Þú kemst þinn vegFinnbogi Þorkell Jónsson ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í sínu fyrsta leikverki, Þú kemst þinn veg, sem var frumsýnt á sunnudagskvöldið í Norræna húsinu undir stjórn Árna Kristjánssonar. Verkið byggir Finnbogi á samtölum við Garðar Sölva Helgason sem hefur glímt við geðklofa frá unga aldri en hefur þróað sitt eigið umbunarkerfi til að ná tökum á lífi sínu. Það hefur reynst honum svo vel að hann er nú farinn að halda fyrirlestra í skólum og stofnunum um líf sitt, baráttuna við kerfið og sjúkdóminn.

Finnbogi tekur einmitt upp þráðinn þar. Í verkinu er hann góður vinur Garðars, Guðmann að nafni, sem ætlar að halda fyrirlesturinn fyrir hann vegna þess að Garðar er forfallaður. Þó er greinilegt að Guðmann hefur ekki fulla sjálfstjórn sem fyrirlesari, það er í honum óeirð, hann getur ekki einbeitt sér að efni sínu en er á stöðugu iði og hleypur úr einu í annað bæði í orðum og hreyfingum. Þetta gerði Finnbogi á verulega sannfærandi og oft fyndinn hátt sem dró úr alvörunni sem auðvitað umleikur efnið. Og hjálparkokkur hans, Stefán (Stefán Ingvar Vigfússon) varð smám saman verulega pirraður út í hann (sem líka var ansi fyndið). Maður skildi það vel og fann til með stráknum sem þurfti að fara að fara í vinnuna og hafði ekki tíma til að hlusta á fimbulfambið í Guðmanni. Það er líka á endanum Stefán sem klárar fyrirlestur Guðmanns með því að benda honum á að niðurstaðan og boðskapurinn séu þegar komin hjá honum!

Fyrirlesturinn er brotinn upp við og við með svipmyndum úr æsku Garðars. Þar leikur Finnbogi bæði Garðar og þá sem hann á samskipti við, einkum móðurina. Ekki veit ég hvort þessi samskipti áttu að gefa einhverja skýringu á sjúkdómi Garðars en eitt varð alveg ljóst, það var ekki hlustað á þennan dreng þó að hann hefði frá alvarlegum hlutum að segja. Allt var það mjög kunnuglegt. Það er svo auðvelt að þagga niður í börnum, ekki síst ef þau eiga erfitt með að koma orðum að því sem þau vilja og þurfa að segja. En einmitt þá er brýnust ástæða til að gefa sér tíma til að hlusta og skilja það sem verið er að segja frá. Þetta voru nöturlegar myndir sem Finnbogi kom ágætlega til skila.

Finnbogi og Árni völdu Norræna húsið til þess að fá eðlilegt umhverfi fyrir þann „fyrirlestur“ sem verkið er og það virkar ágætlega. Áhorfendur sitja við borð og hjálparkokkurinn er á þönum við að færa gestum kaffi undir stjórn Guðmanns. Þetta er frumlegt verk sem kemur mörgum við og full ástæða til að mæla með því líka við þá sem ekki þekkja vandann af eigin reynslu.

Silja Aðalsteinsdóttir