Hinir gömlu Grikkir hafa verið rúmfrekir í lífi mínu undanfarið ár. Fyrst var það Heródótus með Rannsóknir sínar sem ég las mér til mikillar ánægju síðastliðið sumar í þýðingu Stefáns Steinssonar. Í gærkvöldi varð svo yngri samtímamaður hans á vegi mínum, gamanleikjaskáldið Aristófanes, þegar Þingkonurnar hans voru frumsýndar á stóra sviði Þjóðleikhússins í þýðingu Kristjáns Árnasonar og undir stjórn Benedikts Erlingssonar.
Aristófanes þekkjum við fyrst og fremst af snilldarverkinu Lýsiströtu, leikritinu um konuna sem fær kynsystur sínar til að beita kynlífsbanni á karla sína til að koma í veg fyrir stríð. Aþeningurinn Aristófanes þekkti vel til stríðsástands því að hann lifði Pelópsskagastyrjöldina sem lauk með ömurlegu tapi Aþeninga fyrir Spartverjum og þegar hann skrifaði Þingkonurnar var ný styrjöld hafin við Kórinþu. Ástandið í Aþenu var því afar slæmt á þessum tíma að flestu leyti og eins og í Lýsiströtu lætur Aristófanes konurnar taka málin í sínar hendur.
Aðalpersónu Þingkvennanna, Praxagóru (Harpa Arnardóttir), ofbýður sukkið, óráðsían og eiginhagsmunapotið í yfirstjórn Aþenu og þegar leikritið hefst hefur hún komið skilaboðum til fjölda kvenna sem laumast á hennar fund að næturlagi. Hún lætur þær setja upp falskt skegg og klæðast karlmannsfötum og segir þeim nákvæmlega hvernig þær eigi að haga sér. Um morguninn snemma fer hún með þær í þingið þar sem þær fá í gegn að konum skuli veitt öll völd í borgríkinu. Þær koma síðan á algerum kommúnisma: Allir eiga að láta ríkinu eftir allar eigur sínar og síðan á ríkið að sjá fyrir öllum þörfum þegnanna. Allir eiga að bera hið sama úr býtum og alger jöfnuður ríkja meðal frjálsra borgara. Og þó að ekki vilji allir hlíta þessum fyrirskipunum að óathuguðu máli verður þetta að því er virðist sæluríki þar sem borgararnir geta setið að veislum og lifað (mis)ljúfu (kyn)lífi í það óendanlega því ríkið borgar allt og þrælarnir vinna allt sem vinna þarf.
Erfitt er að gera sér grein fyrir afstöðu höfundarins til þessarar draumsýnar sem hann brýtur ekki niður beinlínis en auðvitað er allt efnið sett fram í hávaðasömum hálfkæringi. Leikarar og tónlistarmenn skemmtu sér hið besta í öllum ærslunum, dönsuðu og sungu eins og enginn væri morgundagurinn.
Margar setningar í leikritinu eiga fáránlega vel við enn í dag, ekki síst hér á Íslandi, enda hlýtur það að hafa verið freistingin sem stjórnendur Þjóðleikhússins féllu fyrir þegar verkið var tekið til sýningar. Það ýtir svo enn frekar undir þann skilning að leikritið sé líka um „okkur“ að leikmynd Axels Hallkels er skemmtileg stæling á sal Alþingishússins við Austurvöll. Þar skundar um ganga – til skiptis við persónur Aristófanesar – önnum kafinn þingvörður (Guðrún S. Gísladóttir) sem við og við hnýtur um einkennilegar leifar frá fornri tíð, áhorfendum til skemmtunar.
Þetta er galsafengið stykki sem nýtur vel orðsnilli þýðandans, Kristjáns Árnasonar. Það nýtur líka áheyrilegrar tónlistar Egils Ólafssonar sem konurnar syngja með valkyrjuna Heru Björk Þórhallsdóttur í broddi fríðrar fylkingar. Búningar Helgu Rósar V. Hannam voru klæðilegir og allt útlit sýningarinnar einkar ásjálegt.
Þingkonurnar verða seint taldar með merkari leikverkum heimsbókmenntasögunnar en sýningin var góð skemmtun, einkum fyrir hlé. Síðari hlutinn orkaði svolítið eins og efnið væri þrotið og ekki frá fleira að segja.