Það var ekki laust við að gæsahúð hríslaðist um mig þegar ég gekk í salinn í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Á stóra sviðinu blasti við sjálfur ævintýraskógurinn, dimmur og djúpur, með himinháum laufþungum trjám sem sólargeislar seytluðu í gegnum. Þarna lagði Börkur Jónsson leikmyndahönnuður upp til dýrlegrar skemmtunar enda var sýningin framundan um frægasta útlaga allra tíma: Í hjarta Hróa hattar.
Eiginlega er merkilegt að hugsa til þess hvað útlagaþjófar eru furðulega spennandi í bókmenntunum. Samt hljóta þeir yfirleitt að lifa aumu lífi, hundeltir jafnt af yfirvöldum og venjulegu fólki sem leiðist að láta ræna sig. En lítið bara á allar ódauðlegu útilegumannasögurnar, Grettis sögu, Eyvind og Höllu, fólkið hennar Ronju ræningjadóttur, Bláskjá … Og ekki síst sögurnar af Hróa sem hafa verið sagðar í margar aldir.
Hrói hefur yfirleitt það orðspor í sögum að ræna frá þeim ríku og gefa þeim fátæku en í leikriti Davids Farr, sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi í þýðingu Garðars Gíslasonar, er hann í upphafi bara venjulegur bíræfinn þjófur og skíthæll. Þessi Hrói (Þórir Sæmundsson) hefst við með lið sitt í Skírisskógi í Jórvíkurskíri á Englandi og ræðst á ferðamenn sem þar eiga leið um, rænir af þeim öllu fémætu en leyfir þeim síðan að fara. Hann drepur sem sagt ekki.
Dag nokkurn kemur í skóginn til hans ung aðalsmær, Maríanna (Lára Jóhanna Jónsdóttir), eldri dóttir hertogans af Jórvík. Faðir hennar er í krossferð með Ríkharði ljónshjarta konungi landsins og ekki væntanlegur heim í bráð. Yngri systir hennar, Henríetta (Katrín Halldóra Sigurðardóttir), vill ólm að hún giftist til að sjálf geti hún tekið einhverjum af sínum ótal biðlum. En Maríanna vill ekki giftast bara til að giftast, hún vill láta gott af sér leiða, þess vegna fer hún út í skóg með sínum trúa þjóni Pierre (Guðjón Davíð Karlsson) og ætlar að verða göfugur ræningi eins og hún heldur að Hrói sé. En Hrói vill ekkert kvenfólk í sínum skógi og hrekur hana frá sér.
Skömmu seinna fær Maríanna gilda ástæðu til flótta af því að hinn slóttugi valdaræningi Jóhann prins (Sigurður Þór Óskarsson) vill biðja hennar. Henni líst bölvanlega á það, svo að hún tekur á sig karlmannsgervi, kallar sig Martein, leggur undir sig annan hluta Skírisskógar og fer að iðka það sem hún hélt að Hrói gerði: ræna frá þeim ríku og gefa hinum fátæku. Nú er spurningin hvort Skírisskógur er nógu stór fyrir þau bæði og hvort Maríanna getur endalaust flúið sinn stórættaða og ofbeldisfulla biðil.
Söguþráðurinn er sannkallað rómantískt ævintýri með öllum nauðsynlegum efnisþráðum, spennu, ofbeldi, gríni og heitum tilfinningum. Hér minnir líka ýmislegt á Shakespeare – stúlka í karlmannsgervi sem heillar bæði karla og konur og bráðfyndið hirðfífl. Kannski er ekki eitt frumlegt atriði í öllu verkinu en það breytir engu um að það er rosalega skemmtilegt – of gróft og harkalegt til að henta börnum (á einum stað er tunga rifin úr höfði lifandi manns) en upplagt fyrir unglinga og aðra ævintýraþyrsta – og sýningin rennur létt eins og lækur niður fjallshlíð. Allur sýningarbragur er sérkennilega einlægur og aðlaðandi og full ástæða til að gefa leikstjórunum, Gísla Erni Garðarssyni og Selmu Björnsdóttur, stóra rós í sitt hnappagat.
Þórir Sæmundsson er eins og sérhannaður í hlutverk Hróa, spókaði sig sjálfsöruggur og flottur í sinni leðurbrók og vesti með myndarlega bringuna bera. Lára Jóhanna var jafnglæsileg sem Maríanna og Marteinn og tók hiklaust að sér að verða hin eiginlega hetja skógarins. Þau Þórir og Lára Jóhanna voru öflugir keppinautar, til dæmis var skylmingaratriðið milli þeirra virkilega smart, og ekki fór ástin þeim verr. Liðsmenn Hróa voru kátir karlar, hver öðrum knárri, Villi Skarlat (Oddur Júlíusson), Davíð Miller (Baltasar Breki Samper) og Litli-Jón sem í þessari útgáfu er raunverulega lágvaxinn (Björn Dan Karlsson).
Yfirvöld eru fulltrúar hins illa og þar var Jóhann prins í fyrsta sæti. Sigurður Þór var óhugnanlega margbrotinn í leik sínum og óþægilega sannferðugur sem konukvalari. Stefán Hallur Stefánsson kom næstur honum í hlutverki þess sem vinnur skítverkin. Kímilegu persónurnar mynduðu þakklátt mótvægi við þær illu. Guðjón Davíð fór framúr sjálfum sér í fyndnum töktum í hlutverki Pierres og Katrín Halldóra var dásamleg Henríetta. Baldur Trausti Hreinsson og Edda Arnljótsdóttir leika nokkur hlutverk, hvorugt þó eins mörg og Stefán Karl Stefánsson sem brá sér í ein átta lítil hlutverk – þeirra á meðal villisvín – og gerði þeim öllum glimrandi skil! Loks verður að nefna Summers-börnin sem stálu hjörtum áhorfenda ekki síður en aðalparið. Þau voru í gærkvöldi í öruggum höndum Öglu Bríetar Gísladóttur og Gabríels Bergmans Guðmundssonar.
Leikstjórarnir hafa áður sett þessa sýningu upp víða um heim við góðan orðstír og fyrst hjá Royal Shakespeare Company í Stratford upon Avon. Sviðið ógleymanlega, lýsing (Ken Billington og Ed McCarthy) og fjölbreyttir búningar (Emma Ryott) koma að utan. En fyrir þessa sýningu gerðu Salka Sól Eyfeld, Aron Steinn Ásbjarnarson, Sigurður Ingi Einarsson, Tómas Jónsson og Örn Ýmir Arason nýja tónlist sem þau fluttu á sviðinu. Tónlistin var fjörug og fyndin en ekki heyrði ég oft orðaskil í textunum. Það gerði kannski ekki svo mikið til. Þegar allt er lagt saman er ástæða til að hvetja alla þá sem ævintýrum unna til að flykkjast á þessa sýningu.