Það á að reisa stórt hótel á Arnarhóli og álfarnir sem þar búa eru í uppnámi. Það eru líka ýmsir áhugamenn um óbreytt miðborgarlandslag – og þegar álfar og menn taka höndum saman þá eiga umhverfissóðar ekki séns.
Þetta er í örstuttu máli efni nýrrar leiksýningar Hugleiks sem heitir því langa nafni „Stóra hangikjöts-, Orabauna- og rófumálið, taðreyktur sakamálatryllir“. Það er eftir gamalreynda Hugleikara, Önnu Kristínu Kristjánsdóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur og Unni Guttormsdóttur en Hrund Ólafsdóttir stýrir.
Nafnið segir hálfa söguna því það sem álfarnir taka til bragðs undir styrkri stjórn Helgu drottningar sinnar (Sigríður Bára Steinþórsdóttir) er nefnilega að stela öllu hangkjöti sem til er í landinu ásamt Orabaunum og rófum svo að óþolandi vöntun verður á þessari nauðsynjavöru í samfélaginu. Álfarnir koma ránsfengnum fyrir í búri nýlegs veitingahúss sem aðalstuðningsmaður þeirra, Sigmar (Halldór Sveinsson) rekur og þar finnur rannsóknarlögreglumaðurinn Ólafur (Ingvar Örn Arngeirsson) allt góssið. En þá hefur hann látið heillast af bláklæddu álfadrottningunni svo hann hallast ósjálfrátt á sveif með lögbrjótunum. Sigmar finnur líka ástina fyrir sitt leyti í Ásu (María Björt Ármannsdóttir), bóndakonu frá Orkneyjum sem er brjáluð í handkjöt með uppstúf en Signý vinkona hennar neyðist til að flýja land með Illuga manni sínum sem gefst upp á hótelbyggingunni. Henni er það þó ekki leitt því hún er afskaplega hænd að manni sínum, sko, þannig að allir enda hjá ástinni sinni að lokum.
Hér er allt með Hugleikssniði eins og sést strax á nöfnunum (Ása, Signý og Helga, Ólafur (liljurós)). Söguþráðurinn er í rýrasta lagi enda er hann ekki teygður lengi, sýningin er bara fimm stundarfjórðungar og brotin upp með firna skemmtilegum lögum og haglega ortum textum eftir Árna Hjartarson. Undir sönginn leika Óskar Þór Hauksson sem tekur líka duglega þátt í honum og Björgúlfur Egill Pálsson. Nokkrir leikaranna hafa áður sést í sýningum Hugleiks, til dæmis álfadrottningin sjálf, Sigríður Bára, sem bæði leikur og syngur af list og innlifun. Halldór Sveinson hef ég ekki séð áður en hann hefur greinilega næma tilfinningu fyrir gamanleik sem naut sín einkar vel í gærkvöldi.
Sýningar eru á Eyjarslóð 9 og verða fáar þannig að áhugamenn um Hugleik verða að drífa sig.