Það er gaman að fá tækifæri til að spjalla aðeins meira um Carmen og geta bætt því við sem láðist að nefna síðast. Kannski fannst mér alveg sjálfsagt að hópsenurnar með kórunum tveim, Kór og Barnakór Íslensku óperunnar, væru óaðfinnanlegar og þess vegna þyrfti ekki að geta þeirra sérstaklega. En auðvitað er ekki sjálfgefið að slík atriði heppnist vel eins og þau gerðu bæði á frumsýningunni fyrir viku og í gærkvöldi. Kórarnir eru samstilltir, syngja vel og kórfélagar fylla ágætlega út í misstór hlutverk sín í sýningunni.
Á sýningunni í gær var að nokkru leyti ný áhöfn. Carmen sjálf var þá sungin af Sesselju Kristjánsdóttur, Don José af Garðari Thór Cortes, Escamillo af Kristjáni Jóhannessyni og Micaëla af Þóru Einarsdóttur.
Það er erfitt að bera söngvara saman því ekki er röddin ein önnur heldur öll túlkunin. Sesselja var „heitari“ Carmen en Hanna Dóra, mýkri í hreyfingum og kynþokkafyllri á venjulegan hátt en hafði ekki eins góðan textaframburð og söng ekki eins glæsilega. Einnig var mikill munur á Kolbeini og Garðari í túlkun þó báðir syngi skínandi vel. Ég á bágt með að gera upp á milli þeirra en ef til vill verður Garðar trúverðugri Don José vegna þess hvað hann virkar ungur og sakleysislegur, auðveld bráð fyrir klækjakvendi. Kristján Jóhannesson er bráðungur söngvari og nýútskrifaður en stóð sig prýðilega í sínu erfiða hlutverki, ekki síst miðað við hvað hann hefur litla reynslu.
Eins og menn hafa séð í dómum um frumsýninguna heillaði Hallveig Rúnarsdóttir áheyrendur upp úr skóm og sokkum á frumsýningunni í hlutverki Micaëlu. Þóra er alveg dásamleg söngkona og mun reyndari en Hallveig og naut þess. Hún skein sem sú stjarna sem hún er á sviðinu í gær. En hlutverk Micaëlu passar alveg sérstaklega vel við persónu, útlit og útgeislun Hallveigar. Fyrir mitt leyti legg ég þær að jöfnu.
Í augum margra aðdáenda þessarar óperu er Sigríður Ella Magnúsdóttir hin eina sanna íslenska Carmen; hún söng hlutverkið hér í Reykjavík bæði 1975 og 1984. Það gladdi því þennan hóp að sjá Sigríði Ellu í eigin persónu í Hörpu í gær en hún hefur búið erlendis áratugum saman. Ég vona innilega að hún hafi skemmt sér vel á sýningunni.