Jón Kalman Stefánsson. Saga Ástu.

Benedikt, 2017. 443 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2018

Saga ÁstuSögumannsröddin í verkum Jóns Kalmans Stefánssonar er auðþekkjanleg og sterk, eitt af hans helstu sérkennum. Svo mjög, að í sýningu Borgarleikhússins á Himnaríki og helvíti, sem er byggð á samnefndum þríleik Jóns Kalmans, hefur hún þótt ómissandi og yfirgnæfir oft dramatíska eiginleika leikritsformsins þegar kór er löngum stundum látinn þylja ljóðrænan texta úr bókunum. Dönskum ritdómurum verður oft tíðrætt um alviturt sjónarhorn sögumanna og „patosið“ í verkum Jón Kalmans, þ.e. háfleyga og tilfinningaríka framsetningu á hinum mörgu hugleiðingum um tilveruna og ályktunum sem dregnar eru af því sem fram kemur í sögunni sjálfri.

Slíkur stíll virðist Íslendingum ekki jafn framandi en er orðinn svo nátengdur höfundinum Jóni Kalmani í vitund minni sem lesanda að þegar ég endurlas nýlega Sjálfstætt fólk Halldórs Laxness varð mér nokkrum sinnum að orði: „Þarna heyrðist í Jóni Kalmani.“ Það sýndi mér svart á hvítu hversu mjög Jón Kalman sækir í þennan höfuðpaur íslenskrar bókmenntahefðar – en einnig að textatengsl fela ekki aðeins í sér að yngri textar sækja í eldri texta, heldur breyta um leið þessum eldri textum. [1] Ég get ekki lengur lesið vissar setningar úr Sjálfstæðu fólki án þess að heyra þær með sögumannsrödd Jóns Kalmans, hann hefur umbreytt verki Laxness fyrir mér.

Hin sterku höfundareinkenni sem marka Jóni Kalmani sérstöðu innan bókmenntahefðarinnar tengja hann því jafnframt við aðra höfunda og verk hans við hefðina. Og þar sem skáldskapurinn sjálfur, tilurð hans og eðli, er jafnan eitt af stærstu viðfangsefnunum í bókum hans, sem fjalla að því leyti til um eigin lögmál, kom í sjálfu sér ekki á óvart að í upphafi nýjustu bókar Jóns Kalmans, Sögu Ástu, upplýsir sögumaðurinn lesandann um það að foreldrar aðalsögupersónunnar Ástu hafi einmitt lesið Sjálfstætt fólk upphátt hvort fyrir annað þegar hún var í móðurkviði, og nefnt hana eftir sögupersónu Laxness, Ástu Sóllilju.

Í viðtölum við Jón Kalman hefur komið fram að Saga Ástu er að einhverju leyti byggð á persónum og sögum úr fjölskyldu Jóns. Hann segist nota „sem viðspyrnu“ Huldu Markan, ömmu sína, og langafa sinn, Einar Markan söngvara, en aðalsöguhetjan Ásta sé skyld móðursystur hans, Jóhönnu Þráinsdóttur þýðanda, sem hann þekkti sjálfur. Jón Kalman segist nýta „vissa ytri þætti úr lífi hennar“, til dæmis vináttu hennar og Ara Jósefssonar skálds.

Það er ákveðinn grunnur í sögunni, en þetta er samt ekki saga þeirra, alls ekki, það væri hrein fölsun, gott ef ekki glæpsamleg einfeldni að halda því fram. Saga Ástu er skáldskapur. En skáldskapurinn byggir alltaf á veruleikanum, kemst ekki af án hans. Alveg eins og veruleikinn kemst ekki af án skáldskapar. [2]

Saga Ástu fjallar þó ekki aðeins um þetta samband veruleika og skáldskapar, heldur einnig og kannski fyrst og fremst um samband texta við texta – og bendir í sífellu á eigin textatengsl.

Hver talar og við hvern?

