Vertu sæll Moggi… – Úr Andrahaus

20. október 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481

Eftir Guðmund Andra Thorsson


„Byrjar hann,“ hugsar maður þegar maður sér forsíðu Moggans núorðið þar sem áhyggjusamleg fyrirsögn um skuldabyrði vegna Icesave kallast á við byrstan leiðarann inni í blaðinu. Þótt fréttin sé skrifuð af blaðamanni og eflaust unnin á faglegan hátt trúir maður henni ekkert. Maður hugsar: „Byrjar hann.“

Maður lítur á fréttina sem hvert annað innlegg í styrjöld Davíðs Oddssonar við heiminn.

Blað sem fyrir bara nokkrum mánuðum var fjölraddað talar nú æ færri röddum til okkar. Loks verður hún bara ein.

Blað sem endurspeglaði samfélagið í mótsetningum sínum, tilbrigðum og margháttuðum skoðunum verður málgagn eins manns; Reykjavíkurbréf, leiðarar, Staksteinar – og forsíðufréttir nú orðið – allt er þetta helgað skoðunum og hagsmunum og hleypidómum, þráhyggjum og umfram allt málsvörn Davíðs Oddssonar: það er skrifað um Seðlabankann sem allt gerði rétt og það er skrifað um Icesave, það er skrifað um forsetann og svo aftur um Seðlabankann og enn um Seðlabankann og loks um Seðlabankann. Sem allt gerði rétt.

Meira að segja vísnahornið hans Péturs Blöndals var um daginn helgað bragsnilld Davíðs.


* * *


Ég varð læs á Morgunblaðið – og Þjóðviljann. Síðarnefnda blaðið varð stærri partur af lífi mínu þegar fram liðu stundir. Ég vann þar um hríð, lærði þar prófarkalestur og hóf þar pistlaskrif, fór á blaðamannafundi og lifði í stöðugum ótta við að lenda í því að skúbba.

Mér fannst Þjóðviljinn vera mitt blað og hélt því að ég vissi hvernig það ætti að vera; mér varð það á að fagna því þegar Þjóðviljinn dó drottni sínum vegna þess að blaðið var ekki nákvæmlega eins og mér fannst að það ætti að vera. Ég hélt að áskrift minni á blaðinu og ást minni á því fylgdi ritstjórnarvald yfir því. Mér fannst ég hafa verið í samfélagi sem hefði á einhvern hátt svikið mig án þess að ég gæti gert fyllilega grein fyrir þeim svikum. Ég hef iðrast þess æ síðan að fagna dauða Þjóðviljans, þó ekki væri nema fyrir þá sök eina að þá misbauð ég Árna Bergmann, þessum víðsýna anda vinstri hreyfingarinnar og frumkvöðli í skáldsagnagerð sem kenndi okkur svo mörgum svo margt um frjálsa hugsun…

Síðan hef ég tregað Þjóðviljann. Og lesið Moggann.


* * *


Ég varð læs á Morgunblaðið og meðal þess fyrsta sem ég gerði þegar ég fór að búa sjálfur var að kaupa áskrift að blaðinu – þá fannst mér ég kominn með mitt eigið heimili. Mogginn hefur haft þessa stöðu í lífi okkar; verið eins og sokkarnir í skúffunni, útvarpið, ofnarnir og klósettið, myndirnar á veggjunum, dótið í hillunum, bækurnar, stólarnir, vaskurinn, kaffikannan…

Svefndrukkinn hef ég reikað fram í forstofuna og séð þar Moggann í lúgunni eins og staðfestingu á samhengi tilverunnar og nýrri dögun. Ég hef sett yfir ketilinn og hvomað í mig kornfleiksi yfir þessu blaði. Ég hef setið með það á klósettinu. Ég hef legið með það dormandi í sófanum meðan rigningin kliðar úti.

Ég hef meira að segja skrifað í það þegar mikið hefur legið við – nokkrar minningagreinar, sem eru mikilvægustu greinar sem við Íslendingar skrifum. Það hvarflaði aldrei að mér að áskriftinni fylgdi ritstjórnarvald yfir Mogganum; ég gerði ekki þá kröfu til blaðsins að það væri mér endilega að skapi, ég vissi ekki að það væri innan míns áhrifasviðs, frekar en veðrið. Ekki gat ég farið að hlutast til um Ferdinand. Ég vissi ekki einu sinni fyrr en Halldór Baldursson fór að teikna í blaðið að skopteikningar þar gætu verið fyndnar.

Slík var lítilþægni manns gagnvart blaðinu.

En ég á minningar tengdar þessu blaði sem teygja sig yfir alla ævina – það eru minningar um hvunndag – minningar um ömmur mínar og afa, sveitina, foreldrahús, ýmsar vistarverur tilveru minnar. Með öðrum orðum: blaðið hefur verið hluti af nánasta umhverfi mínu öll þessi ár og ég veit að þegar ég reika svefndrukkinn fram í forstofuna þessa myrku vetrarmorgna sem bíða mín og enginn Moggi verður í lúgunni þá mun mér finnast það tómlegt og mér á eftir að líða eins og eitthvað hafi verið tekið frá mér.

