Pétur Gunnarsson. Skriftir – örlagagletta.

JPV útgáfa, 2016.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2017

Eiginlega er það nú regla hjá mér að sýna aldrei neinum inn á verkstæðið hjá mér. Það er alkemistinn í mér sjáðu til. En ég hlýt að gera undantekningu með þig.
Þórarinn Eldjárn, Maðurinn er það sem hann væri

Skriftir: Pétur GunnarssonI

Af einhverjum ástæðum hefur það lengi verið litið hornauga, í það minnsta í fræðaheiminum, að skoða skáldskap í ljósi höfundanna. Að leita vísbendinga um merkingu og listrænt gildi verkanna í atvikum og þráðum í lífshlaupi skáldanna. Stundum sjást ummæli þar sem þessi „aðferð“ er afgreidd svo snubbótt og hryssingslega að helst megi líkja henni við að reykja í fjölskyldubílnum eða hrækja á gólfið. Eitthvað sem einu sinni var landlægt og sjálfsagt, en hafi nú góðu heilli verið útrýmt, enda augljóslega óhollt og ekki við hæfi.

Samt gerum við þetta öll. Byggjum kannski ekki virðulegar greiningarritgerðir á hugleiðingum og grúski í fortíð og umhverfi höfundanna, allavega ekki eingöngu. En flestum okkar er lífsins ómögulegt að ýta þessum hugsunum algerlega frá okkur við skáldskaparlestur. Ég tala nú ekki um á þessum síðustu og „verstu“ tímum þar sem úrvinnsla eigin lífsreynslu er orðin miðlæg – og opinber – í verkum virtustu höfunda.

Umræða um allan þann „sjálfsskáldskap“ er á frumstigi, nema mögulega í harðkjarna fræðanna. Gengur að mestu út á að horfa á „trend“, á breiða strauminn í þessa átt. Fyrir vikið eru jafn grunnólík verk og Útlagi Jóns Gnarr, Sjóveikur í München eftir Hallgrím Helgason og Stúlku-bækur Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur skoðaðar sem flokkur, einblínt á líkindin á kostnað þess að virða fyrir sér efni og úrvinnsluleiðir hvers og eins.

Skriftir Péturs Gunnarssonar gætu auðveldlega sogast inn í þennan flaum. Sem væru kaldhæðnisleg örlög í ljósi þess hvernig yfirborðskenndir merkimiðar hafa löngum þvælst fyrir upplifun verka hans, og mótað viðtökur þeirra. Strákabækur „fyndnu kynslóðarinnar“ hafa á köflum verið afgreiddar sem ómarktækt léttmeti. Og sjálfhverft auðvitað. Kannski hefðu þeir Pétur og Einar Már átt að slengja fram tuggunni „You Ain’t Seen Nothing Yet“ á helstu aðfinnsluraddirnar. Svona í ljósi þess hvernig fór og hvert straumurinn liggur í dag í kjölfar Knausgaards og félaga.

II

Bæði nafn og kynningartexti á bókarkápu halda því fram að meginefni og erindi bókarinnar sé uppruni ævistarfsins, að skrifa, verða rithöfundur, vera „rithöfundur in spe“ eins og segir í einu af mörgum leiðarstefjum Skrifta. Það má til sanns vegar færa. Hér fer öðrum þræði fram upprifjun á kringumstæðum, afstöðu, áhrifavöldum í lífi og bókum. Uppgjör Andra, annars höfundar „að vonum“ við Halldór Laxness í Persónum og leikendum er ekki alveg upp úr engu.

Einnig fer hér fram leit í minninu að því sem ekki er lengur aðgengilegt en hlýtur að hafa skipt máli. Hér er ekki mikið um áhrifavalda, aðferðafræði eða vinnubrögð. Þar sem aðrir höfundar eru nefndir er það frekar sem uppáhaldsskáld ástríðufulls lesanda heldur en fyrirmyndir og lærifeður metnaðargjarns höfundar. Þetta er ekki stefnuyfirlýsing. Á einum stað kemur upp úr kafinu skrifleg yfirlýsing um að hinn átta ára Pétur hyggist leggja fyrir sig lögfræði. Nokkuð sem hann hafði reyndar gleymt.

