Einstaka sinnum kemur fyrir að mér finnst ég vera orðin gömul (sem ég er) og í Perlunni í gærkvöldi komu augnablik þegar mér fannst ég hreinlega hundrað og eins. Þar var Stúdentaleikhúsið að sýna Djamm er snilld, verk eftir hópinn undir stjórn Tryggva Gunnarssonar, og það kom jafnvel fyrir að mér fannst að ég hefði aldrei verið ung. Alla vega ekki svona ung!
Sýningin byrjar á langri lifandi partýtónlist með söng utan sviðs. Atriðið var svo langt að mér datt í hug að kannski ætluðu þau bara að djamma úr augsýn og leyfa áhorfendum – eða áheyrendum í því tilviki – að ímynda sér hvað væri að gerast. Það reyndist rangt en ég fylltist öfund hvað eftir annað undir sýningunni yfir því hvað þau höfðu mikla orku og hvað þau sungu skratti vel.
Hópurinn dansar að lokum inn á svið og það er svaka stuð á öllum nema helst lúðanum Villa (Vilhelm Þór Neto) sem er orðinn rosalega fullur – enda vill enginn vera með honum og enginn býður honum í eftirpartý. Hann kemst þó heim og sinnir sínum líkamlegu þörfum sjálfur í ansi fróðlegu atriði. Morguninn eftir er hann sóttur í vinnu af góðri vinkonu sinni, Kirsti (Kirsti Lind Villard), sem lætur sig varða velferð hans þó að hún sé lofuð öðrum (Jón Oddur Sigurvinsson). Næsta djammferð fer ennþá verr. Þá reynir Villi að pikka upp einkar fallega stúlku (Svanhildur Heiða Snorradóttir) en tekst bara að ergja hana og móðga. Svo er hann barinn í leigubílaröðinni og er algerlega niðurbrotinn maður þegar hann er ávarpaður af kúl náunga (Villi Vill) sem spyr hvort hann langi ekki til að breyta lífi sínu. Okkar manni líst býsna vel á það og þeir ákveða stefnumót að viku liðinni. Hann þreyir vikuna (mjög skemmtilega útfærða) og fer þá enn á djammið þar sem hinn ókunni kynnir hann fyrir djammprinsinum (Andrés Pétur Þorvaldsson), fríðum, afar sjálfsöruggum ungum manni. Hann og hans fríska lið tekur Villa að sér, gerir á honum tótal meikóver og úthlutar honum öflugum aðstoðarmönnum (krúi) sem hlýða hans minnstu bendingu. Eftir það þarf hann ekki að fara bónarveginn að dömunum.
Rætast þá allir draumar Villa? Já. En selji maður sig djöfsa er viðbúið að ýmis óhæg skilyrði séu í smáa letrinu sem ekki er víst að maður nenni að lesa þegar allur heimurinn er í boði. Og þau geta komið manni í koll.
Sýningin er í afar hráslagalegum vatnstanki undir Perlunni, fyrrum húsnæði Sögusýningarinnar. Hann endurómar háværa tónlist prýðilega en flytur talmál nokkru miður. Sýningin er geysilega hress, ung og djörf (bönnuð innan tólf ára). Þeir leikarar sem reynir á standa sig ágætlega, einkum Vilhelm Þór, og hópurinn allur lætur vel að stjórn leikstjórans.