ÚtundanLeikritið Útundan eftir Alison Farina McGlynn, sem var frumsýnt í Tjarnarbíó í gærkvöldi á vegum Háaloftsins, er í stíl róttæku áranna þegar bókmenntir áttu að hafa beinan samfélagslegan tilgang. Og McGlynn er ekkert að leyna því; verkið hennar er um barnleysi og hún sýnir það vandamál frá furðumörgum sjónarhornum á ekki lengri sýningu. Leikstjóri er Tinna Hrafnsdóttir og hún þýddi verkið líka með miklum ágætum.

Við kynnumst þrem pörum vel í verkinu og því fjórða lítillega. Emmu og Benedikt (María Heba Þorkelsdóttir og Björn Stefánsson) hefur þegar tekist að verða ólétt í byrjun verks. Þau halda upp á það með vinum sínum, Davíð og Sylvíu (Benedikt Karl Gröndal og Svandís Dóra Einarsdóttir), sem hafa hátt um ánægju sína en hugsa bitrar hugsanir, einkum Sylvía, því þeim hefur ekki tekist þetta enn. Þar með eru Emma og Benedikt úr sögunni en leikararnir fá önnur hlutverk. Heba verður Júlía sem er gift Jóni (Magnús Guðmundsson) og Björn verður Símon sem er kvæntur Margréti (Elma Lísa Gunnarsdóttir). Þessi tvö pör eru í sömu sporum og Davíð og Sylvía og við og við hittast þær vinkonurnar á kaffihúsi og bera saman bækur sínar. Auk samtala er nokkuð mikið um eintöl í verkinu, þá stilla persónur sér upp og tala beint við áhorfendur. Þetta er kannski ákveðinn flótti höfundar frá því að koma öllu efninu til skila í samtölum en þau tókust þó ágætlega.

Símon og Margrét skera sig úr hópnum með því að vera mjög auðug. Það gerir þeim kleift að beita öllum dýrustu ráðum til að verða ólétt en gerir þau sannarlega ekki hamingjusamari, alltént ekki Margréti. Engin ráð duga, hvorki dýr né ódýr, og loks fær Margrét Símon til að samþykkja að ættleiða barn þó að honum finnst það mikil niðurlæging fyrir ættina. Margrét er alsæl uns babb kemur í bátinn og Elma Lísa túlkaði sveiflurnar í geði Margrétar af einlægri samúð og djúpum skilningi.

Útundan

Davíð og Sylvía eru í hormónunum – það er að segja hún – og svo hafa þau mök eftir bókinni. Það er að gera Davíð algalinn, hann fær lítið út úr þessum skipulögðu „ástarleikjum“. Sylvía er miðja verksins, sú sem virðist standa höfundi næst, og Svandís Dóra gefur henni breiðan og flottan prófíl. Það sást ekki síst þegar hún bregður sér í hlutverk sálfræðings Margrétar og setur allt annan svip á þá persónu. Vaxandi erfiðleikar í sambandi Davíðs og Sylvíu verða ljósir og skiljanlegir en ein besta senan milli þeirra er þegar látbragðsleikarinn Benedikt Karl fær að bregða á leik og hrella konu sína með því að sjá mús skjótast undir skáp í stofunni! Þá sjáum við líka hvað samband þeirra hefur verið innilegt og glaðlegt áður en örvænting barnleysisins náði valdi á þeim.

Júlía og Jón hafa notað hefðbundnar aðferðir til að verða ólétt og þegar í ljós kemur að það er sæði Jóns sem á sökina dettur Júlíu í hug að fá gjafasæði frá yngri bróður hans, Magga (Arnmundur Ernst Backman). Sá hluti verksins er kannski best skrifaður og var alveg óaðfinnanlega leikinn af þremenningunum. Þetta var „kímilegur léttir“ verksins, hrikalega fyndinn – einkum var framlag Arnmundar alveg dásamlegt – en um leið margslunginn og jafnvel með meinlegum undirtóni. Sá hluti á sér framtíð eftir lok verksins sem vel mætti skrifa um dramatískt leikrit …

Útundan er að sjálfsögðu einhæft verk, það hverfist um eitt efni og leyfir ekki mikla útúrdúra. En það er gaman að horfa á það, ekki síst af því hvað það er fjári vel leikið og vel sett upp hjá Tinnu. Jóní Jónsdóttir gerir gagnlega leikmynd, búningar Ólafar Benediktsdóttur eru vel við hæfi og hljóðmynd verksins sem Sveinn Geirsson sér um tekur góðan þátt í framvindunni og ýtir undir áhrifin af sterkustu atriðinum.

Í lokin langar mig til að óska aðstandendum Tjarnarbíós til hamingju með nýtt lifandi leikhús í borginni. Megi það lengi blómstra.

 

Silja Aðalsteinsdóttir