Lókal-hátíðin er hafin og við drifum okkur á tvær sýningar í gær, báðar hjá Áhugaleikhúsi atvinnumanna í Borgarleikhúsinu. Við höfum af einhverjum undarlegum ástæðum misst af þessum góða hópi fram að þessu þó að hann hafi starfað síðan 2005 og sett upp fjölmargar sýningar. Það er nokkuð sérstætt við hópinn að hann býður öllum á sýningar sínar en á móti kemur að hann tekur ekki við pöntunum þannig að það er eins gott að koma tímanlega til að vera viss um sæti.
Við sáum fyrst frumsýningu á nýjasta verki hópsins, Ódauðlegt verk um ást og ástleysi. Eins og boðað hafði verið í viðtölum tók hópur barna á móti gestum, hvert barn fór með sinn gest afsíðis og spurði hann nokkurra mikilvægra spurninga um ástina. Ekki skráðu börnin svörin hjá sér þannig að þetta virtist aðallega gert til að koma gestinum í rétt hugarástand fyrir sýninguna. Það tókst prýðilega í mínu tilviki, ég hugsaði djúpt um fornar og nýjar ástir og hafði gaman af að velja mér stein sem samsvaraði stærstu ástarsorginni og fjaðrir handa þeim sem mér þykir vænst um.
Gestir voru margir og því tók langan tíma að koma öllum í þetta æskilega hugarástand. Við sem komum fyrst horfðum lengi á þá sem seinna komu leggja steininn sinn á mitt gólf Litla sviðsins og kveðja sorgina þar með. Að því loknu steig Steinunn Knútsdóttir leikstjóri fram og las búta úr fjölmörgum ástarbréfum sem hópnum höfðu áskotnast. Þessir bútar voru vel valdir, margar fallega orðaðar innilegar setningar og (ekki eins margar) áhrifaríkar átakanlegar setningar um höfnun og sorg. Steinunn gerði þetta vel en maður velti óneitanlega fyrir sér hvers vegna hún nýtti sér ekki sinn fjölmenna leikarahóp sem var þarna á staðnum – skipti setningunum milli tveggja, karls og konu, til dæmis, eða lét þær hljóma úr óvæntum áttum í salnum.
En Steinunn ætlaði hópnum annað hlutverk. Í seinasta hluta sýningarinnar vörpuðu þau spurningum hvert á annað og freistuðu þess að skilgreina ást og ástleysi. Enginn kom þó með frábæra skilgreiningu sem ég las í Ástarsögu Íslendinga eftir Gunnar Karlsson og hann hefur eftir ameríska sálfræðingnum Robert Sternberg: Góð ást er jafnarma þríhyrningur sem helst jafnarma af þremur jafnsterkum öflum, ástríðu, umhyggju og skuldbindingu. Um leið og einhver þáttur verður of sterkur skekkist þríhyrningurinn og ástin afbakast.
Þetta var skemmtileg leikhúsreynsla og lokahnykkur Orra Hugins Ágústssonar óvæntur og snjall. En ennþá skemmtilegri leiksýning þótti mér sú seinni, Ódauðlegt verk um stjórn og stjórnleysi sem er sömuleiðis eftir Steinunni leikstjóra og hópinn og var frumsýnt 2005. Hér er okkur sýnt með mörgum dæmum hvernig við látum stjórna okkur og hvernig við stjórnum öðrum – með frekju, yfirgangi, lævísi, kæruleysi, óþolinmæði, vinsemd …
Árni Pétur Guðjónsson reynir að segja gestum skemmtilega og/eða lærdómsríka sögu (við fengum aldrei botn í hvort var) úr lífi sínu en er í sífellu truflaður af afskiptasömum félögum sem vilja ráða hvar hann stendur við flutninginn, spyrja nánar út í söguna eða gera athugasemdir við hana. Þetta var bráðfyndið og sömuleiðis atriði þar sem hópurinn reynir að mynda samband með Árna Pétri og Arndísi Hrönn Egilsdóttur án þess að þau taki þátt í því af tilfinningu. En sé maðurinn kúgaður af stjórnsömu umhverfi endar það með því að hann fær nóg. Sá endir getur verið margíslegur en hér var hann harmrænn eins og var túlkað á myndrænan hátt af feðginunum Árna Pétri og Aðalbjörgu Árnadóttur.
Hópurinn sýnir líka hin ódauðlegu verkin þrjú á Lókal, Ódauðlegt verk um samhengi hlutanna, Ódauðlegt verk um stríð og frið og Ódauðlegt verk um draum og veruleika.