Þau voru ólík verkin þrjú sem við sáum þessa helgi. Á laugardaginn rifjuðum við fyrst upp Sprengda hljóðhimnu vinstra megin og fengum svo að sjá glænýjan gjörning eftir Magnús Pálsson á eftir, Stunu, í Listasafni Reykjavíkur. Í gær fórum við í Gestaboð Hallgerðar ferðaþjónustubónda á Hlíðarenda í Fljótshlíð og kynntumst hennar skrautlegu ævi í túlkun Hlínar Agnarsdóttur og Elvu Óskar Ólafsdóttur í Sögusetrinu á Hvolsvelli.
Sprengd hljóðhimna vinstra megin er verk í fullri lengd sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir tólf árum og er alveg ógleymanlegt, svo sjokkerandi ólíkt var það öllu sem ég hafði séð í leikhúsi á þeim tíma. Á laugardaginn var um það bil hálftíma bútur úr því sýndur í Hafnarhúsi sem gjörningur undir stjórn Þórunnar S. Þorgrímsdóttur og þó að það væri bagalega stutt nægði það til að minna mann á gömlu sýninguna, ekki síst vegna þess að það var flutt af sömu leikurum og þá. Þetta var líka algert landslið leikara, Arnar Jónsson lék greifann, Guðrún S. Gísladóttir greifafrúna, Edda Arnljótsdóttir greifadótturina, John Speight vonbiðil hennar, Kristbjörg Kjeld gömlu greifafrúna og Stefán Jónsson bílstjórann en ráðning hans að greifasetrinu hrindir atburðarásinni af stað. Guðný Helgadóttir hélt okkur við efnið með því að kynna stund og stað.
Stuna var flutt af miklum fjölda fólks sem saman myndar Íslenska hljóðljóðakórinn (Nýlókórinn). Þar mátti þekkja margan kunnan söngvara, til dæmis tóku þau Megas og Magga Stína þátt í flutningnum og Magnús Pálsson sjálfur. Verkið er túlkun Magnúsar á viðhorfi þjóðarinnar til Hallgríms Péturssonar sálmaskálds gegnum aldirnar og leggur upp frá orðum séra Matthíasar í kvæði hans um Hallgrím: ,,Atburð sé ég anda mínum nær / aldir þó að liðnar séu tvær; / inn í dimmt og hrörlegt hús ég treð. / Hver er sá, sem stynur þar á beð?” Í gjörningnum gerir kórinn þessa stunu smám saman ekki aðeins áþreifanlega með sameiginlegu átaki heldur býsna stóra og fyrirferðarmikla. Þetta var margslungið verk og gríðarlega áhrifamikið. Þeim fjölmörgu sem urðu að hverfa frá á laugardaginn bendi ég á að það var tekið upp og er nú sýnt á stóru tjaldi á yfirlitssýningunni um gjörninga Magnúsar í Hafnarhúsi.
Það er líka eins konar gjörningur sem Elva Ósk fremur í Sögusetrinu á Hvolsvelli. Þegar áhorfendur eru sestir í myndarlegan söguskálann geysist hún inn og verður hvumsa þegar hún sér allt fólkið því maður hennar, Gunnar ferðaþjónustubóndi á Hlíðarenda, hefur steingleymt að segja henni að það sé von á hópi þennan dag. Sjálfur er hann á hestamannamóti og í stað þess að koma beint heim þaðan fer hann í heimsókn til vinar síns Njáls á Bergþórshvoli. Það líkar Hallgerði ekki en ekki verður hún heldur hissa því Gunnar og Njáll eru algerar samlokur. Það er ekkert til að borða í búrinu svo Hallgerður sendir pólska vinnumanninn Melkó (Kristbergur Ómar Steinarsson) út í kaupfélag eftir vistum – hann á allra helst að kaupa Kirkjubæjarcamenbert sem hún er sólgin í og ef hann fæst ekki þar á hann að sækja hann beint til bóndans á Kirkjubæ.
Meðan Melkó er í sendiferðinni rekur Hallgerður fyrir okkur skrautlega ævi sína fram að þessum degi og þar kannast lesandi Njálu við margt. Auðvitað má spyrja hvers vegna Hlín Agnarsdóttir kýs að fara þessa krókaleið – af hverju rifjar hún ekki Njálu upp beint? En með því að flytja Hallgerði til okkar tíma segir hún að efni Njálu sé í raun og veru sígilt og þótt atburðir séu æði dramatískir þá gerist annað eins á okkar dögum. Enn veldur afbrýðisemi alvarlegum glæpum, jafnvel mannvígum, og enn berja karlar konur sínar, jafnvel með hrikalegum afleiðingum. Ég hygg að endursögn Hlínar á Njálu njóti sín betur eftir því sem áheyrendur þekkja söguna betur því að texti hennar er víða færður inn í nútímaaðstæður á snjallan og hugkvæman hátt.
Elva Ósk fór afar skemmtilega með frásögnina og búningurinn sem Rebekka A. Ingimundardóttir hannaði og hárið mikla sem Valdís Karen Smáradóttir gerði tóku sig afar vel út. Á eftir ræddi forstöðumaður Söguseturs, Sigurður Hróarsson, um Njálu við áhugasama gesti meðan þeir snæddu fiskisúpu. Hann fór nánar út í þá atburði sem Hallgerður ýjar að og baksvið þeirra en einkum hélt hann áfram með söguna og velti fyrir sér örlögum þeirra Gunnars og Hallgerðar. Þetta var með öllu um það bil tveggja klukkutíma upprifjun á Njálu og varla hægt að hugsa sér betri notkun á einum Hvítasunnudegi.