Ófeigur Sigurðsson. Landvættir: Skáldsaga.

LandvættirMál og menning, 2013.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2013

I

Ég er ekki frá því að Skáldsaga um Jón & hans rituðu bréf til barnshafandi konu sinnar þá hann dvaldi í helli yfir vetur & undirbjó komu hennar og nýrra tíma (Mál og menning 2010) eftir Ófeig Sigurðsson sé ein af bestu íslensku skáldsögum frá síðustu árum. Enda hlaut verkið afbragðs dóma og góðar viðtökur þeirra lesenda sem rötuðu á bókina og fyrir hana hlaut höfundur Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins, fyrstur Íslendinga. Áður hafði Ófeigur sent frá sér sex ljóðabækur og skáldsöguna Áferð (Traktor 2005). Styrkur hans sem höfundar liggur ekki síst í afbragðs tökum á stíl og skapandi meðferð tungumálsins; prósatextar hans bera vitni um frjótt hugarflug sem nýtur sín vel í blöndu af ísmeygilegum húmor og ljóðrænni myndvísi með heimspekilegu ívafi. Þá dregur það ekki úr gildi verka Ófeigs að á bak við skrif hans skynjar lesandinn brýnt erindi sem er þó aldrei þannig fram reitt að lesandinn upplifi að verið sé að troða ofan í hann skoðunum eða boða einhvern stórasannleik.

Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég hóf lestur Landvætta og stóð verkið að flestu leyti undir miklum væntingum mínum. Hugarflugið, frábærlega myndrænn og skemmtilegur stíllinn, leiftrandi húmorinn – hér kryddaður ríkulega með gróteskri íroníu – tilvistarpælingarnar, brýn erindi; allt er þetta að finna í bókinni sem einkennist framar öðru af miklum frásagnarkrafti og vilja til verksins; enda er um tæplega fimmhundruð blaðsíðna bók að ræða. Þó er sá munur á Landvættum annars vegar og Skáldsögu um Jón hins vegar að síðarnefnda bókin sýnir meiri ögun og – ég leyfi mér að segja – meiri þroska; hún sýnir einfaldlega að þar hefur höfundur betri tök á efnivið sínum en í Landvættum.

Það kom mér því ekki á óvart að lesa það í viðtali við Ófeig í Fréttablaðinu Landvættir er í raun að stofni til eldra verk – og er þar með eftir yngri höfund – þótt það hafi komið út tveimur árum á eftir Skáldsögu um Jón. Ófeigur skrifaði fyrstu gerð þessarar bókar á árunum 2006– 2008 en fann ekki viljugan útgefanda. Telur hann sjálfur að ástæðan hafi verið að efnið þótti „of suddalegt“ á köflum, í því hafi verið of „mikill sprengikraftur“ og frásögnin átt til „að fara í allar áttir“. [1] Ófeigur tók þetta óbirta handrit upp aftur árið 2011 og tókst „að koma sögunni á réttan kjöl og halda ákveðinni stefnu,“ eins og hann orðar það sjálfur. Mikill sprengikraftur leynist enn í söguefni Landvætta og ber síst að lasta það, en á nokkrum köflum er þó eins og höfundur nái ekki alveg að hemja (og temja) efnið og hleypi því í ýmsar áttir. Vissulega má oft hafa gaman af því skeiði en bókin hefði verið heilsteyptari og þéttari hefði höfundur haldið fastar um tauminn.

II

Sókrates, sögumaður Landvætta er ungur Reykvíkingur sem hefur flosnað upp úr lögfræðinámi eftir að hafa lent á forsíðu DV ásakaður um kaldrifjaða glæpi sem hann er saklaus af. Aðförin í DV reynist honum, eins og nærri má geta, erfiður hjalli að klífa. Um leið og hún minnir hann á eineltið sem hann varð fyrir í æsku veldur málið allt honum miklum sálarkvölum og ótta; hann verður mannfælinn og þungsinna og þráir lausn frá hinum „samfélagslega hryllingi“ sem opinberast daglega á síðum dagblaðanna: „Það vantar nýtt hneyksli, nýtt stórsmygl, nýtt rán, nýtt morð, almennilega slátrun, bara eitthvað nógu blóðugt með kjöt á beinunum til að reisa úr sjúkrarekkjunni násoltna þjóðarsálina með svallveislu af eymd og þjáningu annarra“ (144). Lausnina sér Sókrates einna helst í einangrun:

