Kristín Helga Gunnarsdóttir. Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels.

Mál og menning 2017. 235 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2018

Vertu ósýnilegur – Flóttasaga IshmaelsÉg hef verið spurð að því nokkrum sinnum hvort innflytjendur hafi skrifað áhugaverðar barna- og unglingabókmenntir á Íslandi? Eða hvort hér hafi verið skrifaðar áhugaverðar bækur fyrir
börn þar sem innflytjendur séu í aðalhlutverki eða komi fyrir sem aukapersónur?

Fyrir nokkrum árum vafðist mér tunga um höfuð við svona spurningar, bækur þar sem börn af erlendum uppruna komu við sögu voru teljandi á fingrum annarrar handar og enginn innflytjandi hafði skrifað barnabók, að mér vitandi. Þær barna- og unglingabækur sem ég vissi um þá voru þessar: Öðruvísi fjölskylda og framhaldsbækur hennar eftir Guðrúnu Helgadóttur (2002–2006), Drekastappan (2000) og Draugasúpan (2002) eftir Sigrúnu Eldjárn og Tíu litlir kenjakrakkar eftir Sigrúnu og Þórarin Eldjárn (2016), Kleinur og karrý (1999) og Hetjur (2010) eftir Kristínu Steinsdóttur, sú síðarnefnda segir frá íslenskum dreng sem verður innflytjandi í Þrándheimi í Noregi, Galdra-Dísa (2017) eftir Gunnar Theodór Eggertsson, Maðurinn sem hataði börn (2014) eftir Þórarin Leifsson og Með heiminn í vasanum (2011) eftir Margréti Örnólfsdóttur.

Hægt og bítandi er þetta að breytast. Og má ekki seinna vera því að innflytjendum fer fjölgandi á Íslandi, sem betur fer. Íslenska samfélagið hefur hins vegar ekki verið að flýta sér að bregðast við því. Það er enginn sómi að því hve lítill kvóti flóttamanna er og þótt vel sé tekið á móti þeim útvöldu er ekki nógu vel tekið á móti hælisleitendum og atvinnuleitendum eins og allir vita. Skólakerfið hefur sömuleiðis verið mjög illa búið undir að taka á móti börnum af erlendum uppruna eins og lesa má í nýútkominni rannsókn, Íslenskukennsla í grunn- og framhaldsskólum (2018).

Flóttabörn

Samkvæmt upplýsingum UNICEF fyrir tveimur árum höfðu 580.000 börn sótt um hæli sem flóttamenn í Evrópu, 90% af þeim höfðu komið til Evrópu fyrir tilstilli smyglara.

Helmingur flóttabarnanna kom frá Sýrlandi, Írak og Afganistan þar sem stríð geisa og almenningur flýr ofbeldi og dauða. Hundrað þúsund börn voru ein á ferð og þau verða auðveld bráð fyrir smyglarana og aðra hrægamma sem taka peninga þeirra og eigur og selja þau svo eða gera þau út í vændi eða glæpastarfsemi. Flóttamannasmygl er gróðavegur því smyglararnir velta milli 40–50 milljörðum norskra króna á ári að því er talið er.[1]

Ég sá á dögunum sjónvarpsviðtal við einn smyglarann sem sagði að hann fyndi ekki til minnsta samviskubits yfir því sem hann gerði – þegar hann sæi lítið barn sæi hann peninga. Öllu góðu fólki ofbýður grimmd þessara manna en það breytir ekki miklu fyrir börnin. Góða fólkið er fljótt að gleyma ef ekki myndast varanlegri tengsl við það sem er að gerast.

Fjölmenningarbókmenntir

Töluvert hefur verið skrifað í barnabókmenntafræðum um fjölþjóðlegar barna- og unglingabækur en hvað rúmast í þeirri formdeild? Mingshui Cai, prófessor í menntunarfræðum í Norður-Iowa, skiptir barna- og unglingabókum um fjölþjóðlegt efni í tvo hópa eftir því hvort vegur þyngra í þeim, bókmenntalegur metnaður eða fræðsluþörf. Fyrri gerðin er innhverf í þeim skilningi að hún talar til fjölmenningarsamfélags sem veit meira eða minna um átökin sem eiga sér stað. Síðari gerðin er úthverf af því að hún talar til samfélags sem er of samsett til að hópar innan þess geti haft þær upplýsingar sem þeir þyrftu til að skilja bakgrunn og átök persóna. Höfundur telur sig þá verða að skýra margt fyrir lesendum til að gera þeim lesturinn auðveldari. Hann getur líka valið hið gagnstæða, látið lesanda hafa eitthvað fyrir lífinu, en aðalatriðið er samt að hann vill ná til lesandans.

Ef aðalpersónan tilheyrir menningarlegum minnihluta sem stendur höllum fæti í samfélaginu þarf hún oft að kljást við fáfræði, fordóma og jafnvel andúð meirihlutans. Í þeim skilningi eru allar fjölþjóðlegar barna- og unglingabækur í raun kennslufræðilegar segir Cai. [2] Við það má bæta að þær eru líka oftast vandamálamiðaðar, hafa sem markmið að vinna gegn rasisma, reyna að vekja samlíðan lesandans með aðalpersónunni og skilning milli einstaklinga og menningarheilda. Það er verkefni góðs höfundar að finna jafnvægið þarna á milli.

