Áhorfendum á Marat/Sade í Borgarleikhúsinu er boðið upp á tvær snilldarhugmyndir. Önnur er beinlínis leikritið sjálft, Marat/Sade eða ofsóknin og morðið á Jean Paul Marat sýnt af vistmönnum geðveikrahælisins í Charenton undir stjórn de Sade markgreifa eftir þýska leikskáldið Peter Weiss. Það er varla hægt að hugsa sér geggjaðri hugmynd en að horfa á frönsku byltinguna 1789, ástæður hennar, einkenni og afleiðingar með augum markgreifans de Sade, sem enn er milli tannanna á fólki vegna ýmissa skoðana sinna á kynferðismálum og fleiru, og leyfa þar að auki heilu geðveikrahæli að taka þátt í þeirri skapandi vinnu. Hin hugmyndin er svo að smala saman stórum hópi ástsælla leikara á eftirlaunaaldri og láta þá leika vistmennina sem leika í leikriti de Sade. Þetta gerir leikstjórinn, Rúnar Guðbrandsson hjá Lab Loka, og tekst með sínu fína liði að gera sýninguna eina þá athyglisverðustu, myndrænustu, fjölbreyttustu og geggjuðustu sem maður hefur lengi séð. Ég þurfti að fara alla leið aftur til sýningar Gavins Richards á Stjórnleysingi ferst af slysförum eftir Dario Fo í London 1980 til að fá samanburð.
Titillinn segir það sem segja þarf um efni verksins. Það mun vera staðreynd að Charenton-hælið var einn þeirra staða þar sem de Sade markgreifa (sem sadisminn er kenndur við) var haldið föngnum vegna skoðana sinna og skrifa og þar lést hann 1814. Gott ef ekki er líka vitað að hann hafi látið vistmennina leika í verkum eftir sig. En Peter Weiss stækkar hugmyndina og notar hana til að opinbera djúpa, heimspekilega sýn sína á eðli byltinga, eðli mannsins og ekki síst eðli byltingarmannsins út frá tveim sterkum einstaklingum með afar ólíka lífsstefnu.
Á Nýja sviði Borgarleikhússins er ys og þys. Vistmenn, klæddir hinum fjölskrúðugasta fatnaði, ráfa þar um í kringum stórt baðker. Í því situr vistmaðurinn sem leikur byltingarforingjann Jean Paul Marat (Sigurður Skúlason), sárþjáðan af alvarlegum húðsjúkdómi, og skrifar og les okkur hvatningarávarp til frönsku þjóðarinnar: það má ekki glata því sem unnist hefur í byltingunni. Til hliðar stendur de Sade markgreifi (Arnar Jónsson), hávaxið glæsimenni sem nú hyggst stýra sýningu vistmanna á leikriti sínu um morðið á Marat fyrir hóp gesta sjúkrahússins. Coulmier, forstjóri hælisins (Viðar Eggertsson), hefur samþykkt sýninguna, enda telur hann að þar verði byltingin fordæmd en ný stjórn Napóleons í landinu hyllt. Það reynist ekki alveg tilfellið.
Í hlutverkum vistmanna/leikara í verki de Sade er rjóminn af leikaraliði landsmanna megnið af leikhúsævi minni. Mikils er líka krafist af þeim því að allir nema Arnar og Viðar þurfa að leika tvöfalt hlutverk, annars vegar vistmanninn með sinn sérstaka sjúkdóm og hins vegar hlutverkið í leikritinu, og skal sagt strax að leikur allra var algerlega tvöfaldur í roðinu allan tímann. Margrét Guðmundsdóttir leikur vistmann með svefnsýki sem fær að leika hina einbeittu Charlotte Corday sem hefur fengið sig fullsadda af byltingunni og vill koma í veg fyrir frekara blóðbað með því að drepa þann sem hún telur ábyrgðarmanninn. Eins og komið hefur fram lék Margrét þetta hlutverk í Þjóðleikhúsinu árið 1967 og á vel við að segja hér: Hún hefur engu gleymt! Framsögnin var skýr og styrk og innlifunin sönn. Vistmaður illa haldinn af kynlífsfíkn og káfáráttu leikur þingmanninn Duperret (Eggert Þorleifsson) sem reynir að hindra ódæðið. Hann átti þó eðlilega mjög erfitt með að láta konuna í friði sem hann átti að vernda og senurnar milli þeirra Margrétar voru sprenghlægilegar þrátt fyrir myrkan undirtón.
Kristbjörg Kjeld er vistmaðurinn sem leikur Simonne, tortryggna og umhyggjusama hjúkrunarkonu Marats sem varði sinn mann vel á meðan hann varð varinn fyrir sjálfumgleði sinni. Árni Pétur Guðjónsson er afar skrautlega búinn (að ekki sé meira sagt) sem kallarinn, sá sem stýrir framvindunni í leiknum og hjálpar leikurunum að koma inn á réttum stöðum og muna textann sinn. Það gerðu líka mjög sýnilegir hvíslarar sem ég hélt að væru hluti af leiknum en voru víst venjulegir hvíslarar, bara meira áberandi en yfirleitt er í leikhúsum. Vistmaðurinn sem Sigurður Karlsson lék gekkst af hjarta og sálu upp í hlutverki kaþólska prestsins og umbótamannsins Jacques Roux og flutti skeleggar ræður hans af svo mikilli sannfæringu að gæslumenn urðu hvað eftir annað að fara með hann afsíðis.
Mikil skemmtun og prýði var að sönghópi Hönnu Maríu Karlsdóttur, Helgu Jónsdóttur, Guðmundar Ólafssonar og Haralds G. Haralds, og hljóðfæraleikararnir Reynir Jónasson og Reynir Sigurðsson héldu taktinum uppi. Allt um kring voru svo aðrir vistmenn í ónefndum hlutverkum en fengu öll að vera senuþjófar þegar það átti við. Þar var Þórhildur Þorleifsdóttir fremst í flokki, dásamleg ballerína sem líklega þjáðist af geðhvörfum, en þau áttu líka sín fínu augnablik Jón Hjartarson, Jórunn Sigurðardóttir, Júlía Hannam og Þórhallur Sigurðsson. Það var oft erfitt að vita hvar maður átti að hafa augun, svo margt var að gerast um allt á sviðinu og freistandi að fylgjast með hverjum og einum, hvar hann væri að bauka og við hvað. Ekki dauð sekúnda!
Marat/Sade er óhemju vel skrifað verk og þýðing Árna Björnssonar er sannfærandi og hljómfögur. Leikmynd og búningar voru í höndum Ingibjargar Jöru Sigurðardóttur og Filippíu Elísdóttur. Áheyrileg og nytsöm tónlistin er eftir Richard Peaslee en Guðni Franzson sá um tónlistarstjórn og hljóðmynd. Þó að oft virtist óreiðan á sviðinu alveg stjórnlaus duttu leikararnir inn á milli í skondinn dans sem dillaði mjög. Það var Valgerður Rúnarsdóttir sem sá um sviðshreyfingar. Lýsingin, erfið og þýðingarmikil, var hönnuð af Arnari Ingvarssyni.
Hafi það ekki þegar komið nógu skýrt fram þá er Marat/Sade framúrskarandi leikhússkemmtun!