Hvað Pétur man og hvað ekki er ein skemmtileg lesleið fyrir Skriftir. Hér er t.d. mikilvægt mótunarskeið afgreitt nokkuð rösklega:

Ævin byrjar í blakkáti sem varir fimm fyrstu árin. En svo kemur annað blakkát á unglingsárin. Hagaskóli tekur við af Melaskóla, gagnfræðaskóli af barnaskóla. En ég á fátt til að fylla upp í þá mynd. (141)

Pétur er heldur alls ekki bara að fiska í minni sínu. Hann grúskar i pappírum og örugglega á timarit.is, hann sækir fróðleik til frændfólks og jafnvel kanadískir ættfræðingar leggja hönd á plóg.

Eitt man hann þó alltaf:

Hún var á tali við vin minn, Stebba Friðfinns, klædd ljósbrúnni rúskinnskápu… (11)

… geng ég eitt sinn fram á hana þar sem hún er að bíða eftir strætó við skýlið í Lækjargötunni. Hún var í vorlegum frakka … (12)

Í nóvember var Framtíðarballið, annar af aðaldansleikjum skólans, haldinn á Hótel Sögu. Hrafnhildur var í dragsíðum kjól, svörtum. (64)

Ástarsagan hlykkjar sig um bókina eins og nákvæmt auga skáldsins hefur skrásett hana og minnið meðtekið. Fötin og allt. Nema hann sé að búa þetta til. Því neitum við að trúa.

III

Innlit á verkstæði listamanns veitir innsýn í fernt: Verkfæri, vinnubrögð, ætlun og efnivið. Það er óhætt að segja að í Skriftum sé áherslan einarðlega á það síðastnefnda. Af öðrum skrifum Péturs, skáldskap og hugrenningabókum er hægt að gera sér mynd af hvaða tilgangi hann langar að skáldskapur sinn þjóni. Kannski mætti orða það svona: Að skoða samhengi hins hversdagslega og einstaka, stóra og smáa, merkilega og ómerkilega í lífi okkar. Eins og sínus og kósínusbylgjur sem magna hver aðra eða slétta út.

Að því gefnu að þetta sé stóra hugmyndin þá er ljóst að efnisvalið skiptir öllu máli og einstaklega nærtækt að leita í hversdagslífið í kringum sig. Ævisaga slíks höfundar verður sjálfkrafa að lykilbók að höfundarverkinu.

Innan um minningarnar eru þó vangaveltur, jafnvel vinnureglur, gjarnan settar fram í kunnuglegum hálfkæringi:

Rithöfundur in spe þróar snemma með sér afstöðu til lífsins sem er ögn frábrugðin því sem tíðkast. Á meðan aðrir lifa lífinu lifir rithöfundurinn svo að segja á lífinu, lífið er fyrst og fremst yrkisefni (53)

Þessi orð eru kveikjan að stuttum útúrdúr, ef svo mætti segja, sögu af kynnum höfundar við drykkjusjúkan mann sem kom reglulega í sveitina þar sem Pétur var á sumrin í æsku. Löngu síðar hittir Pétur manninn aftur yfir kaffi og sandköku:

Mig tók þetta sárt, ég fann til með honum en um leið fann ég næstum óþægilega hvernig atvikið tók á sig mynd söguefnis. Samlíðan og ritvinnsla í sömu andrá. Þetta var á mörkum þess að vera siðlegt en kom æ oftar fyrir – það sem ég upplifði tók jafnharðan á sig mynd söguefnis. (54)

Við höfum hitt þennan ógæfumann áður. Í Hversdagshöllinni er heill kafli undirlagður af því þegar „Níels bróðir Grétu“ kemur á Þúfu „í afvötnun“.