Og þá kemur upp annað vandamál. Hver gefur höfundi umboð til að gera sig að talsmanni þaggaðs minnihlutahóps, sem hann ekki tilheyrir ekki (lengur)? Þetta getur orðið gríðarlegt hitamál, ekki síst í samhengi síðlendufræða, þaðan sem þessi spurning er sprottin. Amerísk-indverski fræðimaðurinn Gayatri Spivak opnaði hina fræðilegu umræðu með greininni „Can the subaltern speak?“ (1983) þar sem hún bendir á að þeir sem verst eru settir í indverska stéttasamfélaginu séu þaggaðir en fái einhverjir úr þeirra röðum rödd og tækifæri til að berjast fyrir rétti sínum séu þeir ekki lengur hluti hins þaggaða hóps. Um þetta fjallar Sólveig Ásta Sigurðardóttir meðal annars í meistaraprófsritgerð sinni: „Landvistarleyfi í bókmenntaheiminum. Birtingarmyndir innflytjenda í íslenskum samtímaskáldsögum“
(2015).

Á flótta

Kristín Helga Gunnarsdóttir ræðst sem sagt á garðinn þar sem hann er hæstur með skáldsögunni Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels (2017). Þar er sögð saga fimmtán ára drengs frá Aleppó sem tekst að flýja Sýrland og komast til Íslands á fölsuðu vegabréfi. Von hans er að geta sameinast vinum og fyrrverandi nágrönnum sem hafa fengið hæli á Íslandi. Hann er tekinn fastur á flugvellinum í Keflavík, fær að sameinast vinum sínum í bili en við vitum ekki hvað um hann verður í bókarlok. Það veltur á tannlækninum sem á að skera úr um það hvort hann er barn eða fullorðinn.

Drengurinn heitir Ishmael og flóttasaga hans hefst á því að húsið hans í Aleppó er sprengt í loft upp, hann býr á þriðju hæð og kemur til meðvitundar handleggsbrotinn í rústunum. Afi hans er eini fjölskyldumeðlimurinn sem lifað hefur af fyrir utan hann sjálfan, faðirinn hefur nokkru áður verið fjarlægður af útsendurum herstjórnarinnar og móðirin ferst í sprengjuárásinni ásamt yngri systur Ishmaels.

Fjölskyldan er menntað og vel stætt millistéttarfólk í einhverri fallegustu borg Sýrlands og æska Ishmaels hefur verið örugg og góð. Kristín Helga notar oft endurlit til að draga upp mynd af bakgrunni hans. Mestur hluti bókarinnar fer þó í að lýsa flótta afans, Ishmaels og Victors, vinar þeirra, frá Sýrlandi. Leiðin liggur til Jórdaníu, þaðan til Súdan og síðan til Egyptalands. Frá Egyptalandi fara þeir á bátum yfir til Ítalíu og bjargast naumlega. Alls staðar á langri leið þeirra liggja grimmir mannræningjar, þjófar og nauðgarar í launsátri og mannvonskan er yfirgengileg þó að gott fólk verði líka til að hjálpa þeim félögum. Verst er samt ferðin yfir Miðjarðarhafið og lesandi gleymir lýsingunni á henni ekki í bráð og lengd. Þar ferst afinn, fellur fyrir borð og með honum ferðasjóður Ishmaels.

Eftir þetta áfall eru Ishmael og Victor eins og veiðidýr, stöðugt á varðbergi og hræddir við yfirvöld, enda réttlausir og upp á aðra komnir uns þeir komast í skjól í smábæ í Þýskalandi, þangað sem för Victors er heitið. En Ishmael er ekki kominn heim, hann þráir vini sína frá Aleppó, stóru og hlýju fjölskylduna sem líka flúði Sýrland en er horfin. Í ljós kemur að hún hefur fengið hæli á Íslandi og þar fer fram hliðarsaga sem er fléttuð inn í flóttasögu Ishmaels uns sögurnar mætast í lokin.

Noor og fjölskylda hennar

Fjölskyldan sem Ishmael leitar og finnur hefur búið á hæðinni fyrir neðan hann í Aleppó. Þau voru nánir fjölskylduvinir og hann hefur alist upp með yngstu dótturinni, Salí. Það er gælunafn hennar, raunverulega heitir hún Salma, sem hún hefur nú aðlagað að íslensku og kallar sig Selmu. Eldri systir hennar heitir Lína og bróðir hennar Aron. Móðirin, Noor, neitar að læra íslensku, fer ekki út fyrir hússins dyr og horfir stöðugt á sjónvarpsstöðina Al Jazeera til að halda tengslunum við Sýrland opnum og lifandi. Hún aðlagast ekki.

