Arion: draumurinn um kombakkið – Úr Andrahaus

22. nóvember 2009 · Fært í Úr Andrahaus 

Eftir Guðmund Andra Thorsson


„Í skarðslöndum fyrir vestan er eya ein, sem Hólaey heitir. Norður úr henni geingur höfði einn, hálfklipinn frá eynni, og heitir hann Andrahaus. Hausinn er nokkuð víðlendur ofan og grasi vaxinn mjög, og það því fremur sem á honum hefur verið sú trú, að ekki mætti slá hann.“ Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 481


Hefði Kaupþing ekki átt að kalla sig bara Sparibaukinn? Eða Sparibankann? Eða jafnvel – hafi menn viljað vera svolítið erlendis: Sparion? Er Arion ekki svolítið eins og nafn á unglingahljómsveit frá Hellisandi um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar? Eða tískubúð á Akureyri tíu árum síðar?

Viðbrögðin við nafnbreytingu Kaupþings hafa að minnsta kosti verið nokkuð á eina lund. Þetta er í group-deildinni. Jónína Ben hefur meira að segja dregið fram að þetta hafi verið nafnið á einhverju leynifélaginu innan bankans þegar allt var sem galnast þar innan dyra. Arion.

Eins og fram hefur komið var Arion nokkurs konar trúbador sem söng Dionysosi lof, guði víns, algleymis og nautna; hann var við einhverjar hirðir og hélt uppi fjörinu; var sem sagt hress gaur í viðburðadeildinni – kannski svolítið eins og Jónsi í Svörtum fötum.

Sagan segir að Arion hafi farið í  evrópusöngvakeppni til Sikileyjar og sigrað hana. Á heimleið var honum rænt af sjóræningjum sem hirtu af honum verðlaunaféð og gáfu honum tvo kosti: að farga sér eða stökkva í sjóinn. Arion bað um að fá að syngja eitt lag enn. Svo kyrjaði hann Appolo lof og söngur hans hreif svo nærstadda höfrunga að þeir flykktust um bátinn. Að söngnum loknum stökk Arion út í sjóinn og þar tóku höfrungarnir á móti honum og hann komst heilu og höldnu til íverustaðar Poseidons, búinn að vinna hylli Appolons og almennt á grænni grein. Og þaðan heim. Sjóræningjarnir fengu makleg málagjöld.

Sagan vekur hugrenningartengsl.

Bankinn er Arion. Sigurinn í söngvakeppninni á Sikiley er útrásin. Sjóræningjarnir á heimleiðinni eru þeir sem brugðu fæti fyrir Kaupþing og settu bankann á hausinn: Gordon Brown, Alistair Darling, Davíð Oddsson… Ég veit ekki nákvæmlega hverjum allt klúðrið á að vera að kenna öðrum en Kaupþingsmönnum sjálfum. Höfrungarnir eru hjálpin sem er á leiðinni, og í lok sögunnar hefur Kaupþing endurheimt fyrri dýrð en þrjótarnir fengið makleg málagjöld.

Svona sögur um hetju sem er svikin og fangelsuð, upplifir ógnarlegar þrautir en rís svo upp öflugri en nokkru sinni, hafa fylgt mannkyninu frá ómuna tíð. Við höfum séð þær í vestramyndum með Clint Eastwood; við höfum séð þær í sögninni um Dedalus sem smíðaði vængina, við höfum hinn íslenska Völund í Völundarkviðu; það var Kristur á krossinum; Óðinn á Vindgameiði….

Ég var næstum búinn að gleyma einum  – úr Biblíunni:

Samson.