Auðar saga á einu kvöldi

15. október 2017 · Fært í Á líðandi stund 

Vilborg Davíðsdóttir var að senda frá sér þriðju og síðustu bókina um Auði djúpúðgu, Blóðuga jörð. Samtals eru bækurnar þrjár um landnámskonuna merku ríflega 800 blaðsíður en í gærkvöldi gerði höfundurinn sér lítið fyrir og sagði alla þessa miklu sögu á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Gekk um gólf og rifjaði upp söguna alla frá því að Ketill flatnefur fluttist búferlum til Suðureyja frá Noregi og þangað til Auður dóttir hans lést í hárri elli að búi sínu í Hvammi í Dölum.
Þetta var firna skemmtilegt kvöld enda sagan í hæsta máta viðburðarík og spennandi. Þar er nóg um trúarátök, stríðsátök, heitar ástir, hastarleg vinslit og grimmileg örlög. Ekki bar á því að Vilborg væri nýliði á sviði. Hún flutti texta sinn hiklaust og eðlilega og stillti leikrænum tilburðum í skynsamlegt hóf. Hér var stunduð sagnalist fremur en leiklist alveg eins og átti við. „Svona hafa Íslendingasögurnar lifað,“ sagði hrifinn áhorfandi í hléinu.
Vilborg skipti efninu þannig niður að fyrir hlé fór hún á rúmum klukkutíma yfir efni fyrri bókanna tveggja, Auðar og Vígroða. Auðvitað saknaði kunnugur lesandi margs í þeirri frásögn sem ekki gafst tími fyrir, til dæmis er mér minnisstæð lýsingin á brúðkaupi Auður og Ólafs hvíta sem varð útundan. En lýsingin á fæðingu Þorsteins rauðs, sonar þeirra hjóna, varð aftur á móti ennþá heitari og myndrænni í meðförum Vilborgar á gólfi Söguloftsins en í bókinni því hér gat hún bætt við hreyfingum og svip- og raddbreytingum.
Eftir hlé var komið að lokabindinu, Blóðugri jörð, sem aðeins örfáir útvaldir áhorfendur höfðu lesið en margir bíða spenntir eftir. Það tók því sem næst jafnlangan tíma og fyrri bækurnar tvær og mætti stytta í frásögn með því að fækka persónum sem nefndar eru og lítið verður úr í hraðri yfirferð. Einnig mætti hugsa sér að í stað þess að koma upp um alls kyns smáatriði sem gera þá bók spennandi og lesandi vill ekki fá grun um fyrirfram þá gæti Vilborg farið svolítið út í þá gríðarmiklu og merkilegu rannsóknarvinnu sem hún hefur unnið í undirbúningi þessa verks. Í bókunum stillir hún fræðslu í hóf eins og vera ber í skáldskap en hún kann orðið ótrúlega margt sem við getum grætt á. Til dæmis væri upplagt að drepa á helstu ritheimildir, ferðalög hennar sjálfrar á söguslóðir og segja okkur lítillega frá siglingatækni á landnámsöld af því að siglingin til Íslands er aðalefni lokabindisins.
Margt af þessu síðasttalda mun eflaust verða tekið til umræðu á ritþingi Vilborgar sem verður haldið í Gerðubergi á laugardaginn kemur, 21. október, og hefst kl. 14. Þar verður farið yfir öll verk Vilborgar, allt frá hinni vinsælu Korku sögu (1993–4) sem hefur lengi verið lesin í skólum víða um land og skýrir að hluta óvenjulega breiðan lesendahóp Vilborgar. Önnur verk hennar eru Eldfórnin (1997), Galdur (2000) og Hrafninn (2005) – og svo auðvitað þriggja binda stórvirkið um Auði djúpúðgu.