Eftir Guðrúnu Nordal

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2016

1

Guðrún NordalÁ sama tíma og ég skrifa þessa hugleiðingu við ysta haf verða til um víða veröld milljónir texta á öllum heimsins tungumálum sem raðast inn á vefinn. Mannkynið hefur aldrei skrifað eins mikið og einmitt nú. Þessi ofgnótt rafrænna texta, sem við tökum öll þátt í að búa til, veldur því að við gefum fortíðinni og textum hennar æ minni gaum. Erum uppteknari af stundlegum vangaveltum samfélagsmiðlanna en því að lesa eldri texta, gamlar bækur frá fyrri öldum, skáldsögur og ljóðabækur frá síðustu öld eða jafnvel síðustu jólum. Fyrir vikið er hætta á því að tengslin við auðlegð og reynslu liðins tíma rofni, og um leið gæti slaknað á viðspyrnunni sem djúpstæður sögulegur skilningur veitir gagnvart vandamálum og áskorunum tuttugustu og fyrstu aldarinnar – þó að við kærum okkur kannski ekki um það.

Þegar ég hugsa um allt það ritaða mál á íslensku sem við eigum í handraðanum, í skjölum, handritum og prentuðum bókum sem fylla heimili og söfn, koma tvær myndir upp í hugann: verða þessir textar lík í lestinni, íþyngjandi yfirvigt á ferðalaginu inn í óþekkta framtíð, eða stórkostleg veisla í farangrinum?1 Verða handritin, skjölin, bækurnar, myndirnar og upptökurnar lagðar í súr og gerður úr þeim ólystilegur súrmatur, eða munum við geta dúkað borð hvenær sem er, safnað fólki saman og notið úrvalsins af gnægtaborði menningarinnar? Getum við áfram á komandi tímum hlustað á raddir aldanna og horft á gamlar myndir okkur til skemmtunar eða höldum við til móts við nýja tíma án veganestis?

Íslenskan er ósýnilegi töfraþráðurinn í íslenskri sögu sem tengir hugsanir frá elstu tíð og vangaveltur okkar sjálfra; sömu orðin enduróma í alls konar samhengi, um leið og málið endurnýjar sig sífellt. Vissulega hefur íslenskan breyst á þeim ellefu öldum sem liðnar eru frá landnámi. Við myndum ekki skilja hjónin Ingólf Arnarson og Hallveigu Fróðadóttur ef við mættum þeim á skemmtigöngu í Aðalstrætinu. Sérhljóðin hafa breyst svo mikið að torvelt væri að fanga orðin af munni þeirra, sem mörg geyma líka aðra merkingu en á landnámstíma. Þegar Ísland var að byggjast heyrðust örugglega fleiri tungumál en sú eina tunga sem var færð á letur á tólftu öld, því að landnámsmennirnir komu víða að – meirihluti kvenna upprunninn á Bretlandseyjum. En ein samræmd tunga, móðurmál þeirra sem mestu réðu og komu úr Noregi, varð ofaná með tökuorðum úr írsku, latínu og öðrum málum. Strax frá elstu kennslubókinni í íslensku, Fyrstu málfræðiritgerðinni, þar sem málinu var sett stafróf, hefur verið ótrúleg samfella í íslensku ritmáli, þannig að nútímamaður læs á íslensku getur notið Njálu án þess að lesa hana í þýðingu. Jafnvel þó að margt í þeirri bók fari fyrir ofan garð og neðan hjá ungum lesanda í dag, stöku orðalag eða vísanir í siði, reglur og látbragð sem tilheyra öðrum tíma, þá er sagan sjálf, mannlýsingar og samtöl, enn ljóslifandi. Slíkt samhengi er fágætt í veröldinni en þó ekki einstætt. Í Íran er samskonar áreynslulítil tenging við horfna gullöld. Miðaldaskáldin Saadi og Hafez eru samtímaskáld Snorra og Eysteins á þrettándu og fjórtándu öld, elskuð þjóðskáld Persa og kveða milliliðalaust inn í okkar samtíma. Engra þýðinga er þörf. Í borginni Syraz er heillandi að sjá margmenni hvern dag við grafhvelfingar þeirra og á sama hátt ætti Snorri að draga fjöldann heim í Reykholt.

Þetta samband við fortíðina er ómetanlegt hvort sem mælt er á andlegar eða veraldlegar mælistikur. Það stækkar okkar eigin tíma og minnir á að umfang heimsins mælist ekki aðeins í metrum og ljósárum, heldur í hugmyndum og reynslu mannsins á sögulegum tíma. Hversu takmörkuð sem þessi innsýn í aldagömul hugskot og örlög kann að vera veitir hún okkur óviðjafnanlega tilfinningu fyrir því sammannlega og bregður skæru ljósi á líf okkar sem nú erum á dögum. Þetta kennir okkur auðmýkt gagnvart öllu því fólki sem fór á undan okkur, en leit út eins og við og sagði sögur af sér sem gætu eins verið um okkur að breyttu breytanda. Frá þrettándu öld hafa íslenskir lesendur og hlustendur brotið heilann um sálarlíf Hallgerðar og Gunnars.

