Elín og Angantýr

14. júní 2011 · Fært í Pistlar 


 

(Í nýjasta hefti TMM, 2.11. er grein eftir Guðrúnu Helgadóttur sem vakið hefur mikla athygli um Elínu Thorarensen og Jóhann Jónsson og bók sem Elín ritaði um ástir þeirra og var þögguð rækilega niður í íslensku bókmenntalífi. Það rifjast þá upp að árið 2003 skrifaði Soffía Auður Birgisdóttir um sömu bók á vefritið Kistuna í vefbókina Konur um skáld á degi bókarinnar, 23. apríl. Okkur fannst vert að rifja þessa grein Soffíu upp í tilefni af grein Guðrúnar.

 

 

Soffía Auður Birgisdóttir:

ELÍN OG ANGANTÝR

 

Heima hjá föðurforeldrum mínum, Rut Guðmundsdóttur og Halldóri Þorsteinssyni, var lágur en langur bókaskápur sem stóð meðfram einum veggnum í stofunni. Þegar ég var í heimsókn hjá þeim sem barn – sem oft var – lá ég gjarnan á annarri hliðinni fyrir framan skápinn, skoðaði kili og blaðaði í bókum, sem stundum þurfti að ná út með nokkrum erfiðismunum því glerhurðir voru fyrir skápnum og gátu staðið illa á sér. Sérlega spennandi var stór græn bók með máðum kili þar sem hægt var að lesa orðið “Kynlíf” þótt ógreinilegt væri. Ég og Dóri bróðir stálumst oft til þess að skoða þá bók, hálffalin á bak við sófa, og urðum margs fróðari.

 

En þótt sagt sé að forboðnir ávextir bragðist best þá er mér önnur bók mun minnisstæðari. Ólíkt grænu bókinni var þessi pínulítil. Hún sást varla þar sem hún sat, lítil og rauð, á milli stærri bóka í einni hillunni. Ekki varð ég fyrir vonbrigðum þegar ég hafði náð bókarkrílinu út og fór að fletta: Blaðsíður bókarinnar voru bleikar! Það hafði ég aldrei séð áður. Bókin hét því dularfulla nafni  Angantýr og á titilsíðunni stóð:

ELÍN THORARENSEN

 

A N G A N T Ý R

 

I.

MINNINGAR UM HANN

II.

ÆFINTÝRI OG LJÓÐ

FRÁ HONUM

 

REYKJAVÍK – 1946

Við hlið titilsíðu var ljósmynd af undurfallegum ungum manni, sem reyndist vera Jóhann Jónsson, skáldið sem ort hafði „Söknuð“.

Ég vissi deili á skáldinu, enda var það liður í heimsóknum mínum til ömmu og afa að lesa upphátt fyrir þau ljóð sem þau völdu úr einhverjum bókanna í skápnum. Oft las ég t.d. upp úr ljóðaþýðingum Magnúsar Ásgeirssonar og afi minn dæsti af sælu við að heyra þýðingu hans á „Vatn“ eftir Nordahl Grieg. Amma hældi mér á hvert reipi og sagði að ég yrði að komast einhvern tíma í útvarpið og lesa ljóð, meiri upphefð gat hún varla hugsað sér. Hún hafði sérlega gaman af því að láta mig lesa um vesalings konuna sem átti sér „tíu anga: fimm agnir og fimm snáða“.

En „Söknuð“ hafði ég líka lesið og fengið að heyra að þetta væri eitt almerkilegasta kvæði sem ort hefði verið á Íslandi og mikið varð ég glöð þegar ég sá á ljósmyndinni í Angantý hversu fallegt skáldið var. Þar var ég sammála höfundinum, henni Elínu Thorarensen sem lýsir honum þannig:

Hann var fæddur og uppalinn þar, sem brimið er í almætti sínu, og líklegt þykir mér, að hún mamma hans hafi horft á brimið, þegar hún gekk með hann, því að augun í honum voru alveg eins og brimið, eða það fannst mér. Þegar hann var glaður, þá voru þau eins og brimið í sólskini, en þegar honum var þungt í skapi, þá voru þau eins og brim í óveðri.

