Félagsheimili Seltjarnarness, vettvangur leiksýningarinnar Ég og minn bipolar bróðir eftir Tómas Gauta Jóhannsson, er furðu lítið notað undir slíkar menningarlegar uppákomur. Þetta er háklassískt félagsheimili, eins og þau sem voru byggð um allt land á mínum yngri árum, og alltof gott hús til að nota eingöngu undir afmælisveislur og þorrablót. Það fór ágætlega um fullan sal af leikhúsgestum þar í gærkvöldi því þótt engin upphækkun sé í salnum er sviðið nógu hátt til að allir sjái – nema þegar leikararnir lögðust endilangir á gólfið. Seltirningar skulda leikhúsáhugamönnum húsnæði síðan Norðurpólnum var lokað, gáið að því!
Jakob (Tómas Gauti Jóhannsson) og Pétur (Gissur Ari Kristinsson) eru eineggja tvíburar. Það þýðir að þeir eru eiginlega sama manneskjan enda fylgjast þeir að í þroska lengi vel. Á unglingsárunum gerist þó hið óvænta að Jakob fer að sýna einkenni geðhvarfasýki en Pétur heldur áfram að vera eins og hann er vanur. Fyrsta merkið um á hvaða leið Jakob er fáum við þegar hann fær þá gölnu hugmynd í 9. bekk að synda upp á Snæfellsnes og gerir sér algerlega óraunhæfar hugmyndir um hvað það er langt sund – og hvað sjórinn er kaldur. Þetta var sterkt atriði, í senn harmþrungið og fyndið eins og verkið var raunar í heild.
Geðríki Jakobs veldur Pétri miklu hugarangri og þjáningu og maður getur ímyndað sér að aðrir aðstandendur bræðranna þjáist líka þótt við sjáum þá ekki á sviðinu. Við hlustum á samtöl bræðranna, fylgjumst með því hvernig Jakob skrúfar sig upp í æsing með ýkjum og jafnvel ímyndunum og lygum meðan Pétur reynir að halda aftur af honum, draga hann niður á jörðina þegar hann er kominn langt upp í skýin og leiðrétta hann þegar ímyndanirnar taka við. Yfirleitt hefur það ósköp lítið að segja.
Leikritið er eftir Tómas Gauta og hann fór vel með orðaflauminn sem streymdi út úr Jakobi. Stundum hefði mátt taka betur utan um orðin af því að textinn er vel hugsaður og brýnt að hann komist vel til skila, en auðvitað þurfti hann líka að streyma svolítið tryllt fram. Gissur Ari var verulega góð andstæða við æsinginn, stilltur, svolítið þungur stundum frammi fyrir þessum látum og gat orðið sár en alltaf skynsamur. Það varð smám saman áberandi að við sáum Jakob fyrst og fremst í geðhæð, það gefur auðvitað mun meiri skemmtun á sviði en þunglyndið, en til að verkið uppfyllti væntingar titilsins, bipolar, hefðum við þurft eins og einn átakanlegan niðurtúr.
Níels Thibaud Girerd stýrði verkinu og hannaði umgjörðina, hvort tveggja fórst honum vel úr hendi en ég var ósátt við búningana. Og var það aðeins til að hjálpa leikurunum að muna textann sem þeir voru sífellt að klæða sig úr og í?