Útför – saga ambáttar og skattsvikaraTveir ungir leikarar sem saman kalla sig Vandræðaskáld sýndu í gærkvöldi í Tjarnarbíó frumsamið leikverk með söngvum (sem einnig voru frumsamdir, bæði lög og ljóð) sem þau kalla Útför – saga ambáttar og skattsvikara. Þetta voru Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur B. Bragason, bæði menntuð í leiklist í Englandi, og nafnið á stykkinu útskýra þau svona í leikskrá: „Útför vísar í senn til þess að halda út í víking og freista gæfunnar og að fylgja einhverju til grafar, eins og sakleysinu eða sínu fyrra sjálfi.“

Eins og lesa má út úr þessari skýringu eru þau Sesselía og Vilhjálmur að rannsaka Ísland og Íslendinga fyrir og eftir hrun. Skýringin á seinni hluta titilsins kemur fram í upphafi leiks: þau skipta Íslendingum í tvennt. Annars vegar eru afkomendur skattsvikaranna sem stungu af frá Noregi í árdaga af því þeir þoldu ekki skattheimtu Haralds hárfagra, þetta eru hinir eilíflega bjartsýnu, glæfralega framkvæmdasömu menn sem stundum hafa komið okkur í koll. Hins vegar eru ambáttirnar, afkomendur þrælanna sem víkingarnir/ skattsvikararnir höfðu með sér frá Bretlandseyjum, beygða úrtölufólkið, þeir sem kvarta á samfélagsmiðlum en gera aldrei neitt afgerandi í sínum málum, tuða bara. Mér fannst þetta ansi snjöll hugmynd og umhugsunarverð og mun taka þessa flokkun upp fyrir mitt leyti þótt kannski séu menjarnar um þennan ólíka uppruna ekki eins skýrar og eindregnar og þau vilja vera láta í fyrstu. Í sýningunni var Vilhjálmur frekar í hlutverki skattsvikaranna, glaðbeittur, raddsterkur og hress. Sesselía var ambáttin, dálítið niðurlút, jafnvel svartsýn og þunglynd á köflum en reis úr öskunni á milli.

Í sýningunni taka þau til meðferðar í töluðu máli og söngvum þjóðarsögu og samtíð og þar er flest nokkuð kunnuglegt en margt bráðvel gert. Einna helst mega þau passa sig á að tala ekki of hratt því helst þurfa áheyrendur að heyra textann almennilega. Þau rekja hörmungarnar sem gengið hafa yfir þjóðina, eldgos og hungursneyðir, Tyrkjarán og mannskæðar pestir, líka lélega pólitík sem ekkert skánar með tímanum, en niðurstaða þeirra er að við höfum lifað þetta af og munum líklega halda því áfram þrátt fyrir landflótta og ferðamannafár. Þau prófa líka að hafna landi og þjóð fyrir eitthvað skárra annars staðar – eru þá aðallega með England í huga eftir námsdvölina þar – en einnig þar verður niðurstaðan að þau myndu líklega sakna allt of margs ef þau færu burt alfarin. Undir söngvana leika þau á gítar (Sesselía) og hljómborð (Vilhjálmur) og bragirnir eru skemmtilegir og oft verulega hnyttnir. Þessu unga fólki er greinilega margt til lista lagt.

Silja Aðalsteinsdóttir