Barnaleikritið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í gær, landsins börnum til mikillar ánægju. Gunnar Helgason stýrir því af sínu alkunna fjöri og hugmyndaauðgi og Ilmur Stefánsdóttir gerir litríka leikmynd sem er heilt ævintýri fyrir unga áhorfendur. Leikarar eru geysimargir og allt á iði á sviðinu í senum sem gerast utanhúss. Innanhúss er líka líf og fjör, ekki síst þegar persónur hoppa af sjónvarpsskjánum út á gólf og leika listir sínar þar! Búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur eru fjölbreyttir og litríkir í stíl við leikmyndina og tónlist Moses Hightower hljómaði vel.

ÓvitarEins og allir vita snýr Guðrún skemmtilega upp á veruleikann í verkinu til að sýna okkur hvað það er fáránlegt að miða allt við stærð. Í Óvitum eru yngstu börnin stærst – Örn Árnason leikur barnið í kerrunni! – en minnka með árunum og elstu persónurnar eru leiknar af yngstu börnunum. Hinn dásamlegi langafi (Lúkas Emil Johansen / Matthías Davíð Matthíasson) var ótrúlega lítill miðað við hvað hann lék dúndurvel! Auðvitað er svolítið þjáningarfullt að hugsa um hvað þessar litlu mæður þurfa að þola þegar þær eignast þessi stóru börn, en þá er bara að hugga sig við að þetta er ævintýri! Aldrei hef ég heldur orðið vör við að þetta þvældist neitt fyrir börnum og þeim er verkið ætlað.

Vandi aðalpersónunnar, Guðmundar (Jóhannes Haukur Jóhannesson), er að hann minnkar ekki nógu hratt. Mamma hans (Herdís Lilja Þórðardóttir / Urður Heimisdóttir) skammar hann fyrir að borða of mikið, hann minnki aldrei með því áframhaldi (þetta atriði skemmtir þeim börnum sérstaklega sem aldrei borða nóg að mati foreldranna). Hann þolir ekki hvað hún kaupir lítil föt á hann, nýju skær-appelsínulitu buxurnar eru ansi snollaðar en það verður hann að þola þangað til hann skreppur meira saman.

En Guðmundur fær annað að hugsa um þegar Finnur skólabróðir hans (Oddur Júlíusson) biður hann ásjár. Hann er orðinn dauðþreyttur á eilífu rifrildi heima hjá sér og barsmíðum og vill að Guðmundur feli hann. Og hvað ætlarðu að vera hérna lengi? spyr Guðmundur. Alltaf! svarar Finnur. En þó að foreldrar Guðmundar séu mikið að heiman, enda sívinnandi bæði daga og kvöld, þá er erfitt fyrir Guðmund að halda Finni leyndum, ekki síst reynist honum erfitt að ljúga þegar hann er spurður beint hvort hann hafi orðið var við Finn. Loks kemst systir Guðmundar, Dagný (Ágústa Eva Erlendsdóttir), að leyndarmáli litla bróður og kemur upp um laumuspilið. Allir verða ósköp fegnir þegar drengurinn finnst en ekki fær maður mikla trú á að heimilislífið hjá Finni batni til frambúðar. Hér eru engar kraftaverkalausnir.

Guðrún hefur allt frá upphafi rithöfundarferils síns lagt áherslu á að fullorðnir eigi að sýna börnum virðingu ekki síður en börn fullorðnum og það er líka rauði þráðurinn í þessu verki. Samtöl barna og fullorðinna, bæði gamansöm og háalvarleg, eru vel skrifuð eins og vænta má og sýningin var reglulega skemmtileg.

Silja Aðalsteinsdóttir