Ísfólkið

17. mars 2010 · Fært í Úr Andrahaus 

Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Eftir Guðmund Andra Thorsson


Icesave-málið er jafn einfalt og það er flókið.

Það snýst um orðspor og sjálfsmynd. Það snýst um ábyrgð Íslendinga og það traust sem þeir hyggjast byggja upp á ný meðal þjóða heims: hvort þeir ætla að fara að reglunum eða setja þær -  vera eins og löghlýðinn þegn og ábyggilegur félagi í samfélagi þjóðanna eða vera enn á óútreiknanlegum sérleiðum… það er tæpast tilviljun að í fararbroddi þeirra sem beinlínis virðast því andsnúnir að Icesavemálið leysist eru einmitt sérleiðamennirnir; þeir sem töldu sig hafa fundið sérleiðir til að auðgast á alþjóðamörkuðum sem hinir svifaseinu útlendingar hefðu ekki komið auga á. Og telja sig nú finna sérleiðir til lausnar á málinu sem hinir durtslegu útlendingar geta ekki fallist á.

Orðspor og sjálfsmynd: Íslendingar virðast unnvörpum ætla að lifa sig af alefli inn í  XXXV. kafla Bréfs til Láru eftir Þórberg – kaflann sem hefst á orðunum: „Það var morgunn hins efsta dags…“ Þar kemur sögumaðurinn nakinn fyrir dómstól drottins allsherjar sem lítur til hans, opnar lífsins bók og segir: „Þú hefir syndgað, sonur minn. Syndir þínar verða þér ekki fyrirgefnar.“ Og sendir hann til heljar, bendir honum í myrkrið fyrir utan þaðan sem heyrðist grátur og gnístran tanna. Þórbergur játar fúslega að hafa syndgað en segist einmitt þess vegna eiga skilið vist í ríki drottins. Hann hafi fengið tvær náttúrur í vöggugjöf, góða og vonda, sú góða hafi verið verk drottins og ekkert unnið annað en gott en hin illa náttúra hafi verið frá Hinum vonda og hún hafi framið allar syndir sínar meðal mannanna, en sjálfur sé hann ekkert annað en þessi andstæðu eðli. Ekki megi láta hina góðu náttúru líða fyrir syndir sem hún átti enga hlutdeild í. Hin vonda náttúra njóti friðar og fagnaðar í Helju þar sem hún eigi ætt og óðul, en hljóti aftur á móti verðuga refsingu meðal heilagra. Drottinn allsherjar hafði náttúrlega aldrei hugsað út í þetta og sér skyndilega ljósið og býður honum inn og segir við hinar skínandi hersveitir: Við breytum skipulaginu.

Og loks endar kaflinn á þessum frægu orðum: „Og það varð bylting í ríki útvaldra“.

* * *

Þetta er kunnuglegt. Davíð Oddsson í Kastljósinu að tala um að þjóðin ætti enga hlutdeild í skuldum óreiðumanna… Draumurinn um að uppreisn Íslendinga verði til þess að breyta fjármálakerfi heimsins sem blandast gömlum og lífseigum draumi um að Íslendingar hafi sérstöku hlutverki að gegna í heiminum… Draumurinn um að snúa á almættið… Vonin um að þvermóðskan reynist dyggð…  Vonin um að einhver „Drottinn allsherjar“  dáist að Íslendingum og kveði upp úr: Látum greyin vera, við breytum skipulaginu…

* * *

Icesavemálið snýst um ábyrgð íslenska ríkisins sem sumir segja að  komi íslenskum þegnum ekkert við – það er að segja ríkið: íslenska þjóðríkið komið þegnum sínum ekkert við, umboð kjörinna fulltrúa nái ekki til þess að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar. Lýðræðið hér á Íslandi sé ekki þannig meint. Íslendingar hafi meira kosið fulltrúa á þing til þess að láta þá ganga erinda sinna gagnvart öndverðum hagsmunaaðilum gegn því að þeir fengju að skara eld að sinni köku.

Ábyrgð þeirra sem kusu fulltrúa sem aftur völdu embættismenn sem síðan störfuðu í umboði þjóðarinnar eftir kúnstarinnar reglum lýðræðisríkis sé því engin – og hafi kjörnir fulltrúar sagt þjóðina bera ábyrgð á Icesavereikningunum sem voru starfræktir í Englandi og Hollandi með ýmsum afleiðingum, hafi þeir bara talað fyrir sig en ekki fyrir þjóðina, sem sé aftur á móti  í beinu sambandi við Forseta sinn og láti hann vita hvenær hann eigi grípa fram í fyrir hendurnar á hinum kjörnu fulltrúum. Og gildi þá einu þótt ein afleiðingin af Icesave hafi verið sú að allt fylltist af peningum í íslensku þjóðlífi; enginn telur sig hafa séð þá peninga, sem slíka, beinlínis, þannig lagað.

