Söngleikurinn um Ronju ræningjadóttur eftir Astrid Lindgren, Anninu Enckell og Sebastian var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í gær fyrir fleytifullum sal af alveg ævintýralega fallegum, áhugasömum og stilltum börnum á öllum aldri. Endalaust fjölbreytta leikmynd, litríka búninga og heillandi lýsingu hönnuðu Finnur Arnar Arnarson, María Th. Ólafsdóttir og Ólafur Ágúst Stefánsson, Hjörtur Ingvi Jóhannsson sá um tónlistarstjórn en utan um allt saman heldur Selma Björnsdóttir leikstjóri styrkum höndum. Þorleifur Hauksson þýddi leiktextann eins og upprunalegu bókina en Böðvar Guðmundsson þýddi skemmtilega söngtexta Sebastians.
Við erum stödd í ævintýraskógi þar sem náttúran iðar af alls konar verum, ýmist stórhættulegum eða vita meinlausum – skógarnornum, grádvergum, rassálfum og huldufólki. Í kastala lengst inni í stóra skóginum og fjarri annarri mannabyggð býr Matthías ræningjaforingi (Örn Árnason) ásamt ræningjaflokki sínum, lifir á veiðidýrum en skýst inn á milli í veg fyrir ferðamenn og rænir þá verðmætum sínum. Í þessu samfélagi verða mikil hamingjuskipti þegar Matthíasi og Lovísu konu hans (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) fæðist dóttirin Ronja (Salka Sól Eyfeld). Telpan verður yndi allra en beinlínis átrúnaðargoð föður síns. Hann tímir lengi vel ekki að hleypa henni út úr kastalanum af ótta við að hún fari sér að voða. En Ronja er náttúruafl sem ekki verður hamið endalaust og við fylgjumst spennt með henni þegar hún mætir hættunum í skóginum.
Ronja eignast félaga á sínum aldri þegar annar ræningjaflokkur sest í leyfisleysi að í Matthíasarborg undir forustu Borka og Valdísar (Baldur Trausti Hreinsson og Edda Arnljótsdóttir). Þau eiga soninn Birki (Sigurður Þór Óskarsson) sem kynnist Ronju strax morguninn eftir flutningana. Þá standa þau hvort sínum megin við Helvítisgjána sem klífur Matthíasarborg í tvennt og metast og mana hvort annað til að stökkva yfir gjána uns Birkir fellur ofan í og Ronja bjargar lífi hans. Eftir það verður það daglegt brauð að þau bjargi lífi hvort annars enda margt sem getur komið fyrir djarfa og óforsjála krakka í þessu umhverfi.
Þó að börnin verði vinir verða feðurnir það ekki. Matthías tekur Birki sem gísl til að þvinga Borka til að yfirgefa Matthíasarborg en bregður í brún þegar Ronja stekkur yfir gjána til Borka og Valdísar í staðinn. Við þetta afneitar Matthías dóttur sinni og úr því að hann á enga dóttur þá á hún heldur ekki föður. Ronja flytur að heiman og sest að með Birki í helli í skóginum þar sem þau bjarga sér eins og best þau geta. Hér fjallar Astrid Lindgren á sinn einstaka hátt um nauðsynlega sjálfstæðisbaráttu barna og sálarkvalir feðra á öllum öldum sem þola ekki tilhugsunina um að dætur þeirra taki annan karlmann fram yfir þá.
Þessi sýning er geysimikið sjónarspil þar sem öll brögð og brellur leiksviðsins eru notuð. Hringsviðið sýnir okkur Matthíasarborg með undirgöngum sínum og turnum og náttúruna umhverfis með klettum, fossum og trjám. Blómstrandi kirsuberjatré var mikið augnayndi. Náttúruvættirnar voru ýmist óhugnanlega flottar eins og skógarnornirnar glitrandi eða bráðhlægilegar eins og rassálfarnir sem vöktu mikla kátínu í salnum. Þessar verur voru leiknar af miklum fjölda barna og ungmenna sem voru svo rækilega sminkuð og falin gervum að engin leið var að greina hver var hvað en þau nutu greinilega hverrar sekúndu.
Ræningjaflokkur Matthíasar var bæði skítugur og skrautlegur. Hinn ástsæli Skalla-Pétur hefur hér farið í kynleiðréttingu og var snilldarlega leikinn af Eddu Björgvinsdóttur. En alveg er það heimsmet hvað sú fagra kona gat orðið gömul og innfallin í þessu hlutverki. Ræningjarnir voru leiknir af Oddi Júlíussyni, Bjarna Snæbjörnssyni, Birni Inga Hilmarssyni sem fékk mikið fliss út af staminu og Sölva Viggóssyni Dýrfjörð. Allir dönsuðu þeir og sungu af fítonskrafti. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá hvað Sölvi „Billy Elliot“ Dýrfjörð er orðinn föngulegur ungur maður.
Örn og Vigdís Hrefna eru glæsileg ræningjakonungshjón og ekki bara á velli. Bæði túlka persónur sínar af skilningi og syngja vel; einkum fær Vigdís Hrefna að nýta sína einstöku sönghæfileika. Hlutverk Borkahjóna eru smærri en Baldur Trausti og Edda tóku sig vel út og Edda fær að segja smellnustu setningu verksins: „Systir … Jú, jú, ætli maður viti ekki hvernig það verður eftir nokkur ár!“
Ég var nokkuð hugsi yfir valinu í aðalhlutverkið af því að ég þóttist vita að ekki yrði sett á Sölku Sól svört tatarakolla eins og á fyrri Ronjur okkar. Gullhárið er hennar attríbút. En auðvitað er Matthías af víkingakyni og Ronja hans sannur aríi. Og Salka Sól var dásamleg Ronja, í einu orði sagt, þokkafull á sviði, einstaklega skýrmælt og söngurinn vitanlega frábær. Sigurður Þór var eins og sniðinn fyrir hlutverk Birkis, unglingslegur og knálegur. Þau Salka mynduðu frábært par á þeim aldri þegar fólk heldur að það vilji bara vera systkini – en grunar þó annað undir niðri.
Tónlistin var dillandi fjörug og kraftmikil, einum of kraftmikil fannst ungum félögum mínum því þeir áttu stundum erfitt með að heyra söngtextana. Maður verður auðvitað að heyra hvert orð, til dæmis í prumpulaginu, það er svo æðislegt! Dansar þeirra Birnu Björnsdóttur og Auðar B. Snorradóttur voru tröllslega flottir, enginn pempíuskapur eða tipl á tám heldur einmitt dansar eins og maður getur ímyndað sér í ræningjaborg.
Ég þakka innilega fyrir þessa góðu skemmtun en langar að nefna að lokum að þó að leikgerðin nái furðu miklu inn af dramatískri atburðarás sögunnar um Ronju ræningjadóttur þá kemst hún þó ekki í hálfkvisti við söguna sjálfa að auðugum og djúpum mannskilningi. Látið sýninguna verða tilefni til að rifja hana upp með börnunum.
-Silja Aðalsteinsdóttir