Saga Ástu er um leið saga foreldra hennar, Helgu og Sigvalda, annarra fjölskyldumeðlima og fólks er tengist fjölskyldunni beint eða óbeint. Mikið er flakkað um í tíma og rúmi þannig að ákveðin heildarmynd liggur ekki fyrir fyrr en í lokin – og sumir lesendur hafa kvartað yfir því að þar vanti enn of mörg púsl í spilið. [3] Þótt einstaka kaflar, eins og sá sem segir frá gleðskap heima hjá Markúsi, afa Ástu, fyrrum stórsöngvara, gangi út á að endurskapa tíðaranda, setja á svið andartak á ákveðnum tíma og stað, fletur þessi aðferð að einhverju leyti út tímavídd frásagnarinnar: „Það er ekki hægt að segja frá án þess að villast,“ segir sögumaðurinn undir lokin, „fara hæpnar leiðir, eða halda áfram án þess að fara til baka, ekki einu sinni heldur minnst tvisvar – því við lifum samtímis á öllum tímum.“ (419)

Frásögnin er einnig margsamsett og sögumaðurinn hefur í upphafi áhyggjur af því að hann hafi ekki tök á henni. „Það voru mistök“ segir hann strax á blaðsíðu 33 um þá ákvörðun sína að byrja „þessa frásögn af ævi Ástu með að segja frá því þegar líf hennar kviknaði“, og láta þannig undan þránni eftir samfellu. „En án mistaka er auðvitað ekkert líf.“ (34) Og sagan reynist samt sem áður vandlega skipulögð þannig að ákveðnum hápunkti er náð í lokin þegar hin mörgu straumhvörf sögunnar hafa verið afhjúpuð, eitt af öðru.

Frásagnaraðferðin byggir einnig upp spennu varðandi það hver talar og við hvern. Frásögnin er rofin reglulega með bréfum frá Ástu til viðtakanda sem aðeins verður ljóst seinna hver er. Þá er sögumaðurinn persóna sem fær sviðið í sumum köflum bókarinnar, dapur höfundur sem leitar í einangrun og einveru, og undir lokin kemur í ljós að hann tengist sögupersónum ættarböndum og er þá líklega jafn skyldur höfundinum Jóni Kalman og sögupersónan Ásta er skyld Jóhönnu frænku hans. Þar með kemst á einhvers konar samræða við sjálfsævisögulegan skáldskap, sem hefur verið einn af helstu straumum bókmenntaheimsins um nokkuð langt skeið en undanfarið verið endurskilgreindur út frá viðmiði skáldævisagna Karls Oves Knausgård.[4]

Eitt af einkennum skáldævisagna í anda Knausgårds eru hugleiðingar, stundum hálfgerðar esseyjur, m.a. um samfélagsleg málefni, og þær má einnig finna í orðum sögupersóna í Sögu Ástu. Dóttir sögumannsins vill líka að hann skrifi „til að bjarga heiminum“ (236), myrkum heimi, en hann á í vandræðum með að finna rétta leið: „Hvernig klýfur maður myrkrið?“ (394) Jón Kalman hefur sjálfur sagt að ekki megi „þröngva einhverju inn í skáldskapinn“ sem ekki þurfi að vera: „Ef þú nefnir Donald Trump án þess að það þurfi að nefna hann í sögunni þá er allt unnið fyrir gýg og Donald Trump búinn að vinna enn einn sigurinn.“[5] Að mínu mati er helstu veikleikana í Sögu Ástu reyndar einmitt að finna í að því er virðist handahófskenndri ádeilu sögumanns, Ástu og annarra sögupersóna á samtíma okkar, hugleiðingum sem t.d. snúa að Donald Trump og því höfuðatriði markaðsfræða „að gera fólk ósátt við sjálft sig“ (258). Slíkir kaflar gera stundum lítið annað en draga frásögnina á langinn og bæta litlu við söguna sjálfa eða samfélagsumræðuna.

Helsti styrkur bókarinnar er þá hins vegar tenging hennar við aðra texta, virkni hennar innan bókmenntaheimsins og skáldskaparins. Því Jón Kalman nálgast skáldsagnaskrifin áfram út frá sínum eigin forsendum þar sem gildi skáldskaparins er ótvírætt, öfugt við það sem lesa má úr skrifum Knausgårds. [6] Í því ljósi er ekki undarlegt að sú ádeila sem hljómar mest sannfærandi er sú sem snýr að stöðu rithöfundarins í markaðsdrifnu ferðamannalandi: „Íslenskt skáld er lundi“, segir sögumaðurinn í uppgjöf þegar hann íhugar að taka tilboði um að verða nokkurs konar sýningargripur fyrir ferðamenn að skoða (393).

