Valur Freyr Einarsson vill segja sögur á leiksviðinu, mikilvægar sögur, sögur sem skipta máli. Sagan hans um eina „svarta barnið“ á Suðurnesjum í verðlaunasýningunni Tengdó var bæði brýn og óvænt og hafði sterka skírskotun til samtímans. Sagan sem hann segir í Dagbók jazzsöngvarans, sem CommonNonsense frumsýndi á nýja sviði Borgarleikhússins í gær undir stjórn Jóns Páls Eyjólfssonar, er alveg eins brýn en ekki líkt því eins óvænt.
Í örstuttu máli fjallar nýja leikritið um samband feðga – eða réttara sagt sambandsleysi. Ólafur Haraldsson kerfisfræðingur, aðalpersóna verksins sem Valur Freyr leikur sjálfur, er vel metinn maður á vinnustað en illa skemmdur hið innra og á það til við mikið áreiti að missa alveg stjórn á sér. Þetta gerist í upphafi leiks þegar öldruð kona, Stella (Kristbjörg Kjeld), hringir til hans og segir honum þau tíðindi að faðir hans sé látinn. Ólafur hefur aldrei heyrt um Stellu sem segist vera „náin vinkona“ Haralds og honum dettur helst í hug að þetta sé hrekkur. En þetta er ekki hrekkur og smám saman kemst Ólafur að því að banvæna krabbameinið sem faðir hans var með og vináttan við Stellu var ekki það eina sem hann vissi ekki um föður sinn. Á æskuheimili hans ríkti svo mikil þögn að hann vissi ekki einu sinni að faðir hans hafði verið vinsæll söngvari og sungið sig inn í hjarta móður Ólafs á sínum tíma. Þetta hlýtur raunar að þýða að þögn móðurinnar hafi ekki verið minni en þögn föðurins.
Óhamingja Haralds stafar af uppvexti hans hjá sínum föður, sjómanninum Benedikt, sem Valur Freyr leikur líka (í frakka með hatt), og ofbeldinu sem hann beitti konu sína, Ásu (Kristbjörg í rauðri kápu með hatt), að Haraldi litla syni þeirra (Grettir Valsson) ásjáandi. Þær senur voru þær sterkustu í sýningunni og það var ekki síst Gretti að þakka sem er verulega magnaður leikari og algerlega sjálfsöruggur á sviði þrátt fyrir ungan aldur. Túlkun Kristbjargar á Stellu var líka dásamleg, einkum framan af þegar hún er að reyna að komast inn fyrir harða skel Ólafs.
Dagbók jazzleikarans er varla eiginlegt leikrit, frekar frásögn með leiknum atriðum. Framvindan var stundum dálítið ruglingsleg á frumsýningu, kannski af því að nöfn feðganna rugluðust saman einstaka sinnum, en verkið var líka óþétt. Þó að það sé tugga að segja það væri sniðugt að stytta sýninguna og þétta og sleppa hléinu. Aðferð Vals við samningu þessa verks er svipuð og í Tengdó og efnið líka harmrænt. Það sem einkum er ólíkt með sýningunum er að húmorinn var mun ríkari þáttur í Tengdó og dró úr tilfinningaseminni sem varð dálítið yfirþyrmandi í Dagbókinni.
Svið Ilmar Stefánsdóttur er hreinlega hlaðið drasli og framan af var alveg óskiljanlegt að þessi reglusami kerfisfræðingur skyldi safna slíku í kringum sig. En það hefur komið fram í viðtölum við aðstandendur að sviðsmunir séu allir úr Góða hirðinum svo að nærtækt er að líta svo á að þeir tákni allt það „drasl“ sem við berum með okkur úr fortíðinni, allar óuppgerðar sakir við ættingja og aðra sem við höfum átt saman við að sælda í lífinu – ef við getum ekki talað um hlutina og sópað þeim úr vitundinni. Annar umbúnaður, búningar Ilmar, tónlist Davíðs Þórs Jónssonar og lýsing Björns Bergsteins Guðmundssonar, var sömuleiðis vel hugsaður og útfærður að vanda þessa ágæta leikhóps.