Skáldsaga sænska rithöfundarins Fredriks Backman, Maður sem heitir Ove, kom fyrst út 2012 og náði fljótlega miklum vinsældum í heimalandi höfundar og miklu víðar. Á íslensku kom hún út strax árið eftir í þýðingu Jóns Daníelssonar og var prentuð sex sinnum á innan við ári. Einleikurinn eftir skáldsögunni sem var frumsýndur í kvöld í Kassa Þjóðleikhússins er eftir Marie Persson Hedenius, Johan Rheborg og Emmu Bucht og Jón Daníelsson þýðir hana líka. Bjarni Haukur Þórsson leikstýrir Sigurði Sigurjónssyni hér eins og nokkrum sinnum áður og með prýðilegum árangri.
Vinsældir verksins komu ekki síst til af því að þarna fannst lesendum kominn sjálfur Stór-Svíinn, afar reglufastur maður sem hefur akkúrat enga þolinmæði eða umburðarlyndi með þeim sem fara ekki eftir reglunum, aka inn botnlangann þó að skiltið segi skýrt og greinilega að þar megi EKKI aka, flokki vitlaust í ruslatunnurnar, geymi hjól þar sem harðbannað er að geyma hjól og svo framvegis. Hann ekur Saab og hefur megnustu skömm á öðrum bílategundum og sýnir öðru fólki helst ekki annað en kulda og yfirlæti. Það er erfitt í byrjun að hugsa sér að maður muni þola heilt kvöld með svona manni og engum öðrum á sviðinu. En svo flytur fjölskylda með ung börn og eitt á leiðinni í næsta hús og þó að fyrstu kynni þeirra og Ove séu einkar óheppileg – þau eyðileggja póstkassann hans með því að keyra á hann – þá fer svo að skurnin fer að smáspringa utan af karlinum.
Persónan er í sjálfu sér kunnugleg en yfirleitt er hún aukapersóna sem aðalsöguhetjan þarf að sjarmera og „lækna“ af geðillskunni – ég minnist með ánægju Johns Pendelton í sögunni góðu um Pollýönnu. Hér er hún aðalpersóna og fær allt annað vægi. Hlutverkið er eins og sniðið fyrir Sigurð og hann fer með það af tilgerðarlausu öryggi, ýkir ekki þurshátt Ove, fer varlega með tilfinningasemina, beitir aldrei þeim brögðum sem hann á svo auðvelt með til að koma fólki til að hlæja. Hláturinn spratt eingöngu af meinfyndni textans og snilld Sigurðar að segja setningar þannig að þær njóta sín til fulls og orki í senn skoplegar og átakanlegar. Í rauninni minnti túlkun Sigurðar meira á leik hans í kvikmyndinni Hrútum en nokkurt sviðshlutverk sem ég man eftir. Raunaleg forsaga mannsins Ove og fjölskyldu hans kom smám saman fram og hjálpaði okkur bæði til að skilja hvernig hann er og hvers vegna nýja fjölskyldan í næsta húsi hefur þau áhrif á hann sem hún hefur.
Finnur Arnar Arnarson gerir leikmynd og sér um búninga en fyrir utan bakvegg og sjálfspilandi píanó er afar lítill sviðsbúnaður. Furðulega fátt var til að hjálpa Sigurði að muna textann sinn – sem hann flytur alveg samfellt, aleinn, í talsvert á annan klukkutíma. Mér sýndist aðallega ljósin hans Magnúsar Arnars Sigurðarsonar vera notuð til að minna Sigurð á upphafið á nýjum kafla í frásögninni, og var þeim þó beitt hóflega.
Ekki þarf að efa að landsmenn munu þyrpast á þessa sýningu, það sýndu viðtökurnar á frumsýningu vel, enda leikarinn þjóðargersemi.