Úti að akaÞað var hamagangur á Hóli í gærkvöldi þegar Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi farsann Úti að aka eftir breska gamanleikjaskáldið Ray Cooney á stóra sviði Borgarleikhússins undir stjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Gísli Rúnar Jónsson þýddi leikinn og staðfærði og eins og vænta má af þessum nöfnum var árangurinn sprenghlægilegur.

Í sögumiðju er leigubílstjórinn Jón Jónsson (Hilmir Snær Guðnason) sem hefur haldist uppi í um það bil tvo áratugi að eiga tvær konur hvora á sínum stað á höfuðborgarsvæðinu. Í Hafnarfirði býr hann með Guðrúnu (Halldóra Geirharðsdóttir) og dótturinni Sigríði (Elma Stefanía Ágústsdóttir); í Mosfellsbæ býr hann með Helgu Dögg (Ilmur Kristjánsdóttir) og syninum Gunnari (Hilmar Guðjónsson). Ekki er annað að sjá en Jóni hafi tekist að halda báðum konum hæstánægðum í hjónabandinu sem gæti vel vakið öfund hjá einhverjum, og það sem meira er: haldið tveim myndarlegum heimilum uppi á einum leigubílstjóralaunum. Því ekki er getið um að Guðrún og Helga Dögg vinni utan heimilis en það er að vísu ekki farsans að hirða um svoleiðis smáatriði. Ekki frekar en hve fráleitt er að ímynda sér að þessi saga gæti gerst á Íslandi án þess að allt kæmist óðara upp.

Í upphafi leiks kemur í ljós að unglingarnir Gunnar og Sigríður hafa kynnst á netinu (leikritið heitir á frummálinu „Caught in the Net“) og það sem meira er: nú ætla þau að hittast í holdinu. Bara núna á eftir. Faðir þeirra kemst að þessu á fyrstu mínútum leiksins og þá upphefst barátta hans til að hindra það. Sú barátta byrjar í æsingi, verður æstari og ýktari með hverri mínútu uns hápunkti er náð og blaðran springur. Sér til aðstoðar við síþéttari og brjálæðislegri lygavefnað hefur Jón leigjanda sinn í Hafnarfirði og frænda, Steingrím (Halldór Gylfason). Að vísu er hann um það bil að leggja af stað í flug til Kanaríeyja með öldruðum föður sínum (Bergur Þór Ingólfsson) en eins og aðrir smámunir verða þau plön að víkja fyrir stórkostlegum vandamálum Jóns.

Þetta verður snúin flétta eins og þið getið ímyndað ykkur og æsingurinn hamslaus með mörgum dásamlegum augnablikum – eins og til dæmis glæsilegri flugferð Jóns yfir sófabakið til að fela sig þegar sonur hans birtist óvænt á röngu heimili og endurteknum tilraunum Helgu Daggar til að hringja heim til vinkonu sonar síns. Helsta ráð Jóns og Steingríms til að hindra að allt komist upp í ótíma er að loka kvenfólkið inni og það var skondið svona fyrst en varð fljótlega leiðigjarnt. Þá kom persóna Bergs Þórs eins og kölluð og bjargaði seinasta hluta verksins með léttum leik. Þvílíkir snilldartaktar! En flottustu senu hans má ekki segja frá, hana verður maður að upplifa.

Leikurinn var auðvitað glimrandi hjá öllu þessu þaulreynda fólki (Bergur samt bestur), hópurinn var eins og vel smurð vél þótt hraðinn væri rosalegur. Þegar á leið fór þó að bera nokkuð á því hvað leikstíllinn var einhæfur og kunnuglegur. Samfelldur ofsahraði verður dálítið tilbreytingarlaus þegar til lengdar lætur.

Umgjörðin öll var vel hugsuð. Sviðið glæsilegt og snjallt hjá Snorra Frey Hilmarssyni – heimilin eru samanfléttuð á sviðinu eins og líf persónanna – og búningarnir smekklegir. Þar báru þó af vönduðu bresku jakkafötin sem Bergur klæddist. Lýsing Björns Bergsteins var hnitmiðuð og tónlist Amabadama einkar áheyrileg. Niðurstaða: Tóm vitleysa en prýðileg skemmtun!

Silja Aðalsteinsdóttir