Texti um texta

Til er „bókmennta-heimur“ sem er tiltölulega sjálfstæður frá hversdeginum og pólitískum flokkadráttum hans, sem hefur sín eigin mörk og virkni sem ekki er hægt að leggja að jöfnu við venjulegt pólitískt rými. Innan þessa alþjóðlega bókmenntasvæðis má finna valdatafl og ofbeldi af sérstöku tagi — bókmenntaleg yfirráð [sem ekki má rugla saman] við pólitísk yfirráðaform, jafnvel þó að þau geti að mörgu leyti verið háð þeim.[7]

Þannig lýsir franska fræðikonan Pascale Casanova bókmenntaheiminum, með áherslu á alþjóðlega vídd hans. Casanova talar í þessu samhengi um „alþjóðlegt bókmenntasvæði“ sem hún kallar „alheimslýðveldi bókmenntanna“ (fr. République mondiale des lettres), en hún nýtir sér m.a. kenningar Pierres Bourdieu um svið (fr. champ). Bókmenntaheimurinn er skilgreindur sem nokkurs konar hliðstæður, alþjóðlegur heimur sem lýtur eigin lögmálum, tengist vitanlega hinu stærra samfélagsrými og öðrum sviðum en yfirleitt á óbeinan hátt. [8] Þetta mætti ef til vill kalla „ytri“, sögulega og pólitíska hlið bókmenntanna, en í Sögu Ástu, setur bróðir Sigvalda, sem er skáld, fram svipaðar yfirlýsingar um „innri“ eða tilvistarlega vídd skáldskaparins:

Það eru til tveir heimar, hið minnsta, kæri bróðir. Annarsvegar sá sem blasir við öllum, það sem þú lest um á síðum dagblaðanna, það sem sagt er upphátt – hinsvegar er það hinn huldi heimur. Þar er allt sem við þegjum yfir, felum eða viljum ekki viðurkenna. Þar er allt sem við óttumst. Og þar er allt það sem við vonumst eftir en fáum ekki, eða höfum þá ekki haft afl til að sækja. Þú kallar þann heim skáldskap, og átt við tilbúning. Gott og vel. En hvort sem þér líkar það betur eða verr þá er helvítis skáldskapurinn stundum það eina sem tekst að lýsa tilverunni eins og hún raunverulega er. Það eina …

Stopp, segir Sigvaldi, stopp! Þetta er aðeins of mikið fyrir mig núna! (138)

Kenningar um textatengsl ganga út frá því að „sérhver texti [sé] upptaka og umbreyting annars texta,“ eins og Julia Kristeva lýsir því með vísan til kenninga Mikhails Bakhtin. Bakhtin líti „á skrif sem lestur á eldri bókmenntaheildum, en textann sem upptöku á og andsvar við öðrum texta“, sem „tvíröddun við fyrri bókmenntaheild“ og „ögrun við fyrri skrif“, og slík tvíbendi sé „eina aðferðin sem leyfir ritsmiðnum að ganga inn í söguna.“[9]

Saga Ástu vekur sífellt athygli á þessum textalegu eiginleikum sínum og tengslum við aðra texta (og reyndar tónlist líka þótt ekki sé fjallað um þau tengsl hér). Eitt dæmi er þegar Ásta hittir drenginn Jósef í sumardvöl í sveit. Samband þeirra verður ein þungamiðja sögunnar en þessar sögupersónur draga sjálfar athygli að því að þær koma ekki úr veruleika utan skáldskaparheimsins, heldur spretti úr öðrum bókum:

Mamma valdi nafnið úr Biblíunni, segir hann. Ég er því strangt til tekið varla til. Ég er eiginlega bara gamall kall úr Biblíunni sem lifði fyrir meira en tvöþúsund árum þarna niður frá, í Ísrael, Palestínu, eða einhverju rassgati hitans og Miðjarðarhafsins.

