Ung kona fer í fjarlæga eyjarbyggð til að rannsaka kafla í sögu staðarins og skrifa fræðiritgerð um hann. En hún fær óljós svör við spurningum sínum, allir hafa einhverju að leyna, og loks kemur upp úr dúrnum að hún leikur líka tveim skjöldum sjálf. Þetta efni hljómar kunnuglega, það endurómar spennusögur af ýmsu tagi. Enda eru það slíkar sögur sem fá almennilegt gúmoren í nýju verki Sölku Guðmundsdóttur, Súldarskeri, sem var frumsýnt í Tjarnarbíó um helgina.

Súldarsker

Reyndar er ungi þjóð-, kynja- og mannfræðingurinn Gunnþórunn ekki ein á sviðinu því önnur ung kona, Elínborg Kamban, stjörnublaðamaður úr Reykjavík, mætir um leið á Súldarsker. Hún á að skrifa í blaðið sitt um sumarhátíð á einhverju útskerinu í grennd við Súldarsker en kemst aldrei þangað vegna veðurs. Einnig Elínborg hefur ýmsu að leyna; hún er vissulega stjörnublaðamaður en það sem hún segir ekki er að nafngiftin kemur af því að hún er sífellt látin skrifa um dægurstjörnurnar, hvort þær fitna eða horast, giftast eða skilja.

Ungu konurnar tvær hittast fyrst í súldinni sem Súldarsker dregur nafn sitt af og líst ekki nema miðlungi vel hvorri á aðra, en þegar þær hafa hírst nótt á skepnusafni Sigvarðar gamla og áttað sig á að ekki er allt sem sýnist á krummaskuðinu þá verða þær samherjar. Smám saman grafast þær fyrir um leyndarmál bæjarbúa og leysa þá úr ömurlegum fjötrum lyga og blekkinga. Á þeirri leið kynnast þær fjölmörgum íbúum bæjarins sem eru hver öðrum undarlegri eins og vonlegt er, og frá þessu öllu segja þær okkur svo þegar þær eru komnar heilar á húfi heim aftur.

Það eru tvær leikkonur sem leika öll hlutverkin, Aðalbjörg Árnadóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir, og fóru furðulétt með. Textinn er langur og sýningin er keyrð á gríðarlegum hraða svo ekki fengu þær langan tíma til að skipta um hlutverk og var oft hreinasta kraftaverk að sjá þær hoppa úr einu í annað. Minnisstætt er atriðið í vagni Sigvarðar gamla þegar Maríanna skipti sér milli Elínborgar og Sigvarðar með því einu að snúa sér við í sætinu (sem ekkert sæti var, vitaskuld, því þarna var lítið um hjálpartæki). Þær eru báðar geysilega liprar leikkonur og skemmtilega ólíkar, bæði í útliti og fasi, þannig að persónugalleríið varð litríkt. Aðalbjörg vinnur á einlægninni, hún bjó til þorpsbjánana hvern af öðrum á listilegan hátt. Maríönnu lætur einkar vel að storka og kúga og bjó til fína Rósu sem allt á í bænum, en hún var líka frábær Sigvarður með sitt bogna bak og gamalmennarödd. Oft mátti sjá handbragð leikstjórans, Hörpu Arnardóttur, á persónum en fyrst og fremst sást á sýningunni allri hvað leikstjórnin var markviss og hugmyndarík.

Sjálf súldin á Súldarskeri var hugvitssamlega gerð úr milljón segulböndum, og á Brynja Björnsdóttir heiðurinn af fínni leikmynd sem varð ævintýraleg í ljósum Egils Ingibergssonar. En flottu kjólana sem þær stöllur klæddust gerði Þórunn Elísabet Sveinsdóttir. Tónlistina sá Ólafur Björn Ólafsson um og átti líka óvænta innkomu í hlutverki sem er ekki kynnt í leikskrá. Texti Sölku er frábærlega saminn, þéttur, hæfilega vitsmunalegur og framúrskarandi hnyttinn. Þarna er fætt nýtt leikskáld sem bragð er að.

 

Silja Aðalsteinsdóttir