Allir voru þó á því á meðan ballinu stóð að þessir reikningar gengju vel; þar var hærri ávöxtun lofað en bankar sem fyrir voru með reikninga í þessum löndum treystust til að veita (sérleiðamenn andspænis svifaseinum útlendingum). Icesavereikningarnir voru á vegum Landsbankans.  Landsbankinn var íslenskur banki.  Samkvæmt reglugerðum sem Íslendingar höfðu undirgengist bar að koma á fót innlánstryggingasjóði sem skyldi greiða hverjum reikningseiganda við hugsanlegt fall banka rúmlega tuttugu þúsund evrur . Þegar hið óhugsandi – og óhjákvæmilega – gerðist svo, að Landsbankinn féll tryggðu  íslensk stjórnvöld innlánsreikningna bankans á Íslandi  en þrátt fyrir yfirlýsingar bæði þá og síðar hefur íslenskum stjórnvöldum enn ekki tekist að semja um hvernig – eða jafnvel hvort – eigi að leggja fram það lágmarksfjármagn sem  innlánstryggingasjóði á vegum þeirra bar að tryggja hverjum innlánseiganda.  Stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi  tóku á sig skellinn en reyna nú að sækja þetta fé til Íslendinga.

Almennt er talið að sala á eignum Landsbankans muni duga fyrir um það bil níutíu prósentum þessarar fjárhæðar – ef ekki hundrað prósent.

* * *

Um hvað snýst eiginlega málið? Peninga? Stolt? Traust? Það er að minnsta kosti jafn flókið og það kann að virðast einfalt. Það er í eðli sínu rembihnútur af því tagi sem við erum vön að leysa með bráðabirgðalögum. En það leysir það enginn fyrir okkur.

* * *

Sumir segja, og virðist jafnvel ríkjandi skoðun meðal landsmanna: Það má vel vera að Íslendingum hafi borið að koma á fót innlánstryggingasjóði. En það stendur hvergi berum orðum að Íslendingum hafi borið að sjá til þess að sá innlánstryggingasjóður virkaði.

Og sú klásúla – segja hinir sömu – að ríkissjóður viðkomandi lands eigi að koma til skjalanna ef innlánssjóðurinn bregst er augljóslega fráleit í því tilviki þegar efnhagskerfið hrynur í heild sinni, eins og einmitt er kveðið á um í reglugerð ESB. Og augljóslega fráleit og sérlega ósanngjörn af því að íslensku bankarnir voru alltof stórir, höfðu vaxið þjóðinni yfir höfuð án þess þó að fá að gera upp í erlendri mynt, voru einkabankar sem við horfðum að vísu á undrandi og svolítið stolt (og svolítið smeyk) en starfsemi þeirra var ekki á okkar vegum, þeirra veruleiki var ekki okkar veruleiki, og auk þess brugðust þáverandi stjórnvöld og eftirlitsaðilar, svo að þetta er þeim að kenna. Ekki okkur.  Enda erum við Íslendingar fámenn og fátæk og heilbrigð og stolt (og ljóshærð) þjóð fiskimanna og bænda…

Og því ber enskum og hollenskum skattborgurum að taka okkar skell.

Hugmyndin að baki þessari línu virðist vera sú að Íslendingar ætli að koma sér á ný á réttan kjöl og öðlast sinn réttmæta sess á ný meðal þjóða heims með því að koma öðrum þjóðum í skilning um íslensku sérstöðuna: að drottinn allsherjar sjái ljósið og segi: nei það gengur ekki að fara svona með þessa stórkostlegu þjóð, að láta hana fara að borga; við skulum breyta skipulaginu.

Við erum ennþá  á valdi Kastljóssviðtalsins við Davíð Oddsson Seðlabankastjóra þar sem hann brá upp einfaldri og hrífandi mynd af því hvernig við gætum einfaldlega skorið á skuldabaggann og leyft honum að sigla sinn sjó og orðið á ný vel haffær. Við erum ennþá frosin. Við erum Ísfólkið. Við sitjum enn í stofunni ísi lögð og horfum heilluð – heillum horfin.

