Vigdís Grímsdóttir. Dísusaga.

JPV útgáfa, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2014

DísusagaDísusaga eftir Vigdísi Grímsdóttur er óvenjuleg bók. Nú mætti reyndar segja það um margar sögur Vigdísar en Dísusaga sker sig þó frá höfundarverki hennar – ekki síst fyrir þær sakir að segja má að höfundurinn sé annar en hinna bókanna sem hún er skrifuð fyrir. Þótt Dísusaga sé flokkuð með skáldsögum þá hefur Vigdís ekki dregið dul á að hér leyfir hún öðru sjálfi sínu að hafa orðið og rekja atburði bæði úr fortíð hennar og nútíð. Sjálfið Gríms verður til þegar Dísu er nauðgað tíu ára gamalli. Þá kemur Gríms til sögunnar sem bjargvættur – hún bjargar Dísu út úr skelfilegum aðstæðum en hún fer ekki aftur og á einhverjum tímapunkti hættir hún að vera bjargvættur og verður kúgari. Bókin er ekki um nauðgunina heldur afleiðingar hennar – þau rúmlega fimmtíu ár sem fylgja í kjölfarið og endalausa baráttu Dísu og Gríms um lífið og um orðið – þar sem Gríms er kona þöggunar en Dísa barn sannleikans.

Strax í upphafi bókar kemur í ljós að Gríms, sem hefur haldið um pennann undanfarna áratugi, ætlar að víkja um stundarsakir fyrir Dísu sem fær að skrifa sína fyrstu (og mögulega síðustu) bók. Þær gera með sér nákvæman samning sem felur í sér að Dísa fái tæpa tvo mánuði til verksins og Gríms má ekki grípa inn í nema til að koma með athugasemdir ef henni finnst Dísa vera komin of langt frá sannleikanum. Það verður fljótlega ljóst að Gríms mun ekki halda sér til hlés svo frá upphafi verður þetta barátta milli þessara tveggja radda. Dísa ber Gríms hörðum sökum en Gríms verst með kjafti og klóm og þótt Dísa sé að mörgu leyti hetja þessarar sögu þar sem hennar er upprisan og lífið þá öðlast Gríms líka samúð lesandans. Dísa getur verið grimm og það er erfitt að horfa upp á þá útreið sem Gríms fær – lesandanum finnst hann þrátt fyrir allt þekkja Gríms – sem hefur skrifað allar þessar bækur, sem klæðir sig í svart og virðist vera ósæranleg. Er þetta ekki sú Vigdís Grímsdóttir sem þjóðin þekkir – mest töff skáldkona sem Ísland hefur alið? Það tekur á að sjá Dísu úthrópa hana sem svikara, kúgara og hræsnara – jafnvel lélega skáldkonu!

Það liðu áratugir áður en Gríms gat rætt nauðgunina við nokkurn mann en Dísa telur að atburðurinn hafi haft mun meiri áhrif á öll hennar skrif en Gríms hefur viðurkennt: „Viltu ekki kannast við að bækurnar þínar hafa fjallað meira og minna um okkur tvær, um kúgarann og hinn kúgaða, um lífið og óttann, um raddirnar í höfðinu? segi ég. – Ansi held ég að það sé mikil einföldun, Dísa mín, segir hún …“ (bls. 131) Eftir þessa greiningu Dísu er ómögulegt annað en að skoða höfundarverk Vigdísar í nýju ljósi, sjá kúgarann og hinn kúgaða, lífið og óttann og raddirnar skyndilega sem rauðan þráð í verkum hennar. Tvær andstæðar raddir sem þó eru tengdar órofa böndum koma ítrekað fyrir í bókum Vigdísar, í Þögninni eru það Linda og amma hennar og nafna sem takast á, í Stúlkunni í skóginum eru það Hildur og Guðrún og í Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón hittir Ísbjörg fyrir stúlkuna á ströndinni svo dæmi séu tekin. Ísbjörg fær raunar sérstaka athygli í Dísusögu og á margan hátt spegla sögurnar hvor aðra, Ísbjörgu er nauðgað sem barni og unglingi og hún festist í nokkurs konar vítahring endurtekninga. Flótti hennar yfir í annan heim er svo aftur sambærilegur við yfirnáttúrulega heima sem aðrar persónur Vigdísar hverfa til. Hér mætti nefna Grím í Kaldaljósi og Einfríði í Grandavegi 7.

