Judy Garland kabarettEnn ein skemmtileg uppákoma var frumsýnd í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkvöldi: Judy Garland kabarett með Láru Sveinsdóttur og djasshljómsveit Úlfs Eldjárns. Þar syngur Lára lög sem Judy Garland gerði fræg og segir frá stjörnunni milli laga, stiklar á stormasamri og oft átakanlegri ævi hennar og lætur lagavalið undirstrika frásögn sína. Leikstjóri er Charlotte Böving og hinar ýmsu deildir Þjóðleikhússins hafa aðstoðað við ljós, hljóð, gervi og búninga. Leikhúsgestir sitja við borð í salnum og geta fengið sér í glas eða kaffibolla undir sýningunni. Þannig taka þeir þátt í að skapa andrúmsloft skemmtistaðar sem á vel við hér.

Lára byrjar dagskrána á eins konar „forleik“ þar sem hún blandar saman lögunum sem eftir koma – svona til að láta áheyrendur hlakka til. Svo koma þau hvert af öðru, „That‘s Entertainment“, „Zing! Went the Strings of my Heart“, „Someone to watch over me“ (fyrir pabba), „You made me love you“ sem var einn af toppunum, alveg gríðarlega fallega sungið, og „Over the rainbow“, náttúrulega. Í „For me and my Gal“ fékk hún óvænta aðstoð frá öðrum ekki síðri söngvara og sviðslistamanni, Birni Hlyni Haraldssyni. Það var annar hápunktur. Hæsti punkturinn var þó eftir, „Get Happy“ eftir Arlen og Koehler sem var eitt frægasta númer Judy. Lára svipti af sér pilsinu og dembdi hatti á höfuðið og var Judy Garland lifandi komin. „The Trolley Song“ var líka andskoti flottur og „A foggy Day“ rosalega kjút. Það kom þar inn í söguna þegar Sid Luft elti Judy til London. Hann varð svo þriðji eiginmaður hennar og faðir tveggja yngri barna. Elsta barnið var Liza Minelli sem fetaði í fótspor móður sinnar sem kunnugt er.

Lára leggur mikinn metnað í sýninguna eins og sést ekki síst á því að hún skuli hafa heilan sextett á sviðinu hjá sér. Þetta gefur flutningnum auðvitað alveg ekta svip þó að sviðið sé lítið og salurinn minni en Judy vandist á frægðarferli sínum. Mest er um vert að Lára fer afar vel með bæði lög og texta. Hún reynir ekkert að herma eftir Judy en rödd hennar passar vel við lögin og stundum var Lára furðulega lík Judy á svipinn. Þetta er bráðskemmtilegt kvöld bæði fyrir þá sem elska Judy Garland og þá sem aldrei hafa heyrt hennar getið.

 

Silja Aðalsteinsdóttir