Leikhópurinn Aldrei óstelandi hefur gert óhamdar ástríður að sérgrein sinni. Enn er í fersku minni útfærsla hans á Fjalla-Eyvindi í fyrra og í sýningunni Sjöundá í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu tekur hann nú fyrir hina hryllilegu og átakanlegu sögu af fólkinu á bænum Sjöundá á Rauðasandi sem Gunnar Gunnarsson túlkaði á sinn hátt í skáldsögunni Svartfugli. Það er sem fyrr Marta Nordal sem leikstýrir og Edda Björg Eyjólfsdóttir, sem í fyrra lék Höllu, leikur nú Steinunni Sveinsdóttur, aðra húsmóðurina á Sjöundá. Leikgerðin er eftir þær Mörtu, Eddu Björgu og leikhópinn.
Í Sjöundá erum við stödd á afskekktum bæ við sjávarsíðuna sem byggður er tvennum hjónum, Steinunni og Jóni Þorgrímssyni (Stefán Hallur Stefánsson) og Bjarna Bjarnasyni (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og Guðrúnu Egilsdóttur (Harpa Arnardóttir). Þó að þetta fólk hafi verið uppi fyrir meira en tvöhundruð árum eru búningar Helgu I. Stefánsdóttur nútímalegir. Þetta er saga sem getur gerst á öllum tímum.
Leikmyndin er einföld, fjögur rúm, og ekki er fyllilega ljóst í sýningunni hvort hjónin tvenn deila baðstofu. Þó er frekar gefið í skyn að hvor hjón hafi haft sínar vistarverur. Það sem verður alveg ljóst er að Steinunn og Bjarni verða hrifin hvort af öðru og smám saman nær sú kennd slíkum tökum á þeim að veruleikatengsl þeirra rofna, þau gera ekki lengur greinarmun á því sem er hægt og ekki hægt – eða því sem má og ekki má. Ástríða þeirra verður svo hamslaus að þau ná ekki að hugsa um annað en hvernig þau geti notist í friði fyrir mökum sínum. Þau fara að hugsa og síðan tala um það hvernig þau geti komið Jóni og Guðrúnu fyrir kattarnef og loks rennur allt saman í orði þeirra og æði, ástin, ástríðan og örvæntingarfull löngunin eftir að myrða.
Sáralítið samband virðist fólkið á Sjöundá hafa við fólk á öðrum bæjum. Ég fékk á tilfinninguna að Steinunni og Bjarna hefði í hvatabríma sínum fundist þau í rauninni ein í heiminum – ef ekki væru þessar óþörfu manneskjur sem þau bjuggu með og voru með sífelld leiðindi af öfund og afbrýðisemi. Í sýningunni er lítið minnst á börnin á bænum en þau munu hafa verið ófá. Það er óhugnanlegt til þess að hugsa hvernig þeim börnum hefur liðið í raunveruleikanum meðan þetta gekk á.
Texti verksins er mikið til spunninn upp úr og út frá yfirheyrslum yfir Steinunni og Bjarna sem afhjúpa á grimmilega hversdagslegan hátt trylltan hugarheim þessara leiksoppa ástríðna sinna – sem þrátt fyrir allt verður svo skiljanlegur í þröngu og fátæklegu rými Kúlunnar. Einnig eru vitnisburðir sveitunganna notaðir og skáldsagan Svartfugl. Og ekki spillti óvænt innslag úr Galdra-Lofti Jóhanns Sigurjónssonar þar sem önnur Steinunn talar um sínar ástríður. Með textanum eru notaðar kynferðislegar hreyfingar sem gefa í skyn að holdlegar áráttur Steinunnar og Bjarna hafi haft þau áhrif á allar fjórar manneskjurnar að ekkert hafi komist að nema holdleg mök. Þetta var verulega óhugnanlegt. Á móti komu ljóðrænar erótískar myndir á bakvegg af Steinunni og Bjarna sem kannski voru óþarfar en gáfu þó til kynna að þau hafi átt sínar sælustundir þrátt fyrir allt. Á sviðinu varð nautnin aldrei eins sterk og örvæntingin, ólíkt Fjalla-Eyvindi í fyrra.
Þetta er æðislegt efni og uppsetning Mörtu er sterk og ágeng. Þar munar mikið um lýsinguna sem Egill Ingibergsson hannar og stýrir en hver leikari hefur í rauninni sinn ljósamann. Dramatískri tónlistinni stýrir Stefán Már Magnússon. En hér er auðvitað allt endanlega komið undir leiknum. Stefán Hallur hefur minnsta aðalhlutverkið sem Jón, enda drepinn snemma, en var geysilega sterkur í stærsta atriðinu þar sem hann tjáir afbrýðisemi sína með orðum og athöfnum. Hann var líka myndarlegt yfirvald í yfirheyrslunum yfir morðingjunum. Sveinn Ólafur var sannfærandi í hlutverki Bjarna en kannski nokkuð haminn. Edda Björg er munúðarfull Steinunn og verður æ betri eftir því sem örvæntingin nær fastari tökum á henni. Atriðið þegar þau Steinunn og Bjarni rifja upp aðdraganda að dauða Guðrúnar var alveg kæfandi. Loks var Harpa geysilega mögnuð Guðrún, konan sem lifir langa mánuði eftir að Jón er „horfinn“ og skynjar betur og betur að hún á að deyja. Það var eins og Harpa rýrnaði fyrir augunum á manni, minnkaði, yrði að lokum eins og gangandi beinagrind. Uns ekkert hreyfist nema höndin – höndin sem verður eins og heil manneskja, hluti fyrir heild. Þvílík andskotans snilld!
Það er alveg óhætt að sjá Sjöundá án þess að hafa lesið Svartfugl. Í rauninni kemur sýningin skáldsögunni afar lítið við. Þetta er verk um einæði tveggja mannvera sem bitnar á ömurlegasta hátt á tveim saklausum manneskjum (og öllum börnunum). Túlkun þess og afleiðinga þess er það sem við komum til að sjá og velta lengi fyrir okkur á eftir.