Í öllum tilvikum verða persónurnar fyrir einhverju sem gerir lífið óbærilegt og annar heimur og/eða annað sjálf kemur til bjargar. Bjargvætturinn reynist þó ávallt líka bera með sér ógn og Vigdís er meistari í að draga upp myndir af heillandi en óhugnanlegum samböndum sem mörkuð eru af valdi og valdleysi. Að þessu sögðu er það líka rétt hjá Gríms að það væri einföldun að ætla sér að útskýra allt höfundarverk Vigdísar á þennan hátt. Það hvarflar líka stundum að lesandanum að kannski sé Dísa ekki fullkomlega áreiðanlegur sögumaður þótt hún sé sú sem rýfur þögnina, opinberar og afhjúpar allt það sem „svarta þústin“ hefur reynt að þegja í hel. Þegar upp er staðið hafa þær kannski báðar eitthvað til síns máls.

Dísusaga er ekki alltaf auðveld aflestrar en það stafar ekki af því að dvalið sé við þann skelfilega atburð sem er kveikjan að bókinni. Vigdís fjallar lítið sem ekkert um nauðgunina – þeir aumu menn sem réðust á barn inni í skúr eru ekki þess verðir að þeir fái að vaða upp í bókmenntaverki áratugum síðar. Hér eru afleiðingarnar í brennidepli.

Við nauðgunina dregur Dísa litla sig í hlé sem fyrr segir, hún stígur til hliðar og Gríms fæðist. Dísa er fyrst þakklát en þegar í ljós kemur að Gríms ætlar ekki að fara aftur heldur taka yfir líf hennar fer hún að berjast á móti bjargvætti sínum. Auðvitað er höfundur hér að setja fram á skáldlegan hátt það sem gerist hjá börnum við mikil áföll: þroskinn staðnar á einhverjum sviðum en verður jafnvel of bráður á öðrum. Að sama skapi búa fleiri en ein manneskja í okkur öllum og stundum verða átök á milli ólíkra afla í huga okkar. En við jafn skelfilegan atburð og hér um ræðir verða þessi skil skýrari. Sakleysið hverfur við nauðgunina og barnið verður ekki samt. Það dregur sig í skel sína og við tekur Gríms sem virðist betur í stakk búin til að takast á við lífið.

En sambúðin er nánast samfellt stríð – Gríms er allt sem Dísa er ekki, Dísa vill klæðast litum en Gríms aðeins svörtu, Dísa vill skrifa um lífið og gleðina en Gríms um geðveiki og innilokun, Gríms drekkur bæði og reykir en Dísa þolir hvorugt. Þær eiga fátt sameiginlegt annað en ættlæga gláku sem gerir það að verkum að þær kjósa að ganga með sólgleraugu og ást sína á Norðurfirði þar sem bókin er rituð. Einstaka sinnum er þó vopnahlé þeirra á milli – og þær gera jafnvel eitthvað skemmtilegt saman:

Mér var boðið að lesa upp í íslenska sendiráðinu í London á morgun og ég get ekki farið ef þú veinar svona og öskrar og æpir. Ég vil ekki að fólk heyri í þér óhljóðin, Dísa. Ég má ekki missa stjórnina, þú skilur það.
– Má ég þá koma með þér, Gríms?
– Þú verður þá að lofa að vera til friðs og halda kjafti allan tímann.
– Ég lofa því ef þú lofar að reykja ekki inni á hótelherberginu, segi ég, og hún samþykkir það og við förum saman til London og hlustum á sendiherrann tala svo lengi um íslenska biskupa til forna að ég var alveg komin að því að stökkva fram og stöðva manninn. (bls. 85)

Þó að Gríms hafi upphaflega verið sú sem virtist hæfari til að takast á við lífið þá reynist raunveruleikinn henni oft erfiður og fyrir kemur að hún dansar á brún hyldýpisins í þunglyndi og drykkju. Þá sendir hún Dísu af stað út í lífið en skríður sjálf undir sæng. Fyrir umheiminum birtist þetta svo sem yfirgengilegt mislyndi og dyntir. Þótt margt sé óleyst við sögulok og vopnaglamur heyrist enn er óhætt að fullyrða að djúpstæð þrá eftir friði milli Dísu og Gríms eða í það minnsta vopnahléi sé undirliggjandi alla bókina og jafnvel í seilingarfjarlægð á síðustu blaðsíðunum.