Ég fer að sjá í hillingum fangaklefann sem bíður mín og hlakka til að geta setið í tíu ár við lestur og skriftir frá morgni til kvölds óáreittur í vernduðu umhverfi, laus við samfélagið, bara einn með bækur, lítið útvarp og ef til vill skáktölvu, uppá félagsskapinn. Þetta er sannkölluð lausn á mínu lífi! … Heilabúið er eina jarðnæðið sem maður mun nokkurntímann fá. (140)

Þessi lausn er þó ekki í boði enda ljóst að Sókrates er ekki sekur í því máli sem dómstóll dagblaða og götunnar hefur sakfellt hann í; í staðinn fær hann sér vinnu í kjötvinnslunni Flesk & síðu uppi á Kjalarnesi og er þar í þokkalegu skjóli fyrir atburðinum um sinn. Það er þó hvorki lögfræði né kjötvinnsla sem hugur Sókratesar stendur til. Eins og sjá má af hugmynd hans um lausn þá er hér um að ræða bókhneigðan ungan mann sem sýslar við skriftir og á vafalaust ýmislegt sameiginlegt með höfundi sem – þótt það skipti ekki máli – gefur þeirri tengingu undir fótinn seint í sögu: „[…] ég hefði heitið eitthvað annað / ef til vill Ófeigur“ (366). Nafnið hlaut sögumaður ekki vegna aðdáunar foreldranna á heimspekingnum gríska heldur á brasilískri knattspyrnuhetju sem var á hátindi frægðar sinnar þegar sögumaður fæddist. Í ljós kemur að Sókrates hneigist reyndar einmitt að heimspeki, bókmenntum og listum. Hann hefði kosið að læra heimspeki en þorði það ekki því „það er ekki hægt að læra heimspeki og heita Sókrates, ég hafði þegar fengið minn skammt af andlegu ofbeldi skólagöngunnar“ (44).

Til að byrja með líður Sókratesi sæmilega í kjötvinnslunni; vinnan er auðveld, hann sinnir henni vel og fljótlega er honum trúað fyrir ábyrgðarstöðum þegar hann leysir af hvern yfirmanninn á fætur öðrum meðan þeir skreppa í sumarfrí. Þannig kynnist Sókrates smám saman innviðum fyrirtækisins og getur kynnt fyrir lesandanum „anatómíu kjötvinnslunnar“, svo notað sé orðalag höfundar úr áðurnefndu viðtali. Þar upplýsir Ófeigur líka að lýsingin á Fleski & síðu byggi að hluta til á hans eigin reynslu þegar hann, um tvítugt, vann um skeið í kjötvinnslunni Síld & fiskur í Hafnarfirði. Ófeigur dregur ekki dul á að hann sér í slíkum vinnustað sögusvið sem gefur möguleika á „að spegla samfélagið sem við búum í; hvernig svona lokuð verksmiðja virkar sem samfélag og í rauninni fjölskylda líka.“ Um leið býður lýsing hans á kjötvinnslunni – sem er í senn húmorísk og grótesk – upp á ádeilu á verksmiðjubúskap því, með orðum höfundar: „[…] svoleiðis bú eru ekkert annað en útrýmingarbúðir fyrir dýr og framleiðsla á dauða“.