Það er samfella í sköpunarferlinu. Ritun Njálu var ekki lokið þegar hún var skrifuð á skinn í lok þrettándu aldar. Nýir skrifarar og ritstjórar endurskópu, felldu úr og bættu við orðum og spunnu þráð í þennan litskrúðuga vefnað. Strax á síðmiðöldum unnu listamenn úr bókmenntaarfinum, ortu rímur, kvæði og skrifuðu nýjar sögur; síðar máluðu nýjar kynslóðir myndir, skrifuðu leikrit og bjuggu loks til kvikmyndir. Nú sjáum við Njálu túlkaða í kröftugu samspili ólíkra listamanna á fjölum Borgarleikhússins. Þessar gömlu bókmenntir – og ekki aðeins Íslendingasögurnar – hafa reynst sístreym­­andi uppspretta um aldir, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur er unnið úr þessum sameiginlega arfi um allan heim, allt frá því að þær urðu fyrst aðgengilegar í þýðingum í byrjun nítjándu aldar. Wagner og Tolkien eru fræg dæmi; Game of Thrones nýlegra. Eddukvæðin sem varðveittust á Íslandi eiga sér rætur í rammri forneskju og með margvíslegum skrifum sínum varðveittu Íslendingar heiðinn arf og forna menningu í einhverri mynd.

Ekki þarf að fjölyrða um að þetta efni hefur allt gildi í sjálfu sér. En við getum spurt hvaða erindi þetta gamla efni, margvelkt handrit, aldagamlar sögur og kvæði, eigi við okkur í dag. Eigum við ekki nóg með okkar eigin nútímamenningu? Hvernig færum við allt þetta efni upp á veisluborðið – sem virðist svo ofhlaðið nýmeti árið 2016? Hvernig endurmetum við hugmyndir okkar um fortíðina, lærum af henni og bryddum upp á samtali við þá sem fóru á undan okkur og gerum hugsanir þeirra að lifandi þætti í samtímanum? Geta gamlar bókmenntir komið að gagni í umræðu dagsins í dag um framtíð Evrópu, þessarar gömlu álfu þjóðflutninga og fjölmenningar? Hvernig túlkum við eldgamlar sögur af sigrum og sáttum, hefnd og sæmd, ofbeldi og misrétti, en líka réttlæti og friði, sem voru notaðar í þjóðernislegri orðræðu á nítjándu og tuttugustu öld? Hvernig færum við þessar margradda og flóknu minningar formæðra okkar og forfeðra inn í nútímann án þess að falla í þá freistni að fegra þær og skrumskæla? Þurfum við ekki að rekja þá mörgu söguþræði sem ganga í gegnum Íslandssöguna fremur en að segja eina samræmda sögu allra þeirra sem búið hafa í landinu?

2

Það er ekki klisja eða mýta að Íslendingar séu bókmenntaþjóð. Landsmenn hafa verið sískrifandi og sílesandi allt frá því að ritun hófst í landinu. Þær bókmenntir sem ritaðar voru allt frá tólftu öld og til okkar tíma, og sá aragrúi kvæða og vísna sem varðveist hefur allt frá landnámi, er ótrúlega mikill að vöxtum. Íslendingar skrifuðu og ortu ekki aðeins fyrir sig sjálfa heldur fyrir miklu stærra svæði í norðrinu. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar skildi fólkið sem bjó kringum víðfeðmt Atlantshafið hvert annað og þéttriðið net siglingaleiða tengdi ólík landsvæði, allt frá Grænlandi til Svíþjóðar, og jafnvel austur til Kænugarðs, frá Íslandi til Bretlandseyja og Normandí. Þessi fámenna þjóð varðveitti og skrifaði svo mikinn fjölda handrita og skjala að undrun sætir. Um 1200 er talið að um 50 þúsund manns hafi búið á Íslandi, en á sama tíma voru Norðmenn um 300.000. Hlutfallið er einn á móti sex. Áföll, sóttir og náttúruhamfarir héldu mannfjölda niðri hér og nú eru Íslendingar 330.000 en Norðmenn 5 milljónir. Hlutfallið er um einn á móti fimmtán. Ísland var því hlutfallslega fjölmennara land á miðöldum miðað við nágrannalöndin en nú er og því ekki eins óskiljanlegt að þjóðin gæti á þeirra tíma mælikvarða byggt upp þær öflugu grunnstoðir ritmenningar sem hún naut um aldir góðs af. Stundum hefur verið minnt á það að svipaður fjöldi bjó á Íslandi á þrettándu öld og í Flórens endurreisnarinnar.

Bókmenntirnar urðu útflutningsvara strax frá upphafi ritunar; annars hefði framleiðslan vart gengið upp því að handritagerðin var dýr og krafðist mannafla. Hinar skapandi greinar urðu snar þáttur í sjálfsmynd þjóðarinnar og verðmætasköpun, svo að notaðar séu nútímalegar skilgreiningar yfir gamla iðju. Skapandi greinar á Íslandi standa nefnilega á gömlum merg og var á miðöldum lagður á þær alþjóðlegur mælivarði.