En það eru hin sífelldu átök milli Gríms og Dísu sem gera Dísusögu á köflum erfiða aflestrar. Þau eru magnþrungin og skera oft inn að beini en á stöku stað ber dálítið á endurtekningum og frá fagurfræðilegu sjónarhorni hefði verið þakklátt að stytta þau. Auðvitað má segja að fagurfræði sé ekki allt og þegar upp er staðið þjónar endurtekningin vissulega tilgangi, enda kunnuglegt stef hjá Vigdísi – hún er erfið en hún hefur áhrif þar sem hún vísar í ævilanga baráttu raddanna – kannski er bókin hrárri og sterkari fyrir vikið. En mögulega hefði verið hægt að ná hvoru tveggja fram, fegurð og áhrifamætti. Dísa segir reyndar sjálf og það oftar en einu sinni að hún ætli ekki að ritskoða neitt né endurskrifa heldur láta textann halda sér eins og hann kemur frá henni. Auðvitað er varhugavert að taka öll orð hennar bókstaflega en það má staldra við ástæðuna fyrir þessari reglu – hún vill ekki ritskoða og pússa textann af því hún ætlar að reyna að losna undan kækjum skáldkonunnar Gríms. Hér gerir höfundur sem sagt tilraun til að komast undan sínum eigin hefðum og venjum sem og hinni hefðbundnu skáldsögu. Dísa gerir meira að segja að umtalsefni hina kvenlegu bókmenntahefð sem einkennist af smáatriðalýsingum og löngum forleik að hvörfum sögunnar (bls. 193). Kannski er þetta meðvituð uppreisn gegn hefðinni, fagurfræðinni og forminu? Gríms gagnrýnir nefnilega ekki bara efni og efnistök Dísu heldur ekki síður form hennar og uppsetningu sem flæðir óheft.

Ytri rammi bókarinnar er raunar gamalgróinn – sagan er í formi sendibréfs og bréfið stílað til elskhugans kisa sem Gríms lofaði nafnleynd fyrir mörgum áratugum. Skáldsaga í bréfum er kunnuglegt form sem þykir gjarnan gæða textann ákveðnum sannfæringarkrafti og raunsæi. En um leið skortir hið alsjáandi auga sögumannsins, sjónarhornið er takmarkað og lesandinn ofurseldur bréfritara hvað varðar allt sannleiksgildi. Það er þarna sem höfundurinn bregður á leik – sérstaklega þar sem Dísa og Gríms grípa iðulega fram í fyrir hvor annarri og draga í efa frásögn hinnar.

Skáldaleyfið sem Dísa tekur sér er undirstrikað – til dæmis þegar hún í öðrum kafla situr skrifandi við gluggann á kaffihúsinu á Norðurfirði og sér kisa koma með flugi að sunnan. Það er sumar í þeirri mynd sem hún dregur upp og einn heimamanna nýkominn af veiðum. En sem þeir kisi taka tal saman og heimamaður bendir honum á náttúrufegurðina allt um kring fer að snjóa og fjallahringurinn er snæviþakinn og ægifagur. Hér grípur Gríms inn í frásögnina enda ofbýður henni hvernig myndir Dísu stangast á: „Það er lágmark að þú ruglir ekki saman vetri og vori, talir ekki um vetrarmyndir og sumarveiðar í sömu andránni. Þú verður að gá að raunsönnu samhengi hlutanna ef þú ætlar að búa þér til einhverja eðlilega sérstöðu.“ (bls. 51) Hér má staldra við kröfuna um „eðlilega sérstöðu“ – það er sum sé nauðsynlegt að marka sér sérstöðu en hún verður að falla innan ákveðins ramma, hún verður að vera eðlileg. En Dísa lætur sér fátt um finnast – þetta er hennar frásögn sem lýtur hennar eigin lögmálum þar sem þættir eins og tími og rúm eru ekki heilagri en hvað annað.

Eitt það skemmtilegasta við bókina er tilraunin til að brjótast út úr hefðbundnu skáldsöguformi, formi sem er þrátt fyrir allt mjög íhaldssamt. Hér er aldrei fast land undir fótum – tími og rúm, skáldskapur og veruleiki blandast saman og Dísa virðist leyfa sér að fylgja þönkum sínum hvert sem þeir leiða hana. Enda gengur hún yfir til kisa og heilsar upp á hann þar sem hann stendur á bryggjusporðinum:

Og nú má ég til með að ganga til þín þar sem þú stendur því ég verð auðvitað að heilsa upp á þig í öllum töfrum: – Blessaður, lastu ekki fyrsta kafla bókarinnar sem ég sendi þér? segi ég. – Jú, nú skil ég hann, þú ert þá hún Dísa Gríms? segir þú. – Við erum stödd í öðrum kafla núna. Ég er rétt að ljúka við hann og akkúrat núna gerist það að við hittumst hérna í einhverjum dularfullum töfrum, það er ofboðslega gaman. Ég veit bara ekki hvernig þetta endar allt saman, segi ég. (bls. 50)