Með þessari aðferð er Ófeigur að tengja sig við þekkt bókmenntaminni, allegóríuna eða táknsöguna. Upp í hugann koma verk á borð við The Jungle eftir bandaríska höfundinn Upton Sinclair (íslensk þýðing Páls Bjarnasonar kom út 1914 undir heitinu Á refilstigum) og Animal farm eftir George Orwell (íslensk þýðing Jóns Sigurðssonar frá Kaldaðarnesi kom út 1985 undir heitinu Dýrabær). Sú fyrrnefnda er talin hafa knúið fram breytingar á meðferð nautgripa og aðferðum við slátrun og kjötvinnslu sem og haft áhrif til bættra kjara verkamanna í Bandaríkjunum í upphafi tuttugustu aldarinnar en sú síðarnefnda er þekkt sem allegóría um byltinguna í Rússlandi. Lýsingar Ófeigs á Fleski & síðu hafa ekki að geyma slíka ádeilu. Á svínabúinu á Kjalarnesi ríkir ekki svínræði í anda Orwells og vinnustaðamórall er þar yfirleitt í lagi og meðal starfsmanna ríkir góður andi eins og hjá samrýndri fjölskyldu.

Víða fer höfundur á kostum þegar hann lýsir hinu fjölbreytilega samstarfsfólki sínu; flestir rækja störf sín af bestu getu þótt ýmsir séu komnir til ára sinna og farið að förlast. Erling kjötiðnaðarmeistari, sem er að nálgast sjötugt, „á heiðurinn af því að koma spægipylsunni á markað hér á landi fyrstur manna“ (21) en hefur orðið áfengi og offitu að bráð og líkist „æ meir stórri skinku […] seigur drifkraftur og prótínmassi; fita, vatn, lím og salt“ (21). Kæfugerðarmaðurinn Þórður er á tíræðisaldri og hefur unnið í fyrirtækinu frá stofnun þess. Hann lætur framleiða kindakæfu sem „er löguð eftir meira en 300 ára gamalli uppskrift sem langamma hans kenndi honum þegar hann var unglingspiltur. Sú sómakona var fædd árið 1820, segir Þórður, og nam hún kindakæfuuppskriftina hjá ömmu sinni sem lærði hana hjá móður sinni norður á Snjáfjallaströnd á 17du öld, daginn áður en hún var brennd á báli fyrir galdra, aðsendingar og nornakukl“ (82–83). Þórði er að sjálfsögðu meinilla við allar nýjungar í kæfugerð. Mæðgurnar Mæja og Gígja vinna við pökkunarfæribandið og hafa gert í áratugi (sú eldri 76 ára og sú yngri 61 árs). Þær eru traustir starfskraftar sem láta sig hvorki vanta í vinnuna né á lókalpöbbinn – Kjölinn – um helgar. Gígja er þó „uppreisnargjörn“ og á sér þann draum að opna tískuvöruverslun; „hún ætlar ekki að enda háöldruð í verksmiðjunni eins og hún mamma sín“ (315).

Margar fleiri skrautlegar persónulýsingar er að finna í þeim köflum sem hafa kjötvinnsluna að sögusviði. Og eitt á starfsfólkið allt sameiginlegt; það ber óttablandna virðingu fyrir forstjóranum sem „er ávallt fínn og snyrtilega klæddur í jakkafötum, hvítri skyrtu stífðri, silkibindi undir hreinum og vel pressuðum hvítum sloppnum, þá er blár kragi á sloppnum hans sem sýnir að hann er æðsta tign“ (18). Forstjórinn er maður sem hefur brotist af eigin rammleik til mikils auðs og upp í stöðu skattakóngs til margra ára. Hann ekur um á þýskri drossíu og notar eina vistarveru kjötvinnslunnar til að hýsa listasafn sitt sem „er stærsta listasafn í einkaeigu á Norðurlöndum“ (54) og hann kallar Sæhrímni: „Þarna er stærsta einkasafn af Kjarvalsmálverkum sem til er og flest verk eftir meistarann á einum stað, þau hanga enn uppi um veggina og standa í stöflum meðfram veggjunum og lykta eins og jólasteik, mörg hundruð málverk eftir meistarann“ (55). Sókrates er einmitt sérstakur áhugamaður um verk Kjarvals og skreppur hvenær sem færi gefst inn í salinn sem geymir listaverkin til að skoða verkin – og til þess að „betrumbæta“ óklárað verk meistarans sem stendur þar á trönum.

