Þær voru ólíkar leiksýningarnar tvær sem við sáum þessa helgi. Í annarri var flókin saga sögð með einföldustu ráðum, tveir sögumenn á Sögulofti sem skiptu frásögninni með sér, enginn hljóðheimur nema raddirnar og fótatakið á timburgólfinu. Hins vegar fimmtíu manna hópur leikara og dansara plús hljómsveit sem sagði einfalda sögu með öllum ráðum sem gott tæknileikhús hefur yfir að ráða, meira að segja flugtækni, söng, dansi og listrænum áflogum: Skálmöld Einars Kárasonar og Billy Elliot.
Billy Elliot var fyrst bíómynd sem Stephen Daldry gerði árið 2000 eftir handriti Lee Hall. Vel gerð og áhrifamikil mynd sem ég hef séð oft. Fimm árum síðar var söngleikurinn frumsýndur með tónlist eftir Elton John; hann sá ég í fyrsta skipti í gærkvöldi og get ekki sagt að ég kannaðist við neitt í músíkinni nema auðvitað partana sem Elton John notar úr eldri verkum eftir ýmsa höfunda (og jafnvel sjálfan sig, heyrðist mér). Þýðing Karls Ágústs Úlfssonar á leik- og söngtexta hljómaði vel og tónlistin er áheyrileg og þjónar sínum markmiðum. Líklega hefur þó ekkert lag úr söngleiknum orðið verulega þekkt á eigin forsendum. Tónlistarstjórnina hefur Agnar Már Magnússon með höndum.
Sagan gerist á æskustöðvum Lee Hall, í kolanámuhéraði í Norðaustur Englandi, á verkfalls- og átakatímum upp úr 1980 þegar Margaret Thatcher var að breyta bresku þjóðfélagi til frambúðar – og til hins verra að margra (flestra) mati. Billy – sem Hjörtur Viðar Sigurðarson lék á sýningunni sem við sáum – er bæði sonur og bróðir námumanns og á að læra að boxa til að geta betur varið sig í framtíðinni. En honum finnst ekkert varið í að berjast, hann langar að dansa og hefur það frá ömmu sinni (Sigrún Edda Björnsdóttir) sem þráði að dansa öll sín bestu ár en fékk ekki. Móðir Billys (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) er dáin en heldur samt áfram að skipta sér af drengnum sínum ástúðlega. Billy villist inn í tíma hjá frú Wilkinson (Halldóra Geirharðsdóttir) sem er að kenna hópi af stelpum ballett og smám saman flækist hann í net kennarans sem er fljót að sjá að drengurinn hefur hæfileika til að dansa. Pabbi Billys, Jackie (Jóhann Sigurðarson), er í fyrstu andvígur þessu nýja áhugamáli sonarins og Tony stóri bróðir (Hilmir Jensson) en beinlínis hatursfullur en Billy er staðfastur. Og þegar frú Wilkinson vill hjálpa Billy fjárhagslega til að komast í inntökupróf í Konunglega listdansskólann í London bregst faðirinn við eins og Björn í Brekkukoti. Fátækir verkfallsmenn og ekki eins fátækir verkfallsbrjótar leggja saman til að Jackie geti farið með Billy í prófið og allir verða innilega glaðir þegar strákurinn kemst inn. Þá erum við búin að sjá hann dansa við draummann sinn (Karl Friðrik Hjaltason) sem á að sýna okkur Billy fullvaxinn, glæsilegan ungan, klassískan ballettdansara. Það var með fegurri senum í sýningunni.
Í baksýn sögunnar um drenginn sem þráði að dansa, þó að ekkert í nærumhverfi hans hvetti hann til þess, eru hrikaleg átök í héraðinu og árlangt verkfall sem lýkur með ósigri námumanna. Þessi átök verða eðlilega mildari á sviði en í bíómynd því hér dansa allir, námumenn, lögregla og almenningur, danssporin hans Lee Proud. Margar senur voru rosalega flottar þar sem ólíkir litir á búningum átakaaðila fléttuðust saman og mynduðu fjörleg munstur. Helga I. Stefánsdóttir hannaði búningana en leikmyndina hannaði Petr Hlousek sem sá til dæmis um sviðið í Mary Poppins. Hér gefur sviðið sannfærandi mynd af umhverfi sögunnar, kaldranalegum bæ í gráum tónum.
Af einstaklingum kynnumst við best fjölskyldu Billys. Sigrún Edda, þessi stelpa, varð furðugömul í hlutverki ömmunnar og lifði sig af mikilli nautn inn í hugarheim gömlu konunnar sem er orðin svolítið rugluð en veit samt sínu viti. Atriðin með henni léttu iðulega stemninguna. Hilmir var öflugur Tony, reiði hans og heift var beinlínis áþreifanleg. Jóhann var mildari í hlutverki föðurins, frekar þungur og fúll en heiftúðugur en fyrst og fremst innlifaður í hlutverkið eins og hans er vandi, og ekki ónýtt að hafa svona dásamlegan söngvara í þessu hlutverki. Lagið sem hann syngur á kránni, einn, var meðal hápunkta sýningarinnar í mínum augum og eyrum. Fundur þeirra Halldóru í hlutverki frú Wilkinson var líka magnaður. Halldóra var afar kraftmikil í sínu hlutverki en stundum á mörkunum með að vera of grimm, hún mætti bæta meiri húmor í túlkunina framan af.
Fjöldi þekktra leikara er í stórum og smáum hlutverkum og sinnir þeim af alúð. Einkum má nefna Þórunni Örnu Kristjánsdóttur í hlutverki aktívistans Lesley, Örn Árnason, Álfrúnu Helgu Örnólfsdóttur og Hilmar Guðjónsson í skondnu hlutverki undirleikara frú Wilkinson. Gervið á honum var sérstaklega fyndið en Árdís Bjarnþórsdóttir sá um leikgervin.
En sýningin stendur og fellur með drengnum í hlutverki Billys. Eitthvað fór úrskeiðis með mögnunina á söng Hjartar Viðars þannig að hann kom ekki nógu vel út en hreyfingar piltsins voru fallegar. Hann er með einkar sveigjanlegan hrygg sem hann notaði vel í dansinum. Og leikur hans var verulega góður, bæði í gleði og sorg. Hann er fríður drengur og á auðvelt með tilfinningatjáningu í svip og fasi svo að hann kom léttilega út á manni tárunum þegar mest gekk á í tilfinningalífinu. Vin hans og félaga, Michael, lék Grettir Valsson á þessari sýningu og gerði það sömuleiðis undurvel. Atriðið þegar þeir klæða sig í fötin af systur Michaels og dansa á hjónarúminu var eldfjörugt og ekta strákalegt þrátt fyrir kjólana.
Það er reynsluboltinn Bergur Þór Ingólfsson sem leikstýrir Billy Elliot og full ástæða til að óska honum til hamingju með enn einn sviðssigurinn. Ég veit ekki hvað er uppselt á margar sýningar af Billy Elliot en ég segi það satt að ég væri alveg til í að sjá hina „Billýana“ og sitja þá fyrir miðjum sal því fjöldasenurnar njóta sín ekki úr sæti á fremsta bekk. Þaðan sér maður hins vegar einstaklega vel hvert svipbrigði og hverja smáhreyfingu sem er dýrmætt þegar vel er gert.
PS Stundum dettur mér í hug að leikhúsmenn hafi gleymt hlutverki leikskráa. Þær eru handbækur sem gott er að fá í handhægu og vasavænu formi en ekki í yfirstærð eins og leikskrá Billy Elliot.