Hinn eiginlegi viðtakandi bréfsins er sem sagt kisi og bréfið skrifað sem lokatilraun til að lokka hann til baka – Gríms vill fá hann um aldur og ævi en Dísa í eina nótt. Kisi fær ekki sérlega góða útreið í sögunni – hann er hlægilegur og hættulegur í senn. Hann hefur óhugnanlegt vald yfir Gríms en er engu að síður dreginn sundur og saman í háði. Það er erfitt að skella ekki upp úr yfir kunnuglegum lýsingum á því hvernig hann birtist þjóðinni í fjölmiðlum:

… Kisi á tali við Birgi Andrésson myndlistarmann fyrir framan gamla Naustið. Kisi og rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson og Einar Kárason taka lagið á góðri stundu á Kaffibarnum. Kisi og Viðar Eggertsson skála fyrir Borgarleikhúsinu. Kisi og Gyrðir Elíasson ræða saman á Lækjartorgi. Kisi og vinkona hans fagna Jóhönnu Sigurðardóttur, nýkjörnum formanni Samfylkingarinnar … (bls. 20)

En mögulega kemur Gríms enn verr út úr frásögninni en kisi. Ef hann er holdgerving klisjunnar um egóistann og menntasnobbið þá er fellur Gríms í allar hugsanlegar gildrur undirgefnu konunnar sem auðmýkir sig endalaust í von um ást og viðurkenningu. Það er dásamlega óþægilegt fyrir lesandann að upplifa niðurlægingu Gríms sem er svo hættulega auðvelt að tengja beint við skáldkonuna Vigdísi Gríms og eftir mislukkaða tilraun Gríms til að drepa kisa er erfitt að stilla sig um að garfa í minninu og reyna að rifja upp hvort skáldkonan hafi einhvern tíma komist í fréttir fyrir líkamsárás. Þetta er bæði til marks um sannfæringarmátt bókarinnar sem og eðlislæga hvöt Íslendingsins til að heimfæra allan skáldskap uppá raunveruleikann og finna hverri einustu hræðu í bókmenntum samastað í Þjóðskrá. En einnig spilar hér inn í hvernig bókin dansar sífellt á mörkum skáldskapar og veruleika – á síðunum birtast raunverulegar persónur innan um þær skálduðu og skilin á milli þeirra oft óljós. Á einhvern þversagnakenndan hátt ýtir þetta stílbragð undir trúverðugleika bókarinnar. Sú tilfinning verður ráðandi að skáldskapurinn standi raunveruleikanum ekki að baki hvað varðar heiðarleika, heldur bæti jafnvel við einhverjum annars konar sannleika.

Þegar líður á söguna verður óhætt að draga þá ályktun að kisi sé ekki raunverulegur elskhugi af holdi og blóði heldur einmitt annars konar sannleikur. Hann er táknmynd fyrir eitthvað óáreiðanlegt en langþráð í lífi Dísu og Gríms – ástina, velþóknun samfélagsins eða jafnvel velþóknun lesenda Gríms. Þar snýr Vigdís skemmtilega á lesandann sem iðar í skinninu yfir því að átta sig á því hver þessi eftirsótti kisi er – ef það er svo lesandinn sjálfur sem við er átt. Hér leikur formið sjálft stórt hlutverk – þegar viðtakandi bréfanna er óljós og þögull er lesandinn sjálfkrafa settur í stöðu hans. Lesandinn verður kisi. En kannski er kisi þetta allt saman og meira til – enda segir Dísa í ávarpi í upphafi bókar:

Kæri kisi,
elskhuginn minn eini,
lesandinn minn,
gagnrýnandinn,
kvennabósinn minn,
snobbarinn
og tittlingurinn fagri,
heyrirðu í mér? (bls. 35)

