Leikhópurinn Allir deyja frumsýndi í gærkvöldi Griðastað eftir Matthías Tryggva Haraldsson í Tjarnarbíó. Verkið er að uppruna útskriftarverkefni Matthíasar úr Listaháskólanum og hann leikstýrir sjálfur.
Ég varð fyrst vör við Matthías Tryggva fyrir þrem árum á Ungleik í Borgarleikhúsinu, þar átti hann metnaðarfullt verk um heimsendi og sannleikann (hvorki meira né minna) en hafði ekki náð að koma því á enda. Næst kom Þvottur í Tjarnarbíó fyrir rúmum tveim árum, gott verk og situr í manni, verðugt tilhlaup að Griðastað. Matthías tekur sig alvarlega sem leikskáld og hefur efni til þess.
Griðastaður Lárusar (Jörundur Ragnarsson), einstaklings á óræðum aldri, er uppstillta baðherbergið í IKEA, þangað fer hann þegar hann þarf að fá næði, ná vopnum sínum, hugsa, láta sér líða vel. Þar líður honum líka vel, auk þess sem hann kann vel við sig í stofunni (ekki í eldhúsinu), og lagerinn – vá! IKEA er fullkominn staður, eiginlega himnaríki, það versta er bara hitt fólkið í IKEA, einkum ef það er afskiptasamt. „Get ég aðstoðað?“ er til dæmis óþolandi setning.
Griðastaður sýnir okkur nöturlegan einmanaleikann í sinni tærustu mynd, innan um steindauðar húsgagnauppstillingarnar. Sviðsmynd leikhópsins er einföld en þó margslungin. Speglarnir tvöfalda Jörund á sviðinu á lúmskan hátt og hillusamstæðan er völundarhús auk þess sem hún verður einstaklega áhrifamikill málarastrigi fyrir listilega lýsingu þeirra Egils Ingibergssonar meginsnillings og Hafliða Emils Barðasonar. Lýsingin bæði fylgdi og ýtti undir geðsveiflur Lárusar þannig að ég var allt í einu komin með gæsahúð niður í hnésbætur, og tónlist Ingibjargar Ýrar Skarphéðinsdóttur tók fullan þátt í leiknum, allt frá óræðum, lágum, pirrandi hljóðum sem virtust jafnvel koma úr salnum og upp í voldugar hljómkviður.
Hljóðmynd og lýsing áttu þannig stóran þátt í áhrifum verksins sem þar á ofan var eins og skrifað fyrir Jörund Ragnarsson. Ég trúi því varla en það munu vera sex ár síðan ég sá hann á sviði síðast í Hótel Volkswagen eftir Jón Gnarr og furðustutt tíu ár síðan hann lék Þann ljóta eftir Marius von Mayenburg (sem raunar hét líka Lárus … tilviljun?) þannig að ekki gleymist. Vandræðagangurinn í Lárusi í upphafi Griðastaðar var grátlega fyndinn í meðförum Jörundar og sýndi karakterinn í hnotskurn. Svo tók hann á sig óþægilegar, jafnvel háskalegar víddir þegar á leið. Verkið er heldur teygt enda sagan ekki stór sem sögð er en á móti koma óvænt endalok sem ekki verða gefin upp hér! Alveg þess virði að upplifa sjálf í Tjarnarbíó.
-Silja Aðalsteinsdóttir