Menningarafrek verða ekki til í tómarúmi. Sköpunarkrafturinn var ekki nógur einn og sér. Það þurfti öflugar menntastofnanir sem hlúðu að honum, myndarlega fjárfestingu í rannsóknum, markvisst starf og útgáfu verka, og miðlun þeirra. Rétt eins og nú á tímum.2 Áheyrendur og fjárfestar voru augljóslega áhugasamir og ástríðufullir, rannsóknir og listamannalaun kostuð af kirkju og höfðingjum heima og erlendis. Á kaþólskum miðöldum voru starfrækt átta klaustur hérlendis: á Þingeyrum, í Þykkvabæ, á Munkaþverá, á Helgafelli, í Viðey, á Reynistað, í Kirkjubæ og á Möðruvöllum, og eitt bættist við á Skriðuklaustri árið 1493 en starfaði aðeins í hálfa öld. Biskupsstólarnir voru tveir og auk þess voru skólar eða lærdómssetur á höfðingjabýlum, eins og í Odda, í Hítardal, í Reykholti, á Skarði, á Völlum í Svarfaðardal og víðar. Á Norðurlöndum höfðu kóngar og jarlar íslensk skáld í vinnu við að lofa sig og láta orðstír sinn standa og fengu íslenska sagnaritara til að skrifa sögur um sig og sitt slekti – þar til skildi með tungunum, norsku og íslensku, á fjórtándu öld.

Það er mikilvægt að minna á að íslensk miðaldamenning er ekki íslensk í þeim skilningi sem við leggjum í orðið í dag. Hún tilheyrir sítengdum heimi norðursins og er þannig alþjóðleg og eitt brotið í mósaíkmynd heimsmenningarinnar. Íslendingar ortu ekki aðeins og frumsömdu söguleg verk um fortíð sína og annarra þjóða og um eigin samtíma, heldur voru þeir afkastamiklir þýðendur klassískra sagnarita og nýrra bókmenntaverka sem urðu fyrir vikið að aflvaka í íslenskum bókmenntum. Þýðingar urðu til í samspili milli landa, þannig hófust þýðingar franskra riddarasagna við hirð Hákonar konungs um 1225, en langflest handrit þeirra eru samt varðveitt á Íslandi. Allt frá tólftu öld voru Íslendingar afkastamiklir þýðendur. Þýðingarnar urðu íslenskar bókmenntir og læddu sér svo fimlega inn í frumsamin verk að ekki er mögulegt að greina saumförin eða hvar hinn frumsamdi texti tekur við af hinum þýdda. Þýðing á einni vinsælustu kennslubókinni í bókmenntatúlkun laumar sér jafnvel inn í kvæði eins og Lilju, sem er ort með glæsibrag á ljósri íslensku um miðja fjórtándu öld.3 Enn í dag skynjum við sterkt hvílíku frjómagni er sáð við þýðingu hverrar bókar á íslensku.

Við myndum lítið vita um alla þessa bókmenntastarfsemi ef sögurnar og kvæðin hefðu ekki verið rituð á skinn og síðar á pappír, jafnvel aftur og aftur, og ef lesendur hefðu ekki geymt bækurnar eins og sjáaldur auga síns öld fram af öld. Sumar þjóðir skilja eftir sig ótrúlegan menningararf í áþreifanlegum minjum en engar ritaðar heimildir. Því er alveg öfugt farið hjá okkur. Hér eru ekki sýnilegar menjar af kastölum eða minnismerkjum frá miðöldum, heldur er nær eingöngu um að ræða ritað mál og stöku gripi. Hér vantar okkur hið áþreifanlega samhengi, nema kannski þegar við lítum laug Snorra, þó að fornleifafræðingar séu smátt og smátt að grafa merkar vísbendingar upp úr moldinni. Konungsbók eddukvæða eða Alþýðubókin, eins og Arnaldur Indriðason kallaði hana svo skemmtilega, er okkar Akrópólis.4 Það er furðulegt að sú litla bók hafi varðveist svo vel í fjögur hundruð ár – þar til Brynjólfur Sveinsson færði Danakonungi hana að gjöf. Skinnhandritin eru nefnilega viðkvæm, þau þola ekki eld, sagga né vatn. Aðstæður á Íslandi voru ekki hagfelldar skinnbókum, en samt varðveittust þær ekki aðeins eina kynslóð, heldur mann fram af manni, raunar oft í kvenlegg, öld fram af öld.

Saga handritanna sjálfra er eiginlega dramatískari og leyndardómsfyllri en sjálf sköpunarsaga þeirra sem er reyndar oftast ókunn. Átta hundruð sextíu og átta handrit eða handritabrot á íslensku, auk fornskjala, hafa varðveist frá því fyrir 1600.5 Það er eiginlega kraftaverk. Torfbæirnir voru ekki góðir varðveislustaðir, jafnvel ekki sjálfir biskupsstólarnir. Í Skálholti urðu tíðir brunar og bókasöfnin fuðruðu upp, og latínuhandrit klaustranna hafa nær öll glatast. Engu að síður varðveittist fjöldi handrita þrátt fyrir andstyggðar veðurfar, plágur, hallæri og hinna löngu síðmiðaldir – allt til sautjándu aldar. Þá vakti Arngrímur lærði athygli á því í varnarritum fyrir Ísland að sjálfar heimildirnar um fornsögu Norðurlanda væru geymdar á norðurhjara veraldar – og áhuginn vaknaði í Danmörku og Svíþjóð á að ná handritunum úr landi. Þá sögu þarf ekki að rekja hér – né að rekja þá ástríðufullu ritun á pappír sem hélt áfram í landinu allt þar til prentaðar bækur tóku alfarið við.

Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki hófst baráttan fyrir auðlindunum og settu Íslendingar strax á oddinn forræði yfir handritunum í söfnum Dana og hafssvæðinu umhverfis landið. Handritamálið í Danmörku er raunar ein samfelld spennusaga í ætt við House of cards og myndi sóma sér vel í sjónvarpsseríu.6 Mikil áhersla var af hálfu Íslendinga lögð á að fá handritin heim, og var koma þeirra stórviðburður á síðasta vetrardag árið 1971. Aðeins ári síðar var landhelgin færð út í 50 mílur og 200 mílur árið 1975. Forræði yfir menningarlegum og efnahagslegum auðlindum var í höfn.

Við erum ekki fátæk þjóð með þessar auðlindir, fyrir utan allar þær náttúruauðlindir sem landið færir okkur og þann auð sem býr í hverjum manni. En hvernig höfum við ávaxtað okkar pund? Íslendingar hafa markvisst fjárfest í rannsóknum og nýsköpun á hafinu og fiskistofnum og bylting hefur orðið í nýtingu sjávarfangs á síðustu árum, þó að deilt sé um aðgang að auðlindinni og skiptingu arðsins af henni. En fyrir tilstilli háskólarannsókna, nýsköpunar, nýrrar tækni og öflugrar alþjóðlegrar samvinnu hefur tekist að vinna miklu meiri verðmæti úr hverjum fiski en áður var. Orðið hafa til ný og öflug rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki eins og Marel og Matís, og keðja sprotafyrirtækja um allt land. En höfum við verið jafn stefnuföst í nýtingu á þeim auðlindum sem búa í safni Árna og öllum þeim heimildum, handritum, skjölum, upptökum og myndum sem varðveitt eru í öðrum söfnum okkar? Héldum við að sigurinn væri unninn þegar handritin komu heim? Gleymdum við að það þarf líka „að vinna friðinn“?

Frá því að síðustu handritin komu heim frá Danmörku árið 1997 hafa orðið aldamót og ný iðn- og upplýsingabylting gerbreytt rannsóknaaðferðum og möguleikum til miðlunar og samskipta við útlönd. Í raun eru þessar breytingar ævintýri líkastar fyrir litla þjóð á hjara veraldar. Sú auðlind sem býr í öllum íslenskum handritum, sem varðveitt eru hér heima og í erlendum söfnum, hefur orðið enn dýrmætari við að komast í snertingu við æ fleiri lesendur um allan heim. Alþjóðavæðingin hefur sprengt landamæri og nú erum við í jafngóðu samstarfi við kollega í Ástralíu og þann sem situr í næsta herbergi. Margir verða hissa að heyra að íslenska (forníslenska og/eða nútímaíslenska) sé kennd við um eitt hundrað háskóla í heiminum og í nær öllum heimsálfum. Úr þeim frjóa jarðvegi vaxa nýir sprotar, nýir menningarsendiherrar setja íslenskar bókmenntir og menningu í alveg ferskt samhengi og verða ómetanlegir þýðendur íslenskra bókmennta. Á hverju ári koma tugir erlendra stúdenta til Íslands að læra íslensku og meistaranemar koma í ársdvöl til að leggja stund á íslensk miðaldafræði í námi sem rekið hefur verið í samvinnu Háskóla Íslands og Árnastofnunar í nær tíu ár. Og á hverju sumri er haldinn fjölmennur alþjóðlegur sumarskóli í handritafræðum í samvinnu Árnastofnana í Reykjavík og Kaupmannahöfn og Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns.

Hvernig höfum við brugðist við þessum mikla áhuga á menningu okkar litla lands og þeim tækifærum sem í honum felast? Ég hef verið mjög hugsi yfir hörðum veruleika fjármögnunarinnar. Sá skortur á framtíðarsýn stjórnvalda hvað varðar ríkulegar menningarlegar auðlindir þjóðarinnar einskorðast þó alls ekki við árin eftir Hrun. Alþingi samþykkti þingsályktun um metnaðarfulla menningarstefnu árið 20137 og auk þess þingsályktun um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi árið 20148 – en það bólar enn ekki á að unnin sé kostnaðargreind aðgerðaáætlun í tengslum við langtímastefnu eins og gert var í tilviki vísinda- og nýsköpunarstefnu.9

Skráning handritasafns Árna Magnússonar á heimslista UNESCO um Minni heimsins árið 2009 hnykkti á mikilvægi þess í alþjóðlegu samhengi og lagði þá ljúfu skyldu á herðar Íslendinga að miðla því til alls heimsins, m.a. með því að nota stafræna tækni. Í rökstuðningi UNESCO var listrænt gildi Íslendingasagnanna nefnt sérstaklega og þýðingar sagnanna á öll heimsins tungumál. Tilnefningin kom á tímum mikils niðurskurðar í opinberum fjárveitingum en sjö árum síðar veldur fjárskortur því að enn hefur ekki verið brugðist við þeirri viðurkenningu og hvatningu sem í tilnefningunni felst. Ekki liggur fyrir tímasett áætlun um það hvernig fjármagna skuli stafvæðingu handritasafns Árna Magnússonar svo að það verði aðgengilegt fyrir fólk hvar sem er í heiminum.