En hver var þessi Elín Thorarensen? Ég hafði aldrei heyrt á hana minnst og fór því með bókina til hennar ömmu og spurði út í hana. Og aldrei gleymi ég viðbrögðum ömmu: „Þessi bók er merkileg,“ sagði hún, „svo merkileg, að merkir menn lögðu mikið á sig til þess að koma henni fyrir kattarnef.“ Þegar hún sá spurnarsvipinn á mér bætti hún við: „Hann Kristinn Andrésson sá eintak af þessari bók hérna í hillunum hjá okkur einu sinni þegar hann hér í heimsókn og ætlaði æfur að verða af bræði. Þegar hann var farinn fann ég hana hvergi, hún hvarf með honum.“

Vafalaust hefur spurnarsvipurinn á mér eflst um allan helming við þessi orð; var hún amma mín að halda því fram að hann Kristinn í Máli og menningu (bróðir hans Einars sem var giftur Fríðu ömmusystur og hafði gefið mér stóru bókina, fyrsta bindið af 1001 nótt, þegar ég lá veik) hefði stolið bókinni? Þegar ég innti hana nánar eftir þessu sagðist hún ekki þjófkenna nokkurn mann, en bókina fann hún aldrei aftur og keypti sér því annað eintak næst þegar hún var svo heppin að rekast á það á fornbóksölu, sem var fátítt.

Síðar komst ég að því að ættingjar Elínar Thorarensen hefðu sjálfir staðið fyrir því að innkalla bókina úr bókabúðum og eyða henni, þ.e.a.s. markvisst hafði verið unnið að því að hylma yfir tilvist þessarar litlu rauðu bókar með bleiku síðunum. En hvers vegna? Hvað var svona hættulegt við bókarkrílið Angantý?

Upplýsingarnar sem amma mín gaf mér varðandi málið voru ófullkomnar, enda ég enn á barnsaldri og hafði ekki forsendur til að skilja hvað málið snérist um. Hún sagði mér þó að Elín og Jóhann hefðu átt í ástarsambandi og það hafi verið afar illa séð þar sem Elín var fráskilin þriggja barna móðir og auk þess miklu eldri en Jóhann. Þó ung væri og reynslulítil man ég að mér svall móður í brjósti við að heyra af afskiptasemi annarra af ástarsambandi Jóhanns og Elínar og þeirri tilraun til þöggunnar (þó mér kæmi það orð ekki í hug á þeirri stundu) sem átt hafði sér stað varðandi litlu bókina hennar. Saga Elínar og Jóhanns hefur oft leitað á mig síðar og gaman væri að leggjast í meiri rannsóknarvinnu um þetta efni. En þetta veit ég:

Jóhann Jónsson kynntist Elínu sumarið 1915 þegar hann gerðist kostgangari hjá henni. Hún bjó í Þingholtsstræti 18 og seldi fæði sér til framfærslu, þá skilin við mann sinn fyrir tveimur árum og aðeins yngsta barn hennar bjó þá hjá henni. Þetta kemur fram í formála bókarinnar og þar segir hún líka:

Við urðum strax góðir vinir, þó að allar ytri ástæður væru okkur andstæðar og margir vildu leggja orði í belg, bæði skyldir og vandlausir. Ég kallaði Jóhann Angantý, og hann kallaði mig Brynhildi. Við vorum oft í undralandinu hans, og í mínum augum var hann fyrst og fremst æfintýraskáld.

Jóhann var fæddur 12. september 1896 og var því tæplega nítján ára gamall þegar hann kynntist Elínu, en hún var fædd 1881 og var því fimmtán árum eldri, eða 32 ára. Þessi aldursmunur hefði líklega ekki þótt sæta tíðindum ef konan hefði verið yngri. Í bókinni sinni lýsir Elín sambandi þeirra Jóhanns á afar fallegan og persónulegan hátt og auðvelt er að trúa að þar fari sönn lýsing á ástföngnu fólki. En bæði “skyldir og vandalausir” áttu greinilega afar erfitt með að sætta sig við ást þeirra. Jóhann var vonarpeningur bókmenntaelítunnar, dáður og elskaður. Halldór Laxness lýsir því t.d. að öll Reykjavík hafi tignað hann sem “framsögumann rómantískra ljóða á vönduðum skemtunum í bænum.” Og hann segir um Jóhann:

Hann var gersemi bæjarbúa með úfið hárið í svarta snotra smókíngnum sínum, en þó aðeins uppá fjölunum, þar sem hann flutti ljóð sem voru í algerum samhljóm við persónuleik hans. [...] Þetta var sú öld þegar Byron var tignaður á póstkortum. Um Jóhann sögðu stúlkunar: fagur einsog Byron, skáld einsog Byron, haltur einsog Byron; en berklar höfðu skilið báða eftir með staurfót. (Sjá: „Af Jóhanni Jónssyni“, eftir Halldór Laxness í Jóhann Jónsson. Ljóð og ritgerðir.)

Kristinn E. Andrésson lýsti honum m.a. svona:

Þyrst sál sem þráði vöxt og fullkomnun, íslenzkt orð er þráði að lifa í minni þjóðar sinnar, lifandi ljóð er þráði vandaðasta og fegursta málbúning, leiftrandi skáldsál er þráði eilífð sína í verki, tignarandi sem heillaði alla er honum kynntust …

Gat það staðist að þessi íslenski „Byron“ elskaði „kellinguna“ hana Elínu Thorarensen? Eða getur verið að „tignarandinn“ Jóhann hafi þráð ýmislegt fleira og forboðnara en Kristinn telur upp?

Þegar ég fór að forvitnast um þetta efni – eftir að ég komst til vits og ára – hjá fólki sem hugsanlega gat eitthvað vitað um málið, mætti mér yfirleitt svipað svar, sem var eitthvað á þessa leið: Kerlingin var ástsjúk og ímyndunarveik og gerði sjálfri sér og fjölskyldu sinni skömm til með bókinni Angantý – þótt lítil væri. Við þetta varð ég að búa í allmörg ár.

Þá gerðust þau tíðindi í íslenskri bókmenntasögu árið 1992 að „erfingjar sr. Friðriks A. Friðrikssonar rákust á bunka með bréfum til hans frá Jóhanni Jónssyni skáldi uppi á háalofti norður á Húsavík á útmánuðum 1992. Þau eru skrifuð frá 1912-25 en Jóhann og Friðrik voru æskuvinir.“ (Sjá formála að: Undarlegt er líf mitt! Bréf Jóhanns Jónssonar skálds til sr. Friðriks A. Friðrikssonar. Vaka Helgafell 1992) Bréfin voru gefin út í bókinni Undarlegt er líf mitt! og þar má meðal annars lesa þetta um Elínu Thorarensen:

Friðrik, hún er eina konan sem ég finn að er þess verð að hún sé dáð. Hún er eina konan sem alltaf vex eftir því sem maður kynnist henni betur. Hin eina af þeim öllum er ég hefi þekkt. Og ég veit að hún heldur áfram að heilla mig að sálarfegurð sinni þangað til öllu er lokið.

Það eru kvalirnar sem hafa brugðið þessari birtu yfir hjarta hennar, það er fórnfýsin við aðra menn sem hefir þvegið af henni hvern blett sem kynni að hafa verið á henni. – Það er hún sem þurrkar út allar hennar yfirsjónir og gjörir hana hreina og aðdáunarverða. Hún er sú, sem hefir fengið lífi mínu hlutverk að vinna. Ég vildi að þú ættir eftir að finn einhverja þá konusál fyrir þér, sem yrði þér það sama og hún er mér, þá værir þú fæddur til mikillar hamingju.”

Þetta ritar Jóhann Jónsson þann 21. desember 1916 og fyrir mitt leyti þá hef ég fengið svarið við grundvallarspurningunni sem brann á mér.

Angantýr hefur í huga mínum öðlast gildi sem táknmynd fyrir þá tilhneigingu, meðvitaða og ómeðvitaða, að þagga niður í konum – að leyfa þeirra rödd ekki að heyrast. Enda er bókin skrifuð í þeim tilgangi að segja sögu þeirra Jóhanns og Elínar „eins og hún var“, því „hálfsögð er sagan, ef einn segir“ – eins og Elín orðar það.