Og hér eru endurfundirnir endurskapaðir í Persónum og leikendum:

Andri var ekki viss um að Skúli bæri kennsl á hann þótt hann settist við sama borð. Brosti afsakandi og blés í skrumslaðar hendur. Andri náði í kaffi og jólaköku en líkami Skúla virtist hættur að gera ráð fyrir næringu … Köldum Hemmingwayaugum reyndi hann að finna á honum söguflöt. (Persónur og leikendur 39)

Pétur lætur lesendum Skrifta eftir að finna þessum manni stað í skáldverkunum og það sama á við um þau fjölmörgu atriði úr fjölskyldusögunni sem hefur birst í endurskapaðri mynd hér og þar í höfundarverkinu. Fyrir dygga og minnuga lesendur Péturs verður það fljótlega ein helsta nautnin við Skriftir að leita uppi og finna stað öllum þessum atriðum; stórum og smáum, duldum og augljósum. Það má meira að segja vera að þessi leynilögregluleikur villi okkur sýn á hvernig þessi nýja bók stendur ein og óstudd. Mig grunar þó að einmitt þetta: að draga ekki athyglina bókstaflega að því þegar höfundurinn ljóstrar upp um rætur einhvers sem seinna blómstraði í skáldskapnum, geri lestraránægju „óinnvígðra“ álíka mikla og okkar hinna, þó af öðru tagi sé.

Þessi fallega minning um móðurafann stendur til dæmis alveg fyrir sínu hér:

Ég fékk að halda honum selskap í fótabaðinu, því næst lá leiðin inn í stofu, hann dró út efstu skúffuna í skenknum, tók upp brúna vasabók með svörtum kili og færði inn daginn, skipið, tímana og kaupið (Skriftir 187)

En það fer óneitanlega fiðringur um Péturslesandann, hann stekkur að bókahillunni og flettir upp:

Og rétt að hann hafði þrek aflögu til að færa daginn inn í vasabókina: dagsetning, mánuður, vinnuveitandi, vinnustundir, krónur og aurar (Hversdagshöllin 16)

Og:

Þegar Guðjón var búinn að þvo sér og þurrka innvirðulega milli tánna, fór hann inn í stofu, dró fram brúna vasabók með svörtum kili og færði hátíðlega inn guðspjall dagsins: vinnustundirnar, fyrirtækið og aurana (Punktur punktur komma strik 39)

Annað skýrt dæmi er hvernig tilhugalíf Andra og Bylgju í Persónum og leikendum sækir hápunkta í samdrátt Péturs og Hrafnhildar. Báðar virðast stúlkurnar á viðkvæmu augnabliki vera gengnar í björg með íþróttahetjum og viðbrögð hinna skotnu drengja eru þau sömu: að ganga heim og brenna í vaski sama ljóðið:

hrynja á hrímhvít lauf
höfug tár
hangir helfrosinn
hlátur vona
flýgur hinstur fugl
og fipast hvergi
bergir blóð mitt
bitur þrá

Í Skriftum tekur Pétur síðan fram að ljóðið hafi vissulega ekki glatast að eilífu, það „hafi áður birst í Skólablaðinu þar sem bókmenntafræðingar framtíðarinnar gætu gengið að því vísu.“ En ekki orð um endurvinnsluna í þágu hins ástsjúka Andra.

Þetta er ekki allt svona bókstaflegt. Andri er ekki Pétur. Endurómurinn er af ýmsu tagi. Óneitanlega hvarflar hugurinn til dæmis að þessum orðum Bylgju í Persónum og leikendum:

Skilnaður var ekki í myndinni, sagði Bylgja. Á okkar heimilisbarómeti var hvorki til smukt né meget smukt. Foranderligt var skárst. Regn og storm algengast. Maður bara fletti Familie Journal og vonaði að hávaðinn bærist ekki út á götu. (105)

við lestur á þessari lýsingu á fjölskyldulífinu á Öldugötunni:

Amma deyr vorið 1961 (afi fallinn frá átta árum áður). Þá flytjum við úr risinu niður á hæðina. Við það skapast olnbogarými, en líka svigrúm til að rífast, því auðvitað hefur nærvera ömmu sett hljóðkút á hjónaerjur – sem núna fara úr böndunum. Fátt tekur jafn mikið á og rifrildi í næsta herbergi. (135)

IV

Þó Skriftir verði staðföstum Péturslesendum fyrst og fremst uppspretta fjársjóðsleitar af því tagi sem hér hefur verið lýst er bókin alls ekki háð því að vera tekin þeim tökum. Það er klókt af höfundinum að draga aldrei athygli að sambandi hennar við skáldsögurnar, heldur láta þeim sem þær þekkja eftir að leita. Fyrir vikið stendur sagan algerlega fyrir sínu sem ævi- og þroskasaga, mynd af samfélagi og ekki síst fjölskyldu.

Hinn harmræni þráður hennar er óneitanlega faðirinn. Við höfum vissulega séð slíkum mönnum bregða fyrir í skáldskapnum: Faðirinn í Andrabókunum, einkum kannski skrápkarlinn í Sögunni allri, sem fær mannlegan blæ í eftirmælum þar sem fallegt samband hans við barnabörnin er dregið fram, á einhverja drætti sameiginlega með Gunnari V. Péturssyni. En kannski sækir glerslíparinn drykkfelldi og óhamingjusami í Hversdagshöllinni flesta drætti hingað. Jafnvel í bland við Álf, vin afa sögumannsins sem málar ævintýramyndirnar í stigagangi ættarhússins. Því listfengur var Gunnar:

Það lék allt í höndunum á honum. Hann málaði, teiknaði, skar út, gróf í leður, … Pabbi klæddi veggina pappa sem hann litaði á sveitabæ undir fjalli og síðan húsdýrin öll með tölu … (131)

Það er nærfærni í þeim dráttum sem Pétur dregur mynd föður síns. Sérstök blanda af bersögli og hófstillingu. Engum samskiptum eða atvikum lýst þar sem þeir feðgar mætast, en dvalið við starfsferilinn, vinnuaðstæður bílamálarans í skúrnum, og svo hvernig Gunnar kemur syni sínum fyrir sjónir sem yfirmaður á lagernum í Heklu. Óneitanlega þyrstir lesandann í útleggingar eða samhengi stundum:

Árið er 1935, hann er upptendraður af þjóðernissósíalismanum sem var í uppgangi um þessar mundir í heiminum, allir vinir hans ganga í þetta lið í beinu framhaldi af skátunum. (121)

En þrátt fyrir allt birtist Gunnar best í eigin orðum. Í bréfinu sem hann sendir Pétri til að boða komu móðurinnar út til unga parsins sem pakkar sér saman úti í Frakklandi á heimleið:

„Sjáðu til Pétur minn að mamma þín hugsi ekki mikið til mín á meðan hún er hjá ykkur. Það veldur bara trega og tárum, en ef svo skyldi fara, þá láttu hana fá meðfylgjandi blöðru og lofðu henni að blása þrisvar á dag.“ (175)

V

Í lok bókar er Pétur Gunnarsson á þröskuldi þess að slá í gegn. Punkturinn er í prentun og Pétur gengur til vinnu sinnar með leikhópi Þjóðleikhússins og Spilverki Þjóðanna við sköpun Grænjaxla. Leiklistin, sem tekur talsvert pláss í bókinni og er nánast það eina sem hann man úr Hagaskóla, reynist samt vera útúrdúr. List augnabliksins varð ekki fyrir valinu heldur hin sem varðveitir þau:

„Sagt er að ævin líði manni fyrir sjónir á andlátsstundinni, en er það ekki full seint? Má ekki búa svo um hnúta að maður geti heimsótt hana að vild og lifað valin augnablik upp aftur?“ (188)

Þorgeir Tryggvason