Þegar Íslendingar tóku við handritunum úr hendi Dana fyrir fjörutíu og fimm árum var ekki gert ráð fyrir forvörslu- og viðgerðaverkstæði í Árnagarði þar sem þeim var búinn staður. Þá sá fólk heldur ekki fyrir að til Reykjavíkur kæmu á hverju ári tugir þúsunda ferðalanga sem vildu sjá helstu þjóðargersemar okkar á sýningu. Það voru aðrir tímar. En jafnvel þó að við leggjum stafrænar myndir af öllum handritunum út á netið, kemur engin mynd í staðinn fyrir þá einstöku upplifun að sjá frumhandritið sjálft frá þrettándu öld. Póstkort af Mónu Lísu kemur ekki í stað heimsóknar á Louvre. Nú er ekki hægt að sjá Konungsbók eddukvæða og helstu handrit þjóðarinnar á sýningu í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO. Hvernig yrði okkur við ef við kæmum til Aþenu og fengjum ekki að sjá Akrópólis?

Ný umgjörð um handritin og önnur söfn stofnunarinnar, þá miklu rannsóknarstarfsemi og kennslu sem er innan Árnastofnunar og Háskóla Íslands í íslenskum bókmenntum og tungu, var því orðin löngu tímabær þegar loks var auglýst samkeppni um hönnun slíks húss árið 2008. Framkvæmdir hafa því miður dregist úr hömlu. Tapaður tími er sama og glötuð tækifæri fyrir íslenska menningu og íslenska tungu, því að byggingin á Melunum verður sannkölluð aflstöð rannsókna, kennslu og miðlunar – og miðstöð íslenskunnar í heiminum.

Sá vöxtur sem hefur hlaupið í skrif um allan heim og þar með í þau gögn sem lenda loks í skjala-, bréfa- og handritasöfnum leggur auðvitað ákveðinn vanda á herðar allra þjóða. Eldri gögn og handrit fóru í gegnum hreinsunareld tímans og harðan dóm aldanna, svo að handritum fækkar mjög eftir því sem nær dregur landnámi en þegar skjalasöfn urðu til á nítjándu öld hófst skipulögð söfnun skjala og handrita. Nú flæða gögn og bækur inn í öll söfn. Aldrei verður hægt að sinna öllum verkefnum jafn vel og því er eðlilegt að spyrja um forgangsröðun þegar fé er takmarkað. Hvernig tryggjum við örugga skráningu, varðveislu og aðgengi? Hvernig tryggjum við stafvæðingu handrita, en einnig að gögn á netinu verði ekki smátt og smátt að rusli vegna þess að við getum ekki hlúð að þeim og uppfært reglulega? Hvernig tryggjum við rannsóknir sem eru forsenda endurmats og nýsköpunar þekkingar um sögu okkar og menningu? Tækninýjungar opna svo sannarlega alls konar spennandi möguleika en þær kosta líka mikið fé. Og ekki viljum við skilja eftir okkur stafræna ruslahauga eða óvirk gögn í undirdjúpum netsins, eins og gerst hefur með plastúrganginn ógurlega í hafinu, heldur verða gögnin að vera lifandi og raunverulegur aflvaki rannsókna og nýsköpunar í samfélaginu.

Á síðustu árum hafa alls kyns rafræn gögn (big data) orðið áhrifamesta hreyfiafl samfélagsbreytinga. Gagnavæðingin hefur umbylt rannsóknum, greiningum, verðmætasköpun, neyslu og hegðun manna, og ljóst að allt menningar- og rannsóknarstarf mun breytast hratt og margvísleg gögn, sem áður voru lítils metin, fá nýtt hlutverk í samfélaginu. Þannig mun verða um þau handrit og skjöl sem eru í íslenskum söfnum. Við sjáum tækifærin einfaldlega ekki fyrir. Nú þegar hafa opnast gríðarlegir möguleikar í máltækni, sem umbylta ekki aðeins kennslu og rannsóknum á tungumálinu og notkun þess í hinu tæknivædda samfélagi nútímans, heldur rannsóknum á handritum og skjölum og hvernig hægt er að nýta allt það efni í nýju samhengi. Tæknin leyfir okkur að tengja upplýsingar saman á margvíslega vegu sem ekki var hægt að hugsa sér fyrir aðeins nokkrum árum. Rafrænar brýr eru lagðar milli nútímamáls og fornmáls, milli örnefna og þjóðsagna, milli korta og texta, upptöku og myndar, milli ólíkra tungumála, osfrv. Rannsóknir skapa ný verðmæti í menningartengdri ferðaþjónustu, í útgáfu og allri skapandi starfsemi sem hefur reynst Íslendingum ekki einasta arðbær atvinnuvegur frá aldaöðli heldur andlegur styrkur og uppspretta sköpunar og gleði. Öflugar leitarvélar koma í stað tímafreks lestrar í leit að upplýsingum. Bylting hefur til að mynda orðið með gagnagrunnum Landsbókasafns-Háskólabókasafn eins og www.timarit.is og www.baekur.is. Hug­vísindin ganga nú í endurnýjun lífdaga á stafrænni öld.

