Leikhópurinn Sómi þjóðar spyr spurninga um raunverulega siðmenningu mannkynsins í nýju gagnvirku leikverki í Tjarnarbíó sem er kallað Láttu bara eins og ég sé ekki hérna.
Eftir stutta gönguferð utanhúss hefst sýningin á því að Prómeþeifur (Tryggvi Gunnarsson) stígur á stall og flytur innblásna tölu yfir sínum örfáu áheyrendum – því aðeins sex manns komast á hverja sýningu. Prómeþeifur minnir okkur á að hann sé skapari menningar okkar; með því að stela eldinum af Ólympsfjalli í árdaga og færa mannkyninu lagði hann grundvöll að skipulegu, siðuðu og siðmenntuðu samfélagi. Það þurfti að varðveita þessa dýrmætu gjöf og umfram allt að fara vel með hana og það varð ekki gert með því að halda áfram að hanga í trjágreinum eins og apar.
Eftir þennan leikræna inngang fara áheyrendur í gegnum hverja prófraunina af annarri og var oft býsna erfitt að vita hvaða svar væri rétt og/eða siðlegt við ágengum spurningum hópsins. Ég segi fyrir mig að þetta kom talsverðu róti á hugsanir mínar. Maður er ekki vanur að spyrja sjálfan sig hvers konar manneskja maður sé eða hvernig maður myndi bregðast við erfiðum aðstæðum sem maður kemst vonandi aldrei nokkurn tímann í.
Kjarni sýningarinnar snýst um eldinn sem Prómeþeifur gaf okkur, hvernig höldum við honum lifandi og hverjum leyfum við að njóta hans með okkur. Það er alveg lögmætt að velta því fyrir sér nú í upphafi aðventunnar.
Hins vegar fannst mér sýningin hafa stóran skammt af þeim algenga galla gagnvirkra leiksýninga að hlutfallslega mikill tími fer í að ganga á milli sýningarstaða og koma sér þar fyrir. Þannig verður framvinda verkanna óþarflega hæg og setur gestina sífellt í stöðu hinna minni máttar af því að þeir eiga sér engan samastað. Er þetta nauðsynlegt?