Nafnið mitt kemur líka úr bók. Sjálfstæðu fólki eftir Laxness.

Þú ert þá eiginlega ekki til frekar en ég. Það er plús. (126)

Textatengslin notar Jón Kalman svo bæði sem pólitískt samtal við hefðina og söguna og sem leið til að takast á við tilvistarlegar spurningar.

Samtalið við hefðina

Strax í upphafi veltir sögumaðurinn upp þeirri spurningu hvort það sé til eftirbreytni að nefna persónu eftir Ástu Sóllilju „sem dó uppi á kaldri heiði, hóstandi blóði á altari föður síns“ (11). Lesandinn situr uppi með spurninguna og fleiri tengingar við Sjálfstætt fólk, til dæmis þegar Ásta lendir í sumardvöl á einangruðum sveitabæ þar sem persónur virðast geta best átt heima í Sumarhúsum. Kristín gamla býr þar með þumbaralegum syni sínum sem sinnir verkum með hund á hælunum og les „helst ævisögur, Íslendingasögur, frásagnir af sjómennsku og hrakningum“ og einstaka skáldsögur eftir dauða höfunda – alls ekki Halldór Laxness. Það verður næsta skiljanlegt að Kristín gamla hverfi stundum aftur í tímann, og telji þá til dæmis að nú sé árið 1910, sem er einmitt á sögutíma Sjálfstæðs fólks, og ítreki tenginguna við sögu Ástu Sóllilju með því að hlaupa upp í fjallshlíð, finnast grátandi í gömlum, rósóttum sparikjól og vera svo borin örmagna heim. (215)

Við fáum einnig að vita að foreldrar Ástu, Helga og Sigvaldi, reyna að skapa „mótvægi við Halldór Laxness“ og „gæta jafnvægis“ með því að kaupa ritröð Gunnars Gunnarssonar. Það fer þó „lítið fyrir jafnvæginu“ þegar ritröðin er notuð sem vopn í átökum þeirra hjóna – enda bókmenntasagan yfirleitt frekar vígvöllur fremur en huggulegt samsæti jafningja.

Helga náði að kasta fimm eða sex bókum í áttina að Sigvalda, hitta hann með tveimur, Svartfugli og Skipum heiðríkjunnar, öndvegis bækur, hreinustu dýrgripir, en hin síðarnefnda er góðar 500 síður og það er þungt að fá þannig bók í sig. (249–250)

Jón Kalman hefur m.a. átt feminísk innlegg í átök og valdabaráttu bókmenntaheimsins með því að „endurrita“ eldri skáldkonur inn í samtímann með vísunum í verk þeirra. Og í Sögu Ástu gengur bróðir Sigvalda, skáldið, svo langt að lýsa því yfir að konur skilji andspyrnueðli bókmenntanna betur en karlar sem hafi í gegnum aldirnar „almennt orðið grófari, heimskari, grynnri vegna óverðskuldaðra eða ímyndaðra yfirburða.“ (138) Jón Kalman beinir því spjótum að hinu karllega bókmenntalega hefðarveldi um leið og hann nýtir sér það. Rósa María Hjörvar hefur bent á að Saga Ástu virðist fela í sér „allar íslenskar nútímabókmenntir“ og nefnir þar tvo karla sem upphaf og endi.

[…] öll einkenni íslenskra skáldsagna eru til staðar: eymdin í sveitinni, harkið á mölinni, Íslendingurinn sem strandaglópur í útlöndum og íþyngjandi áhrif ættar og uppruna á örlög einstaklingsins. Samhliða þessu þræðir höfundur bókmenntasöguna aftur á bak, en verkið hefst á Laxness og endar hjá Jónasi Hallgrímssyni. [10]

Hins vegar umbreytir eða endurritar höfundurinn allar þessar bókmenntir sem koma við sögu. Eins og aðrar persónur sögunnar lesa Jósef og Ásta bækur og sem unglingar í sveitinni á sjötta áratugnum lesa þau m.a. nútímabókmenntir á borð við sögur Thors Vilhjálmssonar í Dögum mannsins:

