Minn herra á aungvan vin – nema… – Dagbók flettarans 18.07.09

18. júlí 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Ólafur Stephensen gerir tilraun til að ræskja sig mynduglega í Staksteinum dagsins. Þar er fréttaskýringum Agnesar Bragadóttur andmælt, djúpri og ábúðarmikilli röddu. Það mun koma fyrir lítið. Það verður eins og að skvetta vatni á gæs.

Morgunblaðið hefur nú verið um nokkurra vikna skeið helgað agneskum fréttaskýringum og heiftúðugum andstöðuskrifum við ríkisstjórn, Icesave og ESB. Meira að segja hinn einatt geðslegi vísnadálkur Péturs Blöndal var einn daginn helgaður leirbornu níði um Steingrím J. Sigfússon. Gott ef Ferdinand var ekki farinn að þruma gegn Icesave yfir sinni mæddu eiginkonu.

Á meðan gengur einn af helstu aðstandendum Icesave, Kjartan Gunnarsson, um eins og hver annar borgari sem mark eigi að taka á og ávítar meira að segja Þorgerði Katrínu fyrir það hvernig hún hagar þingstörfum sínum eins og hann hafi eitthvað yfir henni að segja eða sé yfirleitt í þeirri stöðu að geta tekið til máls þannig að fólk hlusti.

DV er í ham um þessar mundir og tekur í lurga á fjárglæframönnunum – svona flestum að minnsta kosti. Það er bara Egill Helgason sem lætur jafnt yfir alla ganga.

Að vísu sér maður stundum skrýtnar fyrirsagnir í DV eins og þá að best sé að búa á Seltjarnarnesi – eins og slíkt sé hægt að reikna út frá fasteignagjöldum eða einhverjum slíkum búðarlokusjónarmiðum. Það er áreiðanlega misskilingur. Hins vegar hefur blaðið verið duglegt að beina kastljósinu að óhæfuverkum bankasvindlaranna og gegnir þannig mikilsverðu hlutverki.

Það skaut þó skökku við um síðustu helgi að blaðið skyldi í úttekt sinni á gáfaðasta fólki landsins útnefna þar sjálfan skapara kerfis og hruns, Davíð Oddsson, og líka Svöfu Grönfeldt einn aðalhöfund frægrar skýrslu um ímynd Íslendinga sem full var af þvaðri um „víkingseðli“ Íslendinga, og virkaði á mann eins og tilraun til að skapa nokkurs konar fræðilegan grundvöll að ránskapnum um sparifjárlendur Evrópu.

Þarna var líka Halldór Laxness sem flettari hélt að væri látinn fyrir nokkru.

En svo var þarna að vísu líka bæði bráðgáfað fólk og sprelllifandi eins og Vigdís forseti og Illugi Jökulsson.

Gáfað fólk: Davíð Þór skrifar alltaf skemmtilega bakþanka með góðri og vandaðri hugsun; og nú síðast í laugardagsblaðið. Pistillinn fjallar að þessu sinni um flettara og fjölskyldu hans, þó að svo kunni að virðast fram að síðustu málsgrein að hann fjalli um annað.

Annar góðpenni er Þorsteinn Pálsson. Flettari er af gömlum íhaldsættum og sjálfsagt íhald inn við beinið, að minnsta kosti rótgróinn velunnari Sjálfstæðisflokksins þótt misjafnlega sýni hann dálæti sitt. En nú eru skrýtnir tímar og full ástæða til að veita Sjálfstæðismönnum heilræði, því að upplausnarástandið innan flokksins snertir okkur öll og gerir það nánast óbærilegt að fylgjast með þingstörfum. Af hverju bakkar flokkurinn ekki bara duglega til baka – alla leið á þann punkt þegar hann tók röngu beygjuna? Og fær Þorstein Pálsson til að leiða flokkinn á ný?

Ragna Árnadóttir vinnur verk sín hljóð og virðist öllum mönnum góð af fréttum að dæma. Hún ætlar samkvæmt forsíðu Fréttablaðsins enn að styrkja stöðu saksóknarans sérstaka og færa efnahagsbrotadeild frá ríkislögreglustjóra. Ekki mun af veita. Það mun þurfa samfellt átak allra mestu reikningshausa og lagaspekinga landsins til að greiða úr flækjunum sem reikningshausar pappírsvíkinganna skildu eftir sig. Þar þarf gáfað fólk.

Annars er Fréttablaðið hálf júlílegt um þessar mundir. Enginn Páll Baldvin, enginn Bergsteinn, engin Júlía Margrét; meira að segja lítið um þætti af einkennilegum mönnum frá Jakobi Bjarnari.

Hins vegar er þar mættur glaðbeittur í viðtal Jón Ólafsson viðskiptamaður. Og óspar á heilræði sín þjóðinni til handa um það hvernig hún á að efla orðspor sitt í viðskiptum. Hann vill ráða þjóðinni heilt í viðskiptasiðferðisefnum og tekur eindregið undir hugmyndir Davíðs Oddssonar um hina svokölluðu „dómstólaleið“.

Sú leið virðist í fljótu bragði snúast um að láta Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólaf Börk dæma í Icesave-málinu. Undirtektir hafa að vonum verið hálf daufar jafnvel þótt Davíð telji sig sýnilega hafa ástæðu til að ætla að úrskurður þeirra verði íslensku þjóðinni hagstæður. Menn hafa jafnvel óttast að þá kynni að spyrjast út hvernig að ráðningu þessara manna var staðið í Hæstarétt á sínum tíma. Icesavemálið snýst nefnilega líka um það hvort íslenska ríkið ætlar að láta taka sig alvarlega.

Nú hefur Davíð bæst liðsauki.

Hannes Hólmsteinn gæti nú sagt – með eða án gæsalappa: Minn herra á aungvan vin – nema Jón Ólafsson.
Guðmundur Andri Thorsson