3

Þegar við íhugum framtíð íslenskunnar og rannsókna á íslenskri menningu og sögu, finnum við að hún tengist að mörgu leyti afdrifum og möguleikum okkar litla samfélags í norðurhöfum og afstöðu okkar sjálfra til landsins og tungumálsins. Hvernig verður umhorfs ef við missum tengsl við tungu og sögu þess fólks sem hefur byggt landið frá níundu öld, og þau sérkenni sem tungan ljær menningu okkar? Hvernig verður þá að búa á Íslandi? Verður Ísland spennandi framtíðarstaður? Landið og náttúran dregur að sér ferðamenn, en hvað með okkur sjálf og menningu okkar? Er ræktarsemi við tungumál og menningu sömu ættar og virðing fyrir náttúrunni? Haldi Íslendingar ekki lífinu í tungu sinni og menningu – munu þá aðrir gera það?

Íslensk menning og íslensk tunga voru lengi samofin sjálfstæðisbaráttunni og í fullveldisyfirlýsingu eru þau nefnd sem grundvöllur ríkisins. Íslensk fræði upphófust í raun sem fræðigrein á nítjándu öld, á hinni miklu þjóðernisöld jafnvel þó að rætur fræðanna liggi djúpt í sögu okkar, í verkum fyrsta málfræðingsins á tólftu öld og fræðimanna eins og Snorra Sturlusonar og Ólafs Þórðarsonar á þrettándu öld. Á nítjándu öld varð til hugmyndin um þjóðtungurnar og saga þjóða og þjóðmenningar rituð og jafnvel einfölduð í pólitískum tilgangi. Ekki aðeins á Íslandi heldur um alla Evrópu.10 ­Rasmus Kristján Rask, oft nefndur sem forvígismaður endurreisnar íslenskrar tungu á 19. öld, hafði almennt áhrif á umræðu um evrópskar þjóðtungur. Bandaríski sagnfræðingurinn Patrick Geary skrifaði skemmtilega bók um það efni fyrir nokkrum árum, þar sem hann skýrði vel hinn fílólógíska og sumpart tilbúna grunn þjóðernisbylgjunnar.11 Í þessu ljósi er hugtakið ‚þjóð‘ að mörgu leyti erfitt í notkun nú á dögum. Ég efast um að Snorri Sturluson hafi litið á ritun Snorra Eddu á þrettándu öld sem íslensk fræði, miklu fremur sem norræn eða jafnvel alþjóðleg fræði. En líklega leiddi hann ekki hugann að þessu álitamáli. Örvunin kom úr öllum áttum, úr lærdómi sem var sá sami í öllum skólum Evrópu og úr munnlegum frásögnum og kvæðum. Edda hans varð rit um norrænt efni, einstakt í alþjóðlegu samhengi á fyrri hluta þrettándu aldar, en þó skilgetið afkvæmi beggja heima.

Norræna, eða norræn fílólógía – gamla nafnið fyrir íslensk fræði – varð í raun pólitísk fræðigrein á nítjándu öld og langt fram á tuttugustu öld. Jón Sigurðsson starfaði til að mynda sem styrkþegi í Árnasafni. Hann var einstakur fræðimaður og einn mesti verkmaður sem unnið hefur í safninu. Jón lagði grunn að nútímalegri skráningu safnsins og gaf út lykilverk eins og Fornbréfasafnið sem lagði grundvöllinn að kröfunni um sjálfstæði.12 Hann safnaði líka handritum og varð safn hans, sem nú er varðveitt í Landsbókasafni-Háskólabókasafni, stærsta safn íslenskra handrita í einkaeigu á eftir safni Árna Magnússonar. Þegar sigur vannst í sjálfstæðisbaráttunni losnaði um þessi pólitísku tengsl, nema að þau ber stundum á góma í ræðum á tyllidögum. Fræðimenn voru ekki lengur ómissandi hlekkur milli þeirra sagna og kvæða sem fólu í sér eina af réttlætingunum fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og breyttust í frjálsa vísindamenn. Sem betur fer. En ekki hefur gengið greiðlega að færa nýjar niðurstöður rannsókna inn í pólitíska umræðu, t.d. um landnámið og miðaldamenningu okkar, svo að enn lifa gamlar klisjur góðu lífi.