Þegar Ólafi Stephensen ritstjóra var sagt upp og í kjölfarið blaðamönnunum sem voru sálin í Mogganum – Birni Vigni og Freysteini, Árna Jörgensen og Fríðu Björk – en ráðnir þess í stað þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen – þá fannst mér sem mér hefði verið sagt upp sem áskrifanda.

Auðvitað mega eigendur blaðsins ráða þá sem þeir kjósa að blaðinu – skárra væri það nú – þótt peningarnir komi frá því að vera áskrifendur að óveiddum fiski í sjónum, fyrir utan alla skuldaniðurfellinguna – og ef þeir vilja fækka lesendum og einskorða lesendahópinn við áhangendur Davíðs er það vissulega þeirra mál. En ég er bara ekki í þeim hópi. Og ég get ekki verið að borga fyrir slíkt blað. Nóg er nú samt.

Því miður.

Ég mun sakna blaðsins.

* * *


Ég veit það ekki. Einhvern veginn er það svo að mér finnst ekki hægt að Davíð Oddsson eigi – eftir allt sem á undan er gengið – að geta sest í eina af fáum raunverulegum virðingarstöðum sem eftir eru í samfélaginu eins og ekkert hafi í skorist. Því það hefur svo mikið í skorist. Hann var vissulega eins og Kassandra í Seðlabankanum æpandi um misferli og komandi hrun og enginn trúði honum, af því hann var Davíð Oddsson. Hefði Hversemerannar Einhversson verið Seðlabankastjóri á þeim tíma hefði varnaðarorðum hans verið trúað og brugðist við. Svona verður það líka á Mogganum. Við hugsun: Byrjar hann…

Hann hefur brennt svo margar brýr að baki sér, hann hefur sagt svo margt, honum hefur orðið svo margt á. Hann sundrar en sættir ekki. Hann á sína áköfu áhangendur vissulega en hann nýtur ekki almennrar virðingar í samfélaginu. Hann er ekki trúverðugur. Við hættum að trúa blaðinu; nema það fólk sem á hann trúir.

Það þarf heldur ekki að hafa mörg orð um það að hrunið er bein afleiðing valdatíðar Davíðs Oddssonar og þeirrar hugmyndafræði sem hann innleiddi ásamt vildarmönnum sínum; afnám reglugerða, afnám Þjóðhagsstofnunar, taumlaus einkavæðing, laissez-faire-stefna samfara blindri trú á einhverja ósýnilega hönd markaðarins, sem Stiglitz sagði réttilega um að væri ósýnileg af þeirri einföldu ástæðu að hún væri ekki til…

Þegar þú býrð til óða-kapítalisma færðu óða kapítalista.

Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur. Og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir. Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist – allt hrundi, allt fór. Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita.

Allra síst vil ég hafa þá í mínu nánasta umhverfi að slást eins og óða fressketti. Ég vil ekki vakna á morgnana og reika svefndrukkinn fram í forstofu til þess að hefja daginn á því að fá þessi áflog framan í mig á síðum blaðsins sem einu sinni var Mogginn minn.

Nýtt fólk – heiðarlegt og grandvart fólk, skynsamt og óbrjálað af græðginni og geggjuninni, vélabrögðunum, klækjunum og átakagleðinni – verður að fá að byggja hér nýtt samfélag án þess að þeir séu að trufla okkur sýknt og heilagt, þessir fresskettir gærdagsins.


* * *


Ég mun sakna Moggans. Ég mun sakna hins fjölfróða Árna Matt og hins geðríka Arnars Eggerts, Beggu Jóns sem er vitur og væn, teikninga Halldórs Baldurssonar, gagnrýni Rikka Páls og Venna Linnet og Rögnu, Einars Fals og hinna ljósmyndaranna, viðtala Péturs Blöndal – aðsendu greinanna og minningagreinanna þar sem Íslendingar sýna sínar bestu hliðar; jafnvel Ferdinands þó hann hafi aldrei verið sérlega sniðugur. Allra góðu blaðamannanna sem búið er að reka. Blaðsins sem hefði getað orðið.

Á sínum betri stundum var Mogginn eins og fagurlega útskorið ræðupúlt og allir fóru að vanda mál sitt og æði þegar þeir komu þangað til að taka til máls. Hann var betristofa íslenskrar umræðu. Á verri stundum sínum var hann að vísu stundum snaróður oflátungur. En slíkum stundum fækkaði.

Þeir Matthías og Styrmir – og þeirra sveit – byggðu upp gott blað á mörgum árum sem  náði trúnaði manna sem komu úr hinum enda þjóðfélagsviðhorfanna. Þetta var blað sem ætlað var okkur öllum. Þeir voru óþreytandi að byggja brýr.

Það tekur enga stund að brenna brýr; trúnaður eyðist á örskotsstundu. Þjóðarblað skreppur saman í safnaðartíðindi. Vertu sæll Moggi, þakka þér samfylgdina.
Guðmundur Andri Thorsson