Það er erfitt að ímynda sér örlagasögur barna úr nútímanum sem jafnist á við átakanlega hrakfarasögu Dísu litlu ljósálfs sem allir Íslendingar þekkja. Hún villist að heiman og lendir fyrst í vondri vist hjá mennskum hjónum, skógarhöggsmanni og konu hans, síðan í óhugnanlegri barnaþrælkun lengst ofan í jörðinni hjá moldvörpu; þaðan bjarga froskar henni og lesandinn er rétt búinn að slappa af þegar ill norn krækir í hana hjá þeim …
Það allra versta er þó ótalið, það er þegar skógarhöggsmaðurinn klippir vængina af Dísu litlu til að hún komist ekki undan þeim illu hjónum á flugi. Manninn dreymdi frá örófi alda um að geta flogið og engin dýr öfundum við meira en þau sem það geta. Enda hafa íslensk börn grátið yfir þessu sorglega atviki í bók G. T. Rotman í rösklega áttatíu ár og ekki laust við að það heyrðist grátur í Austurbæ í gær þegar atburðurinn var settur á svið. Dísa litla (Álfrún Helga Örnólfsdóttir) vaknar af vondum draumi, lokuð inni í skáp, og heyrir á tal fangavarða sinna að þau ætli að klippa af henni vængina. Henni bregður illilega í brún og hún reynir að fela sig úti í skoti en það dugar ekki og vængina missir hún. Svo er hún höfð sem sýningagripur þangað til flugan Fúsi (Steinn Ármann Magnússon í essinu sínu) hjálpar henni að sleppa. Þá sest hún að hjá frú Skottlöng (María Þórðardóttir) og börnunum hennar fjölmörgu en eitt sinn þegar þau eru í skollaleik og Dísa er hann nær árans moldvarpan (Þórir Sæmundsson) í hana. Við tekur hræðileg vist ofan í myrkum moldarhúsakynnum sem ekki lýkur fyrr en Jeremías froskaprins (Kári Viðarsson) bjargar henni. Hann fer með hana til mömmu sinnar froskadrottningarinnar (Sólveig Arnarsdóttir) sem er dálítið efins um þennan gest en lætur svona vera. Nornin og sonur hennar (Esther Talía Casey og María Þórðardóttir) krækja svo í Dísu og storkurinn (Þórir Sæmundsson) gerir usla í froskabyggð en þá er tíminn alveg að verða búinn og mál að Dísa komist aftur til mömmu sinnar (Esther Talía leikur hana líka).
Eins og þeir sjá sem þekkja söguna er hún einfölduð enda á sviðsverk erfitt með allt það flakk sem sagan fer á, að ekki sé talað um allar þær persónur sem þar koma fyrir. Leikgerð Páls Baldvins Baldvinssonar af sögunni sem frumsýnd var í gær undir hans stjórn er ágætlega heppnuð, hnitmiðuð og nær aðalatriðum vel. Sviðið er einfalt, kassi með myndum uppi á vegg sem sýna hvar við erum stödd. Sumpart eru þær byggðar á myndum úr bókinni og fer vel á því. Við söguna bætast svo söngvar, textar Páls Baldvins við ný lög eftir Gunnar Þórðarson sem sum voru fín, önnur litlítil. Við ellefu ára fylgdarmaður minn vorum sammála um að besta lagið og skemmtilegast sungið hefði verið söngur moldvörpunnar. Var ekki laust við að Þórir minnti á sjálfan Tom Waits í túlkun sinni! Dansar Helenu Jónsdóttur voru blessunarlega glaðir og barnslegir og lausir við þann vélræna eróbikksvip sem er svo þreytandi á leiksviði.
Búningar Maríu Ólafsdóttur eru skínandi góðir. Dísa sjálf er undurfögur í hvítu híalíni, froskarnir litsterkir, moldvarpan dimm og drungaleg, flugan fallega röndótt, mýsnar í jarðlitum, storkurinn alger snilld og dansararnir átta sem hlaupa milli hlutverka máttu hafa sig alla við til að ná að skipta um búninga milli atriða.
Í samanburði við söguna er það galli á leikgerðinni hvað Dísa er mikill þolandi þar; hún er mun meiri gerandi í sögunni, tekur stórar ákvarðanir og brýtur jafnvel blátt bann valdhafa. Þar er leitin að móðurinni líka mun meiri drifkraftur en í sýningunni. Á móti kemur sá kostur við sýninguna að ekki er reynt að fela eða draga úr þeim raunum sem aumingja Dísa ratar í og atriðið í undirheimum hjá moldvörpunni var ansi áhrifamikið, jafnvel fyrir fullorðna áhorfendur. Það var dvölin hjá skógarhöggshjónunum líka en atriðið með norninni missti marks; kannski var það of stutt og rýrt, kannski var komið nóg af hörmungum. Dvöl Dísu hjá froskunum var vel heppnuð. Þar munaði mest um drottninguna sem sópaði að í listilegum meðförum Sólveigar Arnarsdóttur. Fúsi fluga var líka afar skemmtilegur hjá Steini Ármanni en ég veit ekki hvort rétt var að láta hann rjúfa fjórða vegginn. Er kannski skylda í barnasýningum að hafa gagnvirkni?
Það verður gaman að fylgjast með því hvernig Dísu vegnar á sviði. Eftir gríðarlegum vinsældum bókarinnar síðan 1928 að dæma á hún sér langt líf fyrir höndum einnig þar.