Þriðja Þorskastríðið er tapað – dagbók flettarans 21.06.09

21. júní 2009 · Fært í Dagbók flettarans 

Herdís Þorgeirsdóttir skrifar magnaða grein á laugardag í Fréttablaðið sem fer langt með að sannfæra mann um að Icesave-samningarnir séu svívirða. En ekki alveg alla leið.

Eitt og annað vefst fyrir manni:

Í fyrsta lagi finnst manni að Íslendingum beri að standa við skuldbindingar sínar, hversu galnar sem þær voru, og að nokkru varði, gangi ekki að uppfylla þær, að geta sagt: við reyndum; þetta gekk ekki; semjum upp á nýtt.

Í öðru lagi verðum við alltaf að muna að fórnarlömb þessa máls eru sparifjáreigendur í Hollandi og Englandi  þar sem Landsbankinn hafði fengið að ginna fólk til að setja peninga inn á reikninga sína.

Í þriðja lagi eru Íslendingar ekki jafn saklausir og þeir vilja vera láta – fórnarlömb vissulega en ekki endilega saklaus fórnarlömb. Hér um þjóðfélagið flæddi ódýrt fjármagn og hér á Íslandi var keypt meira af jeppum og öðru þungaglingri  en nokkur hemja var. Íslendingar keyptu sér varning og fjárfestu í húsnæði með peningum sem þeir áttu ekki; hvorki heimilin né bankarnir – eða sveitafélögin sem tæmdu sjóðina á feitu árunum til að eiga ekkert til að mæta mögru árunum.

Nú er komið að skuldadögunum. Og þá reynir maður að semja við lánadrottna. Hvað sem kann að líða hugmyndum Stefáns lagaprófessors um að það sé matsatriði skuldarans hvenær skuldbindingarnar eigi við. Eða sanngirnismál.

Í fjórða lagi vefst þetta fyrir manni: Hvað þá? Því eins og Lára Hanna bendir á í bloggi sínu erum við ekki öll hetjur – það er að segja sá hluti almennings sem ekki hefur mætt á Austurvöll til að mótmæla samningunum. Sjálf  dregur hún þá ályktun að við, þessi sem ekki erum hetjur eins og hún, séum öll í Kringlunni „að dúlla sér“, viljum láta aðra sjá um púlið – og jafnvel að okkur standi á sama um framtíð barnanna okkar og barnabarnanna.

Það er kannski nokkuð orðum aukið.

Kannski erum við einmitt að hugsa um framtíð barnanna og barnabarnanna þegar við styðjum viðleitni stjórnvalda til að semja við alþjóðasamfélagið um skuldbindingar Íslendinga. Því það er óbærileg tilhugsun að Íslendingar verði paríaríki norður í Ballarhafi; Bjartur kominn upp í Urðarsel… Við vitum ekki hvað gerist ef Íslendingar hafna samningnum og allt fer í uppnám. Við vitum ekki hver niðurstaða dómstóla verður. Hins vegar vitum við að eignir Landsbankans duga frá 75 prósent og upp í 95 prósent af þessum skuldum. Við vitum líka að aðrar skuldir Íslendinga eru geigvænlegar. Við vitum að vonlaust er með öllu að Íslendingar geti unnið sig út úr skuldum sínum öðru vísi en með hjálp og í samvinnu við önnur ríki Evrópu. Við verðum að að droppa Stóra Planinu…

Og kannski þurfum við einmitt á öðru að halda nú um stundir en hetjuskap.

Við háðum tvö Þorskastríð við Breta – mjög hetjuleg. Þá vildu þeir veiða í íslenskri lögsögu en urðu frá að hverfa vegna þess að innan Nató var það metið sem svo að vestræn ríki hefðu ríkari hagsmuni af því að hafa Ísland með sér en Hull og Grimsby hefðu af veiðum við Ísland.

Þessi staða Íslendinga innan alþjóðasamfélagsins virðist hafa ruglað þessa litlu þjóð rækilega í ríminu – kannski að rót alls vandans liggi þegar allt kemur til alls í veru hersins hér á landi? Að minnsta kosti ber framferði Íslendinga á umliðnum árum vott um meiri smáþjóðaderring, meira oflæti en dæmi eru um – og yfirþyrmandi áhættusækni sem virðist annars vegar vaxin úr íslenskri karlamenningu og hins vegar knúin af trú á því að manni verði alltaf reddað. Því þannig var það alltaf. Íslenskir (land)ráðamenn virtust alls ekki átta sig á því hvernig staða þjóðarinnar gjörbreyttist við hrun kommúnismans; virtust ekki gera sér grein fyrir því að svona þjóðarkríli getur ekki þrifist nema í skjóli.

Ekki var nóg með að við þessir almennu Íslendingar sem hvorki erum hetjur né snillingar, mættum sæta því sárnauðug að búa við það á ferðum erlendis að vera spyrt saman við ofdramb og heimsku hinna síkaupandi samlanda okkar – nei, okkar góða nafn, sem Björk og aðrir listamenn höfðu ekki síst byggt upp, var notað á kaldrifjaðan hátt til að veiða í breskri lögsögu. Veiða peninga.

En nú var enginn bakhjarl. Ekkert skjól.

Þetta varð síðasta þorskastriðið. Á endanum urðum við þorskarnir. Á þurru landi.

Guðmundur Andri Thorsson