Börnin hafa hins vegar aðlagast íslenska samfélaginu ótrúlega hratt, eru komin í vinnu og skóla og tala tungumálið, þau eldri komin með íslenska kærasta/kærustu sem þau segja mömmunni ekki frá, frekar en öðrum nýjum draumum. Hin hraða aðlögun þeirra er ekki dæmigerð fyrir innflytjendur á Íslandi ef marka má sögur úr skólakerfinu en Noor og börn hennar eru í hinum fámenna hópi hælisleitenda sem fengið hafa góða fyrirgreiðslu og sinnu. Þau varpa sem því nemur jákvæðu ljósi á Ísland og Íslendinga. Annað er hlutskipti Kamillu, bestu vinkonu Selmu og skólasystur sem er lögð í einelti af rasískum skólasystrum þeirra. Kamilla er hvorki herská né sjálfstæð eins og Salí sem tekur til varnar með hjálp vina sinna og lætur ofsækjendurna fá makleg málagjöld.

Vertu sýnilegur

Kristín Helga Gunnarsdóttir byggði bókina Vertu ósýnilegur á gífurlega mikilli heimildavinnu, meðal annars viðtölum við sýrlenskt flóttafólk á Íslandi. Ég veit ekki hvort það fólk hefur lesið bókina eða hvernig því líkaði hún. Það getur verið allur gangur á því hvernig innflytjendur upplifa myndina af sér í bókmenntum eins og sjá má á ritgerð Cinthiu Trililani um staðalmyndir af asískum konum í bókmenntum. Hún segir að í fjölmiðlum, bókmenntum og kvikmyndum sé oftast fjallað um þær í tengslum við vændi, láglaunastörf og misnotkun auk þess sem ekki séu allar konur af asískum uppruna á Íslandi póstlistabrúðir. Hún nefnir dæmi um að dregin er upp mynd af ómenntuðum og jafnvel fáfróðum konum, og sú mynd er látin ná yfir allar asískar konur á Íslandi. Jafnvel þó höfundar séu vel meinandi og gagnrýnir geta þeir þannig endurskapað þá fordóma sem þeir vilja mótmæla og það getur verið niðurlægjandi fyrir sterkar og sjálfstæðar asískar konur á Íslandi.[3]

Vertu ósýnilegur er ráðið sem afinn gamli gefur Ishmael til að lifa af á flóttanum og í þeirri baráttu sem fram undan er. En innflytjendur mega ekki vera ósýnilegir – reynsla þeirra verður að koma upp á yfirborðið og meira en það. Ef menn vilja vitundarvakningu um fjölbreytileika og fjölmenningu er það til alls fyrst að gera innflytjendur sýnilega. Bók Kristínar er lóð á þá vogarskál. Hún er hugrökk bók sem opnar umræðu sem aðrir höfundar gætu fylgt eftir og ég vona innilega að kennarar vilji nota bókina til að ræða flóttamannavandann og móttöku innflytjenda á Íslandi við nemendur sína. Það þarf að byggja upp skilning og virðingu milli hópa ef við viljum að sambýlið verði farsælt.

Dagný Kristjánsdóttir

Heimildir:

  • Tone Birkeland. Med vidåpen dør til forståelse av den flerkulturelle barne- og ungdomslitteraturen, Barnelitterært Forskningstidsskrift, 8:1, 2017.
  • Mingshui Cai. Multicultural literature for children and young adults. Reflections on critical issues. S.l.: Information Age Publishing, 2006.
  • Bodil Kampp. Mellom to kulturer. Flyktninger og innvandrere i tidens ungdomslitteratur.
  • Anne Mørch Hanson og Jana Pohl (red). Børne- og ungdomslitteratur i tiden. Om dansk børne og ungdomsbøger i 2000’erne. København: Høst og søn, 2006.
  • Kristín Helga Gunnarsdóttir. Vertu ósýnilegur. Flóttasaga Ishmaels. Reykjavík: Mál og menning, 2017.
  • Lise Iversen Kulbrandstad. Hvilke bilde gir norsk barn og ungdomslitteratur av innvandrere som språkbrukere. Norsklæreren, 2, 1997.
  • Sólveig Ásta Sigurðardóttir. „Landvistarleyfi í bókmenntaheiminum. Birtingarmyndir innflytjenda í íslenskum samtímaskáldsögum“ (2015). Sótt 1.10.2018. Vefslóð: https://skemman.is/handle/1946/21030.
  • Spivak, Gayatri C. Can the Subaltern Speak? In other worlds. Essays in cultural politics. New York and London: Methuen, 1987.
  • Cynthia Trililani. Staðalímyndir asískra kvenna á Íslandi og endurspeglun þeirra í bókmenntum og kvikmynd“. Ritgerð til BA prófs (2009). Sótt 1.október 2018. Vefslóð: http://hdl.handle.net/1946/4036.

Tilvísanir

  1. Unicef Norge. Skrifað 9. 2. 2016, sótt 30. 9. 2018 á slóð: https://www.unicef.no/nyheter/21482/en-halv-million-barn-utnyttes-avmenneskesmuglere.
  2. Mingshui Cai. Multicultural Literature for Children and Young Adults, bls. 5.
  3. Chynthia Trililani, Ritgerð til BA prófs. 2009.