Við lifum nú í gerbreyttu samfélagi frá því sem var um miðja síðustu öld en við erum sumpart enn með í farangrinum gamlar hugmyndir um hugvísindin, sögu Íslands og íslensk fræði sem áttu við á öðrum tíma. Því má ítreka gamla spurningu: ‚siglum við með lík í lestinni’? Erum við enn með gamlar hugmyndir um þjóðina og menningu hennar og sögu í farteskinu, og eigum við því á hættu að þær minningar sem geymdar eru í rituðum heimildum séu skoðaðar í þjóðernislegu ljósi? Og ef svo er, er þá ekki kominn tími til að grafa líkið og dúka fremur veisluborðið? Sókn íslenskrar menningar má ekki byggjast á þjóðernislegum rökum eða einskærum verndarsjónarmiðum, heldur á menningar- og efnahagslegum rökum og á styrk móðurmálsins. Íslenskan opnar okkur nefnilega leiðina út í heim. Hún er jafn alþjóðleg og önnur tungumál heimsins þó að hún sé okkar móðurmál. Því frjórri og fjölbreyttari sem hugsun okkar er á móðurmálinu því færari verðum við að tala önnur tungumál, skilja aðra og tjá okkur. Byggir fjölmenningarsamfélagið ekki einmitt á margskonar menningu og tungumálum og eru verðmætin ekki fólgin í fjölbreytileikanum og skilningi þjóða á millum?

Þessar spurningar verða miklu meira aðkallandi nú á síðustu ólgutímum þegar fólk í miðausturlöndum og víðar um heim er þvingað til að flýja heim­ili sín og leita sér bjargar í öðrum löndum órafjarri fósturjörð sinni. Þeir miklu fólksflutningar sem nú eru í Evrópu eru ekki nýir af nálinni. Saga álf­unnar einkennist af sífelldum fólksflutningum og geymir mikla reynslu af samlífi ólíkra menningarhópa. Sú saga er ekki slétt og felld fremur en saga okkar Íslendinga. Landnámsmenn komu hingað úr ýmsum áttum og blönduðust í nýja landinu. Á ýmsum skeiðum var mikill samgangur við ólíkar þjóðir, ekki síst í tengslum við veiðar erlendra þjóða í norðurhöfum. Mikil samskipti voru til að mynda við Baska á sextándu og sautjándu öld, og Frakka á nítjándu öld. Spánverjavígin árið 1615 minna óþægilega á hvernig tortryggni og óöryggi ala af sér átök og blóðugt ofbeldi. Ómetanlegir basknesk-íslenskir orðalistar frá sautjándu öld, sem varðveittir eru í Árnastofnun, sýna á hinn bóginn þrá fólks eftir friðsamlegum samskiptum sem minna hefur farið fyrir í sögubókum.13 Á harðindatímum á síðari hluta nítjándu aldar tók fimmtungur þjóðarinnar sig upp, flúði sára fátækt og hörku norðursins og freistaði gæfunnar í Vesturheimi. Við eigum öll ættmenni í þeim hópi. Jóhannes langafi minn tók sig upp ásamt systkinum sínum og flutti til Kanada, þar sem þau tóku upp ættarnafnið Nordal til aðgreiningar frá öðrum Guðmundarbörnum. Þessi saga harðræðis og flutninga í leit að betra lífi stendur okkur því nærri, kennir auðmýkt og eflir skilning á aðstæðum flóttafólks og hve menning hvers og eins er þeim dýrmæt eins og íslensk tunga og menning var þeim Íslendingum sem fluttu vestur um haf. Sagan hvetur okkur því til að taka vel á móti öllum þeim sem vilja setjast hér að, ítrekar mikilvægi þess að þeim sé tryggð vönduð kennsla í íslensku máli, þeim helst að kostnaðarlausu, og sjálfsögð fræðsla um margslungna sögu byggðar í landinu. Þannig verða þau virkir og fullgildir þátttakendur í samfélaginu, um leið og við virðum menningu og tungu þeirra sjálfra.

Íslenskan er undurlítil í samfélagi tungumálanna og því hræðast margir þær tækni- og samfélagsbreytingar sem við nú lifum. Örar tæknibreytingar krefjast snöggra viðbragða og fjárfestinga í máltækni, en ef okkur auðnast að bregðast hratt við held ég að íslenskan hafi aldrei haft eins mikla möguleika til að lifa sterku og góðu lífi og einmitt á þessari öld. En tungumálið öðlast ekki framhaldslíf af sjálfu sér. Íslenskan er ekki náttúruafl heldur mannanna verk en tungumáli má samt líkja við lífheild þar sem orðin lifa hvert með öðru og hvert af öðru. Hætti nýsköpun í málinu trénar það upp og deyr. Það er undir okkur komið að íslenskan nái að blómstra á nýrri öld tölvu og tækni og þetta þróttmikla tungumál hefur alla burði til þess. Tækninni fleygir fram í hverjum einasta mánuði og fámenn þjóð má hafa sig alla við í því að halda litlu tungumáli lifandi og virku. Máltæknin leyfir okkur að byggja henni nýtt samgöngukerfi sem mun liggja inn á hvert nettengt heimili, inn í hvern einasta skóla, inn í hvert kauptún – aðgangurinn er öllum opinn, óháð búsetu – og eflir þannig lýðræðislega þátttöku hvers og eins. Hún mun einnig hjálpa þeim sem flytja hingað til lands að tileinka sér íslensku miklu hraðar en nú er og gera þeim kleift að auðga íslenskt samfélag.