Og sú sem er í uppáhaldi hjá Jósef er skrifuð í Barcelona í júlí 1950:

„Hann tekur bréfið úr vasanum og les: Ástin mín. Það er svo langt síðan að þú fórst og hér er allt svo autt og tómt og dáið síðan, fuglarnir fóru líka …“ (210)

Þegar lesandinn sér þessa tilvitnun hefur hann þegar lesið nokkur af bréfum Ástu til ókunnugs elskhuga sem hefjast flest á svipuðum nótum. Er sögupersóna Jóns Kalmans þá að skrifa sögupersónu Thors? Er saga Thors svar við þessu bréfi? Þegar tveir textar mætast þannig, „verða tvísaga og gera hvor annan afstæðan“ erum við komin á slóðir karnivals í anda Bakhtins, segir Kristeva, og karnivalið dregur „óhjákvæmilega fram í dagsljósið það dulvitaða sem býr undir þessari formgerð [skáldsögunnar]: kynlíf og dauða“.[11] Bókmenntasagan hefur fært okkur inn í tilvistarlega vídd skáldskaparins.

Allt sem við óttumst

Ef við víkjum aftur að yfirlýsingum bróður Sigvalda um hulinn heim skáldskaparins, þar sem fram kemur „allt sem við þegjum yfir, felum eða viljum ekki viðurkenna“, dulvitund okkar, þá blasir við að erótík og dauði eru einmitt eitt af meginþemunum í Sögu Ástu – sem og í öðrum verkum Jóns Kalmans sem finnst sjálfsagt „að takast á við þessar stóru spurningar: Lífið, dauðann og allan þann pakka.“

Ástin og dauðinn, jú, það er eitthvað sem breytir öllu, en um leið órjúfanlegur hluti tilverunnar. Alls staðar í kringum okkur og því í sjálfu sér hversdagslegt. Fyrir mér er jafn sjálfsagt að skrifa um ástina, dauðann og að lýsa því hvernig kaffi kólnar.“[12]

Í Sögu Ástu reynir bróðir Sigvalda að útskýra þetta hlutverk skálda þannig að það sé einfaldlega hæfileiki þeirra, „eða þá ógæfa, að sjá stundum það sem er falið eða það sem er reynt að fela“. Allt breytist þegar hann fari að skrifa. „Eitthvað leysist úr læðingi innra með mér […] ég breytist í næma taug sem titrar milli þess sem sést og þess sem er hulið.“ (137–138) Höfundar sem grafa eftir öllu sem við viljum fela eiga auðvitað á hættu að viðbrögðin verði þau sömu og hjá Sigvalda, sem segir „stopp! Þetta er aðeins of mikið fyrir mig núna!“ (138) Ekki síst þegar söguefnið er sótt í raunverulegar persónur og atburði.

Skáldið, bróðir Sigvalda, stendur líkt og sögumaðurinn og höfundurinn Jón Kalman í þeim sporum að skrifa sögu fjölskyldu sinnar, að þurfa að byggja á lífi og persónuleika fólks í kringum sig – og þá kannski ekki síst sjálfum sér. „Hvernig er hægt að komast burtu frá sjálfum sér … ef það er engin leið út úr heiminum …“ spyr sögumaðurinn (394) sem hefur þannig ítrekað endurskapað sjálfan sig en heldur þó hugrakkur í lok bókar „út í vitann“ til að kljúfa myrkrið í leit að öðrum heimi, klyfjaður bókum, tónlist og minningum (443).

Í lokin ætla ég að slá því fram að eitt helsta gildi höfundarverks Jóns Kalmans sé að hvert verk er hluti af listrænni yfirlýsingu hans um eðli og tilgang skáldskaparins. Hvort sem er í hinni ytri vídd bókmenntahefðarinnar eða innri vídd skáldskaparins hefur Jón Kalman skapað sinn eigin heim, sem er í stanslausu, dýnamísku samtali við hina stærri heild.

