Vorið vaknarHerranótt Menntaskólans í Reykjavík setur nú upp leiksýningu í 170. sinn. Þau völdu 125 ára gamalt leikverk, Vorið vaknar eftir Frank Wedekind, þó ekki upprunalega leikritið heldur rokksöngleik sem Duncan Sheik og Steven Sater sömdu upp úr því á ensku laust fyrir aldamótin 2000. Tónlistin er kraftmikil og skemmtileg og flytur þetta tímalausa efni áreynslulaust til unglinga samtímans. Á sviðinu í Gamla bíó – sem ekki er sérstaklega stórt – er sjö manna hljómsveit, tuttugu leikarar og fimm dansarar. Þó var ekki annað að sjá en Stefán Hallur Stefánsson leikstjóri kæmi öllum vel fyrir – og það þó að fólk stæði ekki beinlínis kyrrt.

Efni verksins smellpassar við leikarahópinn því Vorið vaknar fjallar um margslunginn vanda unglingsáranna, vaknandi kynhvöt og óvissa kynáttun, angist fáfræðinnar, kvíða fyrir framtíðinni, kúgun kennara, stríðni, einelti, ofbeldi. Við kynnumst fyrst Wendlu Bergmann (Rakel Björk Björnsdóttir), forvitinni, fjörmikilli stúlku. Móðir hennar (Telma Jóhannesdóttir) verður miður sín þegar Wendla segist ekki trúa lengur sögunni um storkinn og reynir svo að segja stúlkunni hvernig börnin verði til, en sú „fræðsla“ verður til ills eins. Wendla hrífst af Melchior Gabor (Þórður Atlason) sem er sjálfstæður og uppréttur drengur sem ver félaga sinn Moritz Stiefel (Árni Beinteinn Árnason) fyrir ofbeldi kennara en röggsemi hans og greind nægir ekki til að vel fari fyrir honum. Og Moritz kiknar að lokum undan ósanngjörnum kröfum bæði heima og í skólanum. Það sem Wedekind er að segja með sínu merkilega verki er að samfélagið þoli ekki sjálfstæða hugsun (og jafnvel ekki ungt fólki með sína skapandi óvissu) og því miður á verkið ennþá erindi.

Sýningin er ákaflega falleg, fjörug og hugmyndarík þó að efnið sé sorglegt. Búningar og útlitshönnun Kristínu R. Berman leggur áherslu á léttleika enda er allt á hreyfingu á sviðinu allan tímann. Fáir sviðsmunir eru notaðir, í staðinn búa Stefán Hallur og danshöfundarnir Þórey Birgisdóttir og Brynhildur Karlsdóttir til það sem þarf með líkömum leikaranna. Brúin, stefnumótastaður ungmennanna, er listaverk úr mannslíkömum og skógurinn þeirra er beinlínis töfrandi. Í einu atriði er byggð kirkja úr leikarahópnum. Stundum speglar hópurinn geðshræringar talandi aðalpersóna með taktföstum hreyfingum sínum eða uppstillingum á ótrúlega áhrifamikinn hátt. Þetta er listilega vel gert.

Tónlistin hljómar vel undir stjórn Halls Ingólfssonar og krakkarnir syngja eins og fagmenn. Leikurinn er líka hnökralaus, bæði hjá þeim sem eru í stórum hlutverkum og hinum sem eru meiri svipmyndir eða kómísk innskot. Benedikt og Halldór Karlssynir voru til dæmis óhugnanlegir fóstureyðar, Margrét Andrésdóttir var voðinn sjálfur í hlutverki frau Sonnenstich og Stefán Gunnlaugur Jónsson var ýmist ógnvekjandi eða aumkunarverður í hlutverki föður Moritz. Látbragðsleikur er afar skemmtilega notaður, til dæmis í upphafssamtali mæðgnanna og þó einkum í atriðinu þar sem Wendla biður Melchior að slá sig af því að hún veit ekki hvernig það er að finna verulega til.

Þýðingin er eftir Auðrúnu Aðalsteinsdóttur og Emilíu Baldursdóttur; hún er betri á prósa en söngtextum sem eru satt að segja óþægilegir aflestrar fyrir fullorðna ljóðaunnendur (þeir eru birtir í efnismikilli og ágætri leikskrá). Samt er ég svo fegin að þau skuli syngja á íslensku að ég ætla ekkert að kvarta. Það hefði eyðilagt stemninguna gersamlega að syngja á ensku en tala á íslensku.

Þetta er fantafín sýning og öllum aðstandendum til sóma.

Silja Aðalsteinsdóttir