Þær voru ólíkar eins og stundum áður jólasýningar stóru leikhúsanna í Reykjavík. Í Macbeth Þjóðleikhússins var stílfærsla í algleymingi með tilfærslu í tíma og allt; í Músum og mönnum Leikfélags Reykjavíkur á stóra sviði Borgarleikhússins ríkir hefðbundið raunsæi, svo rækilega útfært að jaðrar við ofurraunsæi. En mig langar til að segja það strax að eftirbragðið af báðum sýningum er afar gott.
Mýs og menn er alþekkt verk á Íslandi. Skáldsaga Johns Steinbeck frá 1937 hefur komið út þrisvar í frábærri þýðingu Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, síðast í kilju 2007, og leikritið, sem líka er eftir Steinbeck sjálfan, hefur verið sviðsett nokkrum sinnum í þýðingu Ólafs Jóhanns auk þess sem útvarpsflutningur þess er ákaflega minnisstæður. Leikstjóri að þessu sinni er Jón Páll Eyjólfsson og honum til liðsinnis við leikstjórnina og aðlögun texta að þessari sýningu er Jón Atli Jónasson.
Sagan gerist á kreppuárunum í Kaliforníu í Bandaríkjunum og segir frá farandverkamönnunum Georg (Hilmar Guðjónsson) og Lennie (Ólafur Darri Ólafsson) sem þvælast um sveitirnar, strita fyrir lítið kaup og eiga ekkert nema hvor annan. Það gerir tilveru þeirra ótrygga að Lennie er þroskaheftur og sést ekki fyrir. Hann sækir í að „klappa“ öllu sem er mjúkt og af því hann er gríðarlega sterkur á hann til að kremja það sem hann ætlar bara að strjúka sér til yndis. Hryggbrotin mús verður þeim vinunum að deiluefni í upphafi en þá eru þeir á leið í nýja vinnu eftir að hafa flúið úr síðustu vinnu vegna áreitni Lenna við stúlku. Hann ætlaði bara að strjúka mjúka efnið í kjólnum hennar en það gat hún ekki vitað og fór að láta öllum illum látum og klagaði Lenna þegar hún slapp.
Í þessari fyrstu senu eru faldir lyklar að öllu verkinu. Það er óhemjuvel spunnið og stíll Steinbecks, skemmtilega gamaldags blanda af bóklegu málfari og alþýðumáli, er listilega endurskapaður í þýðingu Ólafs Jóhanns.
Eiginlega er það skylda leikhúss sem á kost á leikara eins og Ólafi Darra að setja upp Mýs og menn. Hann getur verið í útliti og fasi alveg nákvæmlega eins og Steinbeck lýsir Lennie – og þá meina ég nákvæmlega! Og Ólafur Darri lifði sig svo sannarlega inn í hlutverkið í gærkvöldi. Hjarta manns sló aukaslög af angist vegna þessa risavaxna klaufa sem vissi ekki afl sitt og drap það sem honum þótti vænst um. Augnaráðið, talandinn, hreyfingarnar, brosið, sorgin – þetta var alveg makalaust. Og þó hefur maður séð margan góðan Lennann, ég minni bara á tvo þá seinustu sem ég sá, Jóhann Sigurðarson og John Malkovich.
Hilmar smellpassaði líka í hlutverk Georgs, þess litla sem passar þann stóra. Það var hreinlega spennandi að fylgjast með honum þegar þeir félagar koma á býlið og hann reynir að hindra að bústjórinn (Þröstur Leó Gunnarsson), Slim (Valur Freyr Einarsson) og Curley (Þórir Sæmundsson) tali við Lennie og komist að því hvað hann er vitlaus. Hilmar var líka átakanlega sannfærandi sjálfur í lokasenunni þó að hún væri klaufalega sviðsett. Þar á að fara eftir bókinni, takk! Hilmar gladdi áhorfendur síðast í hlutverki Kens í Rautt og er greinilega listamaður sem reikna má með.
Verkamennirnir eru vel skrifaðar persónur hjá Steinbeck og voru hver öðrum betri á sviðinu í gær. Auk þeirra sem þegar eru nefndir leikur Teodór Júlíusson Candy (og má segja að raunsæið næði nýjum hæðum í íslensku leikhúsi með handleggsstúfnum og þrífætta hundinum hans!). Kjartan Guðjónsson leikur Karlsson, Halldór Gylfason Whit og Sigurður Þór Óskarsson Crooks, „útlendinginn“. Mikið varð ég fegin í sýningarlok þegar ég sá að báðir handleggir hans voru eðlilegir.
Álfrún Örnólfsdóttir leikur konu Curleys, örlagavaldinn mikla sem rústar draumi félaganna um nýtt líf. Jón Páll hefur hana ekki glyðrulega eins og stundum er gert heldur er hún nákvæmlega það sem hún segist vera, væn og góð stúlka sem leiðist fásinnið og sækir þess vegna í félagsskap verkamannanna. Þeir vilja hins vegar ekkert af henni vita því þeir þekkja skapofsann í Curley. Félaga mínum í leikhúsinu finnst Steinbeck ekki hafa vandað sig við persónusköpun stúlkunnar; hann stytti sér leið með því að láta hana segja einfaldlega að henni leiðist, þess vegna leiti hún til þeirra. Stúlka sem leiddist myndi finna annað til að tala um við karlana en þó þannig að áhorfandinn eða lesandinn fyndi fyrir leiða hennar. Það er mikið til í þessu en Álfrún reyndist vel valin í hlutverkið þegar á reyndi.
Enn á ég eftir að nefna einn aðalleikara sýningarinnar: sviðsmyndina. Hún er eftir Ilmi Stefánsdóttur og virkar grótesk sem mynd en er algert meistaraverk þegar hún fer að leika sitt hlutverk. Búningar eru eftir þær Ilmi og Önnu Kolfinnu Kuran og þeir verða lengi í minnum hafðir, ekki síst hryllilegi samfestingurinn sem Ólafur Darri var í næst sér.
Þetta er klassísk sýning á klassísku verki. Hún kemur ekki á óvart í útfærslu eða túlkun en hún sannar rækilega hvað hefðbundin sviðsetning getur verið áhrifamikil þegar úrvalsgóður texti er leikinn af sönnum listrænum metnaði.