Það verður berlega ljóst að velþóknun kisa er ekki eitthvað sem álitlegt er að byggja drauma sína á – hún er hverful og yfirborðskennd, ljúfsár og skemmtileg en svikul. Mismunandi afstaða Dísu og Gríms til kisa endurspeglar svo á margræðan hátt afstöðu þeirra til skáldskaparins og lífsins. Dísa er, þrátt fyrir allt, frjálsari og sjálfstæðari í hugsun en Gríms sem er reiðubúin að fórna öllu til þess að halda andlitinu gagnvart umheiminum. Dísu er nokk sama hvað öðrum finnst, hún þarfnast ekki kisa, velþóknunar lesandans né samþykkis umheimsins á sama hátt og Gríms. Hún gefur skít í þetta ef henni sýnist svo. En að sama skapi er það Gríms sem hefur haldið þeim stöllum gangandi í samfélaginu, utan stofanna, eins og hún bendir Dísu oftar en einu sinni á. Á þversagnakenndan hátt mætti þannig segja að þráin eftir velþóknun kisa hafi haldið þeim réttu megin við línuna. Þetta dulnefni elskhugans er rætt í bókinni og þótt Dísa hæðist sjálf að því liggja þræðir þess víða. Það kemur t.d. fram að það er Dísa sem málar Kisumálverkin svokölluðu sem skáldkonan Vigdís Gríms málaði þegar hún var haldin ritstíflu og svo er erfitt að líta fram hjá tilvitnun í frönsku skáldkonuna Colette í upphafi bókar: „Það er aldrei sóun á tíma að verja honum með köttum.“

Dísusaga er ævisaga í einhverjum skilningi en umfram allt er hún skáldsaga enda höfundurinn skáld. En það er ekki bara vegna skáldskaparins og hins óræða sem þetta er ekki hefðbundin ævisaga. Hér er hreinlega ekki mikið fjallað um ævi höfundarins í raunheimi. Æskunni er lýst einna mest en þó eru það meira brot og myndir og þegar kemur að uppvaxtar- og fullorðinsárum grípur forvitinn lesandi í tómt. Í öllu falli ef hann er að sækjast eftir upplýsingum um ástina, barneignir, búsetu, vini og kunningja og allt það sem oftast skreytir ævisögur. Enda segir í fyrsta hluta þar sem Gríms tíundar samninginn sem hún og Dísa gerðu sín á milli:

e) Skrifa ekki um foreldra okkar, systkini okkar og líf þeirra, nema að því litla leyti sem þau koma ef til vill við sögu og þá aðallega fyrir árið 1963. f) Sleppa allri umræðu um einkalíf VG sem skrifuð verður fyrir sögunni, þ.e. samböndum hennar við kalla (nema kisa) og konur og þá sérlega Maríu Guðmunds ljósmyndara nema hjá því verði alls ekki komist framvindunnar vegna og til þess að varpa ljósi á eitthvað sem óskiljanlegt er. (bls. 11)

Hér er markmiðið sem sagt að skrifa ekki um persónulega hagi höfundar – áherslan er einfaldlega á allt öðrum hlutum – nefnilega sambandi Dísu og Gríms og sambandi þeirra við höfundarverk Gríms – sem og áðurnefndan kisa. Eftir allt saman er þetta kannski ekki ævisaga Vigdísar Gríms heldur saga höfundarins sem er engu minna áhugaverð; átakanleg og skemmtileg lesning og engu minna persónuleg þó að á annan máta sé. Oft eru átök Dísu og Gríms um höfundinn meinfyndin: „Ég vil ekki verða fyrir áhrifum af táknabullinu sem Gríms hefur verið svo heilluð af síðustu misserin að bækurnar hennar hafa smám saman verið að turnast í álfasögur sem passa miklu frekar inn í þjóðsagnasöfn Sigfúsar Sigfússonar og Jóns Árnasonar, með fullri virðingu fyrir þeim, en almennilegar nútímabókmenntir 21. aldarinnar.“ (bls. 56) Í staðinn fyrir að lesandinn fái upplýsingar um hvar Vigdís Grímsdóttir bjó á sjöunda og áttunda áratugnum og hverjir komu í matarboð hjá henni þá fær hann Dísu og Gríms að hnakkrífast um innihald og ágæti Stúlkunnar í skóginum og Ég heiti Ísbjörg ég er ljón. Í stað þess að lesa um brúðkaup, jarðarfarir og utanlandsferðir lesum við hvernig Dísa tætir í sig stíl Gríms og hvernig Gríms verst fimlega. Við erum í raun að lesa uppgjör höfundar við sjálfa sig – og það mjög gagnrýnið og djarft, átakanlegt en líka bráðfyndið. Í Dísusögu skorar rithöfundurinn Vigdís Gríms sjálfa sig á hólm og gerir lesendur að hólmgönguvottum í magnaðri baráttu sem varpar nýju ljósi á allt hennar höfundarverk.

Maríanna Clara Lúthersdóttir