Tveir höfundar leita leikrits

21. október 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Enn á ný býður Gaflaraleikhúsið upp á eldfjöruga unglingaskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Stefán rís eftir þá Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson var frumsýnt í gærkvöldi undir stjórn Bjarkar Jakobsdóttur fyrir troðfullu og ákaflega hamingjusömu húsi. Þeir félagar voru 14 og 15 ára þegar þeir frumsýndu Unglinginn á sama stað í október 2013 þannig að núna eru þeir 17 og 18 ára – og hafa gefið út eina bók í millitíðinni með Bryndísi Björgvinsdóttur. Ekki letin á þeim bæjum. Lesa meira

Lífið er fokking ringulreið

16. október 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Alveg er greinilegt strax í upphafi stutta leikritsins með langa nafnið sem var frumsýnt í Kúlu Þjóðleikhússins í gærkvöldi, Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti, að einu persónu þess líður bölvanlega. Stefán Hallur Stefánsson stendur á miðju sviði Kúlunnar, framarlega, í leikhúsþoku og kvelst. Hann hreyfir sig ekki úr sporunum en þó svitnar hann af harkalegum innri átökum. Það var mergjað. Lesa meira

Kynusli á litla sviðinu

8. október 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Það var sérstæð blanda af rokktónleika- og árshátíðarstemningu á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi þegar Hannes og Smári héldu þar tónleika og sögðu sögu sína fyrir fullu húsi af æstum aðdáendum. Halldóra Geirharðsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir leika þessa heiðursmenn, þær spila líka á hljóðfæri og syngja. Auk þess sömdu þær verkið með leikstjóra sínum, Jóni Páli Eyjólfssyni leikhússtjóra á Akureyri, en sýningin er samstarfsverkefni Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar. Lesa meira

Ærsl og óreiða í Kúlunni

2. október 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Fyrir nokkru vantaði mig samheiti yfir „ringulreið“ og leitaði í Snöru, orðabókinni á netinu. Meðal margra tillagna þar sá ég orðið „stertabenda“ sem mér fannst sniðugt en einum of einkennilegt til að nota í venjulegum texta. Það er dregið af því þegar stertar hesta lenda í bendu svo þeir festast saman.  („Á miðri götunni voru ein fimtíu lestahross í stertabendu og komust hvorki strönd né lönd,“ segir Halldór Laxness í Brekkukotsannál.) Örfáum dögum síðar sá ég þetta orð í frétt um nýja leiksýningu í Þjóðleikhúsinu. Sýningin hét beinlínis Stertabenda og það heitir hún enn og við sáum hana í Kúlunni í gær.

Lesa meira

Bandarísk rökkurópera

1. október 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Hún var þrungin þögnin í stóra sal Þjóðleikhússins í gærkvöldi á frumsýningu Horft frá brúnni, og varði þá nærri tvo tíma sem sýningin stóð, án hlés. Einn og einn hósti heyrðist óþægilega vel og sömuleiðis suð í lágt stilltum farsíma, annars var þögnin djúp allan tímann. Þetta varð smám saman alveg magnað. Lesa meira

Það er einn hnöttur og hann er blár

24. september 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

„Ég skil bara ekki hvernig þetta er hægt,“ sagði sessunautur minn, séra Ragnheiður, að lokinni frumsýningu á Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason, Berg Þór Ingólfsson leikstjóra, Kristjönu Stefánsdóttur tónskáld og Chantelle Carey danshöfund á stóra sviði Borgarleikhússins. Hún átti við frammistöðu barnanna í sýningunni, hvernig þau, svona ung, gátu leikið, sungið, dansað, farið flikk flakk og heljarstökk aftur á bak og áfram eins og þrautþjálfaðir fagmenn. Ég segi það undir eins: Þessi sýning er undur. Lesa meira

Úr örbirgð til auðæva – og aftur til baka – og baka

24. september 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Söguloftið á Landnámssetrinu í Borgarnesi hefur hýst marga góða sagnamenn og löngu kominn tími til að rifja upp sögu mannsins sem byggði á sínum tíma húsið sem landnámssýningin, Eglusýningin og Söguloftið eru í, Thors Jensen. Thor var rúmlega tvítugur þegar hann tók við verslunarrekstri í Borgarnesi og tók rækilega til hendinni þau ár sem hann var þar. Í gærkvöldi kom svo langafabarn hans, Guðmundur Andri Thorsson, og sagði merka sögu afa sína fyrir fullu húsi áhugasamra gesta á Söguloftinu. Lesa meira

Hetjusaga Sóleyjar Rósar

23. september 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Ég var búin að lesa mikið hrós um Sóley Rós ræstitækni sem Kvenfélagið Garpur sýnir nú í Tjarnarbíó þegar ég loksins sá hana í gærkvöldi. Þrátt fyrir ítarlegar lýsingar á efni og útliti sýningarinnar í umsögnum um hana tókst henni að koma mér rækilega á óvart. Lesa meira

Leikið á lofti

19. september 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Írsk-íslensk samvinna ber fagran ávöxt í Fjaðrafoki, leiksýningu fyrir yngstu áhorfendurna eftir Chantal McCormick og Tinnu Grétarsdóttur sem frumsýnd var í Tjarnarbíó um helgina á vegum Bíbí & blaka og írska sirkusflokksins Fidget Feet. Ég var svo heppin að fá að sjá hana með tveim leikskólabekkjum tveggja til þriggja ára barna núna á mánudagsmorgni og hafði ekki síður gaman af að fylgjast með öðrum áhorfendum en því sem gerðist á sviðinu – enda var það allt í einni mynd því börnin sátu hringinn í kringum sviðið. Lesa meira

Saga manns sem heitir Ove

17. september 2016 · Fært í Leikdómar Silju ·  

Skáldsaga sænska rithöfundarins Fredriks Backman, Maður sem heitir Ove, kom fyrst út 2012 og náði fljótlega miklum vinsældum í heimalandi höfundar og miklu víðar. Á íslensku kom hún út strax árið eftir í þýðingu Jóns Daníelssonar og var prentuð sex sinnum á innan við ári. Einleikurinn eftir skáldsögunni sem var frumsýndur í kvöld í Kassa Þjóðleikhússins er eftir Marie Persson Hedenius, Johan Rheborg og Emmu Bucht og Jón Daníelsson þýðir hana líka. Bjarni Haukur Þórsson leikstýrir Sigurði Sigurjónssyni hér eins og nokkrum sinnum áður og með prýðilegum árangri. Lesa meira

Næsta síða »