Við stöndum á spennandi tímamótum. Við þurfum að taka ákvörðun um þessa óhlutbundnu flutninga milli tveggja ólíkra heima. Í þeim felst óumflýjanlegt uppgjör við gamlan tíma eins og þegar við sjálf flytjum búferlum og endurskipuleggjum líf okkar. Þá förum við í gegnum plöggin okkar til að fylla ekki geymslur af gagnslausu dóti um leið og við íhugum hvað gæti nýst næstu kynslóð eða einhverjum öðrum. Við viljum ekki burðast með þungt og gagnslaust hlass úr fortíðinni. Nú þurfum við að gera það sama við það skrifaða efni sem hleðst upp á undrahraða í íslenskum söfnum, ekki aðeins miðaldahandrit og pappírshandrit síðmiðalda, heldur einnig gögn okkar eigin tíma, handrit, skjöl og bækur. Við þurfum að fara yfir farangurinn okkar úr fortíðinni og skoða hvernig við varðveitum, rannsökum og miðlum gögnum á lifandi hátt til næstu kynslóðar og þeirrar þarnæstu. Gera þarf um það raunhæfa og kostnaðargreinda langtímaáætlun, ákveða hvernig við ætlum að ná markmiðum okkar og fylgja þeim svo eftir. Sama á við sjálft móðurmálið. Við eigum að ákveða að vera opin og jákvæð, en ekki lokuð og hrædd um framtíð íslenskunnar. Þessi verkefni kalla á endurmat íslenskrar menningar og íslenskrar tungu – og að kastljósinu verði beint að þeim fjölskrúðuga mannfagnaði sem við eigum í vændum ef rétt er á haldið.

Tilvísanir

1 Þessar tvær myndir koma úr ólíkum áttum, en ég nota þær eftir mínu höfði. Ég fæ titil greinarinnar lánaðan frá þýðingu Halldórs Laxness á skáldsögu Hemingways A moveable feast, og myndina af líkinu í lestinni úr formála Sigurðar Nordals fyrir bók sinni um Snorra Sturluson árið 1920: ‚Norræn ritskýring siglir nú með lík í lestinni af því að hún hefur gleymt að spyrja sífelt, hvað væri rannsóknar virði, og hvernig hún ætti að gera rannsóknina lifandi þátt í menningu og þjóðlífi‘ (bls. v).

2 Ágúst Einarsson hefur gert mjög athyglisverða rannsókn á hagrænum áhrifum og framlagi ritlistar til landsframleiðslu. Varfærið mat hans er 1,5% af þjóðarframleiðslu, eða 27 milljarðar, miðað við árið 2014. Störfin eru um 3000 talsins. Ritmenning hefur því allt frá tólftu öld verið fyrirferðarmikill þáttur í íslensku hagkerfi. Sjá Ágúst Einarsson. 2014. Hagræn áhrif ritlistar. Háskólinn á Bifröst.
3 Peter Foote. 1984. ‚Latin Rhetoric and Icelandic Poetry. Some Contacts‘. Aurvandilstá. Norse Studies. Bls. 249–70. Odense University Press.
4 Erindi á ráðstefnu um Árna Magnússon í október 2013, í tilefni af 350 ára afmæli hans. Sjá: http://www.arnastofnun.is/page/frettasafn_frett&detail=1028242#erindid_i_heild
5 Þessi tala er fengin úr grein Guðvarðar Más Gunnlaugssonar. 2013. ‚Brot íslenskra miðaldahandrita‘ Handritasyrpa. Rit til heiðurs Sigurgeir Steingrímssyni sjötugum 2. október 2013. Bls. 128. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Reykjavík.
6 Saga handritamálsins er rakin af Sigrúnu Davíðsdóttur í bókinni Håndskriftsagens saga: i politisk belysning. Odense. Odense universitetsforlag. 1999.
7 Birt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis: https://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/forsidugreinar/nr/7499.
8 Birt á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/143/s/1228.html.
9 Sjá kostnaðargreinda og tímasetta aðgerðaáætlun stefnu Vísinda- og tækniráðs 2014–16, sem birt er á vef forsætisráðuneytis: https://www.forsaetisraduneyti.is/vt/adgerdaaaetlun/.
10 Ég nefni t.d. greinar í nýja rafræna tímaritinu Interfaces sem kom út á síðasta ári, http://riviste.unimi.it/interfaces/issue/view/569/showToc.
11 Patrick J. Geary. 2003. The myth of nations: the medieval origin of Europe. Princeton University Press.
12 Ég vísa í grein mína frá 2011 ‚Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur‘ í Jón Sigurðsson: hugsjónir og stefnumál: tveggja alda minning 1811 17. júní 2011. Ritstjóri Jón Sigurðsson. Bls. 71–80. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík.
13 Sjá listana á heimasíðu Árnastofnunar: http://www.arnastofnun.is/page/basknesk_islensk_ordasofn