi …

Þetta er lífið – om lidt er kaffen klar

… det var en skikkelig bondemand … det var en lørdag aften … der var brændevin i flasken da vi kom … óttalega fátæklegt úrval miðað við auðinn sem til er og sem hún kynnir fyrir okkur á næsta klukkutíma á eftir, milli þess sem hún segir okkur sögu sína frá því hún fæddist í Árósum og fram að syngjandi stund þegar hún er gift kona og þriggja barna móðir á Íslandi. Lögin og ljóðin eru mjög vel valin. Mest varð ég snortin af ljóðum Piets Hein (rifja upp línurnar sem ég hef kunnað síðan í menntaskóla: „Husk at elske mens du tør det, husk að leve mens du gør det ) og ljóðinu um den farende svend eftir Jóhann Sigurjónsson. Ljóðið þekkti ég en vissi ekki að það væri til lag við það – enda er það eftir flytjendurna sjálfa og því líklega flunkunýtt.

Það er afskaplega gaman að horfa á Charlotte og enn meira gaman að hlusta á hana, minnast þess hvað danska er fallegt tungumál þegar hún er töluð af manneskju sem kann hana vel og elskar hana, hvað hún er mjúkt tungumál og hvað hún fer vel í tilfinningaríkum söng en er líka fyndið tungumál sem þolir vel að láta leika með sig. Með Charlotte leikur Pálmi Sigurhjartarson á píanó (og flautu!) og þau voru alveg fullkomið par uppi á gamla sviðinu í Iðnó sem tók elskulega utan um þau.

Ég var dauðhrædd um að fólk nennti ekki að sækja svona söngdagskrá á dönsku, þó að Charlotte tali á íslensku milli laga og þó að dómar hafi verið rosalega fínir. En ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur. Salurinn var smekkfullur í gær og það er dúnduraðsókn á næstu sýningar. Meira að segja farið að bæta inn aukasýningum. Tilfellið er að Íslendingar kunna gott að meta.

 

Silja Aðalsteinsdóttir