* * *

Því að Icesave-málið er jafn flókið og það er einfalt. Það snýst um að vera þjóð meðal þjóða – en hvernig þjóð meðal hvaða þjóða? Þjóð fátækra og heilbrigðra fiskimanna og bænda sem vinnur hörðum höndum og lætur engan ræna frá sér lífsbjörginni? Sú frásögn virkaði vel í Þorskastríðunum. Eða erum við Sérleiðamenn? Sem smjúgum um fjármálakerfi heimsins á nóttunni meðan aðrir sofa og finnum það sem aðrir finna ekki? Erum við fórnarlömb eða gerendur? Erum við fátæk og vanmáttug þjóð? Eða erum við í hópi ríkustu þjóða heims? Og sé svo – eins og raunar tölur benda til um þjóðarframleiðslu – auk þess sem Icesaveskuldin verður sennilega aldrei annað en brot af þeirri framleiðslu – eru Íslendingar þá ekki með fátæktarkvaki sínu svolítið eins og fínu mennirnir á jeppunum í Garðabæ sem maður sér stundum leggja í stæði ætlað fötluðum fyrir utan Hagkaup?  Getum við skorið frá íslenskum samfélagi þá sem við teljum seka og sett í sérstakt stakmengi og sagt útlenskum kröfuhöfum að rukka þá: sjálf séum við saklaus? Er það til þess fallið að auka traust á landi og þjóð? Viljum við kannski ekkert traust á landi og þjóð? Ætlum við að treysta lengi enn á dómgreind mannsins sem stýrði baráttunni fyrir því að Bandaríkjamenn héldu herstöðvum sínum í Keflavík, og innsæi hans í alþjóðapólitík? Höfum við áhuga á því að aðrar þjóðir vilji lána Íslendingum fé í framtíðinni til að hjálpa þeim í gegnum komandi brimrót erfiðra afborgana?Eða ætlum við að segjast vera á hausnum án þess einu sinni að reyna að standa – já einmitt – standa í lappirnar?

Hver viljum við vera? Hver í fjandanum erum við? Komu útrásarvíkingarnir frá tunglinu?

* * *

Það takast á tvær frásagnir í íslenskri þjóðmálaumræðu um þessar mundir, tvö ólík grundvallarsjónarmið og flestar fréttir vefmiðlanna og dagblaðanna af hruninu eru til stuðnings öðru hvoru sjónarmiðinu.

Annars vegar eru þau sem segja að einkavæðingin fyrir og upp úr aldamótunum – og markaðsvæðing fiskveiðiheimildanna þar á undan – hafi í raun fært Ísland frá því að vera grámyglulegt haftaland af sovésku tagi, komið því inn í nútímann og orðið til þess að leysa úr læðingi krafta sem blunduðu með þjóðinni og hér hafi blómstrað þróttmikið athafnalíf, en hins vegar hafi ekki allir kunnað með þetta nýfengna frelsi að fara – sökum persónleikabresta sinna -  heldur farið að spila á kerfið með hætti sem ekki hafi verið með nokkru móti hægt að sjá fyrir af þeim sem færðu þjóðinni frelsið, og allar tilraunir til að koma böndum á þessi öfl hafi mistekist vegna þjónustu slyngra lögmanna en ekki síður vegna sterkrar stöðu þeirra á fjölmiðlamarkaði sem hafi gert það að verkum að þeir hafi náð að stjórna umræðunni. Þessi mikla trú á áhrifamátt dagblaða við að móta veruleikann hefur leitt þessa menn til þess að kaupa sjálft Morgunblaðið þar sem daglega er reynt að segja þessa sögu með nýjum og nýjum blæbrigðum.

Hins vegar eru það þau sem segja að Hrunið sé af völdum kerfisvillu í íslensku samfélagi áranna eftir einkvæðinguna: Að sá sem býr til óðakapítalisma – hann fái óða kapítalista. Að ef þú afnemur regluverk getirðu ekki ætlast til að aðrir fari eftir óskráðum reglum, því óskráðar reglur voru ekki til hér á landi þar sem viðskipta- og stjórnmála- og menningarlífi hefur alltaf verið stjórnað af litlum klíkum.

Í þessu sambandi má benda á stórmerkilegt viðtal við Pálma Haraldsson kenndan við Fons í DV helgina 6-7 mars þar sem skýrt kemur fram að hann og félagar hans litu á sig eins og hverja aðra sjóara sem fiskuðu í landhelginni eins og yfirvöldin heimiluðu, fóru með aflann í land, fengu fullt af pening og létu síðan eins og fífl þegar þeir áttu frí eins og lög gera ráð fyrir að sjómenn geri í landi.

Samkvæmt fyrri frásögninni komu útrásarvíkingarnir frá tunglinu, það er að segja illu útrásarvíkingarnir, en góðu útrásarvíkingarnir (Landsbankamenn/Icesavehöfundarnir) gerðu hins vegar ekkert af sér og eiga skilið vist í Paradís.

Samkvæmt seinni frásögninni eru útrásarvíkingarnir afurð íslensks samfélags. Niðurstaðan af frjálshyggjutilrauninni: óðu kapítalistarnir sem óðakapítalisminn skapaði.

* * *

Við erum Ísfólkið. Icesave-málið er frystiklefinn okkar þar sem við erum geymd á meðan við bíðum eftir rannsóknarskýrslunni sem við væntum þess að veiti okkur svörin við því hvor frásögnin er rétt.