Auður Aðalsteinsdóttir

Tilvísanir

  1. Dagný Kristjánsdóttir hefur fjallað um kenningar Gérards Genette og Renate Lachmann um slík textatengsl í greininni „Af texta ertu komin“, Kona með spegil. Svava Jakobsdóttir og verk hennar, ritstj. Ármann Jakobsson, Reykjavík, JPV útgáfa, 2005, bls. 101–115. Ástráður Eysteinsson hefur jafnframt lýst svipaðri lestrarreynslu af textum sem tengjast, í greininni „Mylluhjólið“, Umbrot. Bókmenntir og nútími, Háskólaútgáfan, Reykjavík, 1999, bls. 402–416, hér bls. 403.
  2. Magnús Guðmundsson, „Þess vegna enda allir listamenn í helvíti“, viðtal við Jón Kalman Stefánsson, Vísir.is, 29. október 2017, sótt af http://www.visir.is/g/2017171028872.
  3. Sbr. umsagnir gagnrýnenda Kiljunnar á RÚV, Sunnu Dísar Másdóttur og Þorgeirs Tryggvasonar. Sjá Davíð Kjartan Gestsson, „Jón Kalman spilar á strengi lesenda“, Menningarvefur RÚV, 9. nóvember 2017, sótt 18. Janúar 2018 af http://www.ruv.is/ frett/jon-kalman-spilar-a-strengi-lesenda. Sjá einnig Rósa María Hjörvar, „Saga Ástu“, Bókmenntavefur Reykjavíkur Bókmenntaborgar, desember 2017, sótt 18. janúar 2018 af https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/ saga-astu.
  4. Poul Behrendt og Mads Bunch hafa fjallað ítarlega um það í Selvfortalt. Autofiktioner på tværs: prosa, lyrik, teater, film, Forfatterne og Dansklærerforeningens Forlag, 2015.
  5. Magnús Guðmundsson, „Þess vegna enda allir listamenn í helvíti“, viðtal við Jón Kalman Stefánsson, Vísir.is, 29. október 2017, sótt 18. janúar 2018 af http://www.visir. is/g/2017171028872.
  6. Sjá Karl Ove Knausgård, Min kamp. Roman, 2. bindi, þýð. Sara Koch, Lindhardt og Ringhof, Kaupmannahöfn, 2017, bls. 618 og áfram.
  7. Pascale Casanova, The World Republic of Letters, þýð. M. B. DeBevoise, Cambridge og London, Harvard University Press, 2004, bls. xii–xiii. Íslensk þýðing mín.
  8. Bourdieu talar einmitt um „afstætt sjálfstæði“ (fr. autonomie relative) sviða til að leggja áherslu á að þau séu bæði óháð og tengd ytri þáttum. Áhrif stéttarlegs bakgrunns, umhverfis eða samhengis á hegðun innan listasviðs eru aldrei bein, að mati Bourdieus, heldur skarast við það mynstur sem mótar stigskiptingu og átök innan sviðsins. Þannig hafa t.d. ytri átök óbein áhrif á átök innan bókmenntasviðsins. Sjá t.d. Pierre Bourdieu, „Le champ littéraire: Préalables critiques et principes de méthode“, Lendemains, 36, 1984; Pierre Bourdieu, „Le Champ littéraire“, Actes de la recherché en sciences sociales, september, 1991.
  9. Julia Kristeva, „Orð, tvíröddun og skáldsaga“, þýð. Garðar Baldvinsson, Spor í bókmenntafræði 20. aldar, ritstj. Garðar Baldvinsson, Kristín Birgisdóttir og Kristín Viðarsdóttir, Reykjavík, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991, bls. 94, 97, 102 og 112.
  10. Rósa María Hjörvar, „Saga Ástu“.
  11. Julia Kristeva, „Orð, tvíröddun og skáldsaga“, bls. 113–114.
  12. Kolbrún Bergþórsdóttir, „Nánast glæpsamlegt að reyna ekki að lifa til fulls“, viðtal við Jón Kalman Stefánsson, DV, 3. nóvember 2017, sótt 9. janúar 2018 af http://www.dv.is/ menning/2017/11/4/nanast-glaepsamlegt-adreyna- ekki-ad-lifa-til-fulls/.