Það segir sitt um álit manna og áhyggjur af ástandi heimsins að jólasýningar beggja stóru leikhúsanna skuli fjalla um viðurstyggð harðstjórnar. Í Þjóðleikhúsinu er skopast að Adolf Hitler en í Borgarleikhúsinu er rifjað upp rúmlega 400 ára gamalt leikrit Shakespeares um Ríkharð þriðja, kroppinbakinn sem myrti sér leið til konungdóms á Englandi. Brynhildur Guðjónsdóttir leikstýrir – þótt einnig hefði eflaust freistað hennar að leika aðalhlutverkið – og nýja þýðingu gerir Kristján Þórður Hrafnsson. Ég ætla að byrja á að óska honum til hamingju með skýran, hljómmikinn og nákvæman texta sem skilar verki skáldsins einstaklega vel yfir til okkar, enda hefur leikstjórinn lagt höfuðáherslu á vandaða framsögn (sem hún er raunar þekkt fyrir sjálf).
Jórvíkurættin er við völd á Englandi eftir blóðuga borgarastyrjöld. Ríkharður (Hjörtur Jóhann Jónsson) er litli bróðir Játvarðs konungs fjórða (Halldór Gylfason) og er neðarlega í erfðaröðinni því bæði á Játvarður tvo syni og eina dóttur og svo er bróðirinn Georg (Hilmar Guðjónsson) á milli þeirra Játvarðs og Ríkharðs í aldri. Í leikritinu fylgjumst við með því hvernig Ríkharður ryður brautina að hásætinu og til að við missum nú ekki af neinu segir hann okkur áhorfendum frá áætlunum sínum og heldur engu leyndu fyrir okkur. Í rauninni gerir hann okkur samsek því við vitum um öll hans ódæðisverk fyrir fram en gerum ekki neitt til að hindra þau!
Það sem gerir Ríkharði kleift að drepa sér leið til valda án þess að lenda á höggstokknum sjálfur er kænska hans og snilli í að slá ryki í augu manna, einkum karlmanna. Hann hefur orðið á valdi sínu eins og hann sýnir óhugnanlega vel í fyrsta atriðinu þegar hann tælir lafði Önnu (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) til við sig hjá líkbörum tengdaföður hennar en hefur þar áður líka drepið eiginmann hennar. Hvergi í heimsbókmenntunum er ofbeldi og kynofsi fléttað saman á viðlíka hátt. Auk áhorfenda á Ríkharður trúnaðarvin í hertoganum af Bokkinham (Valur Freyr Einarsson) sem hjálpar honum ítrekað við að blekkja aðra valdamenn og lokka þá til fylgis við hann. Þar verður deginum ljósara hvað allir eru tilbúnir til að samþykkja hvað sem er ef það kemur þeim sjálfum vel. Erfiðlegar gengur með konurnar sem allar sjá í gegnum Ríkharð, fyrir utan lafði Önnu sem á ögurstundu veikleika síns hjarta gefst ódáminum á vald. Aðrar konur í kringum hann hata hann og bölva honum, Margrét (Kristbjörg Kjeld), ekkja Hinriks fjórða af Lankasturætt og fyrrverandi tengdamóðir lafði Önnu, hertogafrúin móðir Ríkharðs og bræðra hans (Sigrún Edda Björnsdóttir), Elísabet drottning Játvarðs fjórða (Edda Björg Eyjólfsdóttir) og Elísabet yngri, dóttir konungshjónanna (Sólbjört Sigurðardóttir). Þetta fríða kvennalið stendur saman gegn illskunni en má sín lítils lengi vel. Þó fer svo að allar bölbænir Margrétar ekkjudrottningar, sem Kristbjörg flutti af satanískum kynngikrafti, rætast á Ríkharði og dindlum hans.
Ríkharður þriðji er svo mikið „eins manns leikrit“ að það hefur verið sett upp sem einleikur, raunar af konu. Leikstjórinn Kolbrún Björt Sigfúsdóttir og leikkonan Emily Carding gerðu það fyrir fáeinum árum að því „gagnvirka“ verki sem það býður upp á og notuðu áhorfendur sem mótleikara (sjá nánar hér). Með því að draga einarðlega fram hlut kvenna í upprunalega verkinu verður það langt í frá einleikur undir stjórn Brynhildar en hlutverk Ríkharðs er samt yfirgnæfandi. Hjörtur Jóhann fer afar áhugaverða og spennandi leið að þessari andstyggilegu persónu. Hann leggur áherslu á að táldraga áhorfendur með glettni og sjarma, yndislegu brosi, fingur á munni til að benda okkur á að koma nú ekki upp um það sem við vitum … Þetta tekst með slíkum ólíkindum að við þolum persónuna gegnum þrjár klukkustundir – þótt vissulega verði maður feginn endalokunum.
Valur Freyr er svo innlifaður spunadoktor lengi vel að manni er jafnvel verr við hann en sjálfa kóngulóna en svo fer að lokum að honum blöskrar. Það gengur nærri manni þegar hann reynir að telja Ríkharð ofan af því að drepa bróðursynina ungu í Turninum en rök hans fyrir tregðunni reynast auðvitað vera þau að hann sé búinn að gera nóg fyrir Ríkharð til að uppskera launin sem lofað var.
Þótt önnur hlutverk séu smærri er hvert og eitt einasta unnið af alúð þannig að hver persóna varð skýr og afmörkuð með sín séreinkenni. Þetta á við um konurnar fimm, ekkjudrottninguna eldmóðugu, móðurina sorgmæddu, drottninguna beisku og reiðu – Edda Björg var rosalega mögnuð –, ekkjuna táldregnu, konungsdótturina sem tjáir örvæntingu sína í vel útfærðum dansi, konunginn sjúka, konungsbróðurinn trúgjarna, hinn hrekklausa Hasting lávarð (Jóhann Sigurðarson), Rivers jarl drottningarbróður (Davíð Þór Katrínarson) og jafnvel morðingjann hlýðna (Arnar Dan Kristjánsson).
Aðlögun verksins fyrir þessa sýningu var í höndum Brynhildar leikstjóra og Hrafnhildar Hagalín og tekst að mínu viti ákaflega vel. Sama er að segja um alla umgjörðina sem styður við alla leið en skyggir aldrei á. Ilmur Stefánsdóttir hönnuður leikmyndar nýtir hringsviðið vel og þeytir því hring eftir hring í takti við brjálæðisleg plott Ríkharðs sem skakklappast um það, einna líkastur mjósleginni górillu. Búningar Filippíu I. Elísdóttur eru „tímalausir“ en þó mun nær okkur í tíma en verkið, glæsilegir þegar það á við og frumlegir þegar það var viðeigandi. Áhrifamikil tónlistin er eftir Daníel Bjarnason, Valgerður Rúnarsdóttir er danshöfundur og lýsingin er á hendi Björns Bergsteins Guðmundssonar.
Að lokum vil ég segja þetta: Farið og leyfið Ríkharði þriðja að draga ykkur á tálar. Þið fáið eflaust samviskubit en þá er að muna að „samviska er aðeins orð sem gungur nota, hugsað upp til að hemja sterkan vilja“!