Hún var eins ekta og hún gat orðið, umgjörðin utan um jólasýningu Frystiklefans á Rifi, Mar, þegar við sáum hana í gær. Rokið burstaði öldurnar við norðurströnd Snæfellsness eins og það vildi hindra að þær næðu landi og hristi um leið bifreiðina óþyrmilega til á veginum. Ég hefði ekki viljað vera úti á sjó. Inni í leikhúsinu var líka hrollkalt, og hjálpaði það áhorfendum að lifa sig inn í atburðina sem verkið segir frá. Það var satt að segja mjög áhrifaríkt. Maður gengur alveg inn í það sem sýnt er og sagt frá við þessar aðstæður.

Í Mar er sögð saga tveggja sjóslysa með 35 ára millibili. Frá þeim er sagt í leikskrá með úrklippum úr blöðum, en sé áhorfandinn ekki búinn að lesa leikskrána þeim mun betur verður atburðafléttan helst til flókin fyrir þá sem vilja hafa slíkt á hreinu. Endanlega ræður það þó ekki úrslitum um áhrifamátt sýningarinnar.

Mar

Kári Viðarsson og Freydís Bjarnadóttir

Önnur sagan er af því þegar togarinn Elliði frá Siglufirði fórst undan Öndverðarnesi fyrir 53 árum, nánast upp á dag, 11. febrúar árið 1962. Svo giftusamlega vildi til að togarinn Júpiter var ekki langt undan og gat bjargað 26 af 28 manna áhöfn. Áður höfðu tveir skipverjar komist í gúmmíbát sem slitnaði frá sökkvandi skipinu, þeir fundust látnir. Kári Viðarsson og Hallgrímur H. Helgason byggja annan hluta leikverksins á viðtölum við Birgi Óskarsson sem var loftskeytamaður á Elliða og við lifum þessar hræðilegu klukkustundir í kolniðamyrkri og óveðri með honum. Við fáum líka að vita að hann á unga konu í landi sem er komin að því að fæða barn þeirra. Sem loftskeytamaður á Birgir helsta þáttinn í að þeim er bjargað og Kári hefur orðið sér úti um upprunalegu upptökuna af talstöðvasamskiptunum milli Júpiters og Elliða. Það setur sterkan raunveruleikasvip á sýninguna. Strax í bláupphafi sýningar, þegar kunnugleg útvarpsrödd (Björg Eva Erlendsdóttir?) les tilkynninguna um að báts sé saknað, fer um mann dauðans hrollur sem ekki yfirgefur kroppinn fyrr en löngu eftir að sýningu lýkur.

Báturinn sem saknað var er efni hins hluta Marar sem er saga Freydísar Bjarnadóttur leikkonu í sýningunni. Hún missti stjúpa sinn á trillunni Margréti frá Hellissandi árið 1997; lík hans og félaga hans fundust aldrei. Það hefur varanleg áhrif á aðstandendur eins og oft hefur verið fjallað um og var gert mjög fallega í þessu verki.

Þessi tvö sjóslys og þessar tvær sögur eru ofnar saman í verkinu – saga Birgis, eiginkonu hans í landi og baráttu hans og félaga hans á Elliða fyrir lífi sínu, og saga Freydísar sem saknar mannsins sem hún kallaði bara einu sinni pabba. Skilin milli atvikanna verða alls ekki skýr því Freydís leikur báðar konurnar og Kári báða karlmennina. Honum tekst betur að gera skil á milli karaktera sinna en henni, en í raun og veru skiptir það ekki höfuðmáli. Erindi leiksýningarinnar er að sýna okkur hlutskipti sjómannsins annars vegar og aðstandenda hans í landi, kvenna og barna, hins vegar. Það tekst mjög vel, ekki síst af því hvað Freydís er innlifuð og einlæg og Kári kraftmikill í sínum leik.

Stóran þátt í því hve vel tekst til á svo öll umgjörðin sem fyrr var nefnd og sviðið sem Kári hannaði sjálfur. Sjómennirnir sem hann leikur eru á fleka sem hangir í keðjum niður úr loftinu í Frystiklefanum og fer á fleygiferð þegar gefur á bátinn. Auk þess fylgir gífurlegur vatnsaustur í öllum hamaganginum og má gera ráð fyrir að það sé bæði sjór sem streymir inn í sökkvandi skip og regnhryðjur að ofan. Þetta eykur allt á alvöru leiksins svo að hann má eiginlega ekki sannari vera.

Leikstjóri er Árni Grétar Jóhannsson, hann á þakkir skildar fyrir sitt verk og einnig Ragnar Ingi Hrafnkelsson fyrir hljóðmyndina og Friðþjófur Þorsteinsson og Robert Young fyrir lýsinguna sem var látlaus en jók umtalsvert á áhrifin þegar hún fékk leyfi til þess.

Silja Aðalsteinsdóttir