III

Þótt kjötvinnslan sé aðalsögusvið frásagnarinnar liggja þræðir hennar í ýmsar aðrar áttir, inn á aðra staði, yfir í annan tíma. Áhrifamikill kafli segir frá æsku Sókratesar í Breiðholti þar sem hann býr við kröpp kjör á heimili „þar sem aldrei var minnst á bókmenntir, leikhús eða tónlist nema þá í því sniðmáti að skattfé fólksins væri sólundað í letingja í miðbænum“ (47). Móðir hans vinnur í kjörbúðinni Kjarval á daginn, í miðasölu bíósins við Mjódd þrjú kvöld í viku og í fatahenginu á Broadway um helgar. Hún „var því of þreytt og fjarverandi til að taka eftir hvernig persónuleiki minn molnaði niður, ég var fremur glaðvært og hamingjusamt barn þar til minnið tók að þroskast og gereyða lífsgleðinni“ (48). Skólaganga Sókratesar í æsku er martröð eineltis og menningarleysis, eina góða minningin úr þeirri „brennandi æskuborg“ er skólaheimsókn á Kjarvalsstaði þar sem Sókrates lærði „meira um lífið og heiminn á einum klukkutíma en alla skólagönguna“ (37–38). Í þeirri heimsókn fá börnin „augnabliks innsýn í óendanlegt sæluríki og ódáinsakur þegar listin birtist“ þeim (40). Órói grípur börnin eftir þessa reynslu svo ekki er farið með þau í fleiri slíkar ferðir.

Kjarval er reyndar einn af rauðum þráðum sagnavefs Landvætta; til hans er vísað oft og á mismunandi hátt, eins og þegar er komið fram. Í æskukaflanum er að finna þessa frásögn:

Eina menningin í Breiðholtinu var gamall maður sem gekk í hús með málverk undir hendinni. Hann var hokinn með langt andlit og grátt rytjulegt hár út yfir axlir sem dúaði þegar hann stikaði stór skrefin milli húsa. Hann var orðinn svo samdauna neitunum Breiðholtsbúa, það var enginn að fara að kaupa málverk af manni sem kemur utan af götu, eyða í það mörgum mánaðarlaunum, að gamli maðurinn lét rétt opna fyrir sér til þess að kinka kolli og hélt áfram upp stigaganginn. Hann var löngu hættur að sýna málverkið sem hann gekk með ár eftir ár í öllum veðrum og vildi selja. Það var mynd af honum sjálfum. Myndina hafði Kjarval málað af honum og gefið einhverntímann um miðja öldina. Var málverkið orðið býsna þvælt og sjúskað líkt og sölumaðurinn sjálfur. (48)

Ef til vill má túlka þessa stuttu frásögn sem táknmynd þar sem bæði gamli maðurinn með mynd listamannsins af sjálfum sér og þeir sem loka á hann standa fyrir íslenska þjóð. Hún sýnir þá að þjóðin getur hvorki metið sanna list né horfst í augu við sjálfa sig. Þannig túlkuð smellpassar frásögnin inn í eina heitustu umræðu samtímans; hvort íslensk þjóð kæri sig um list og „hafi efni á“ list. Rifja má upp að stærsta Kjarvalssafn í einkaeigu er hýst í kjötvinnslunni Flesk & síðu, þar sem það liggur undir skemmdum og verkin „lykta eins og jólasteik“.

Reyndar býr meira en einföld táknmynd að baki tilvísunum til Kjarvals í Landvættum; verk hans standa fyrir ást á íslenskri náttúru og hyllingu á henni og tengjast þannig þema náttúruverndar sem einnig er að finna í bókinni. Laxness nefndi Kjarval Landnámsmann Íslands, segir sögumaður sem vill bæta um betur og nefna hann sem einn af landvættunum: „Í raun er Kjarval einnig landvættur, hann hefur gengið inn í náttúruna og miðlar henni til okkar hinna sem getum ekki annað en staðið utan við svo frumspekilega sýslan“ (55).

Einn af skemmtilegri köflum bókarinnar tengist náttúrunni á annan hátt; það er frásögnin af því skjóli sem Sókrates á hjá yfirkennara grunnskólans, Orra náttúrufræðingi, sem fræðir drenginn um íslenska fugla og fleira þegar hann er sendur á hans fund nánast daglega „fyrir að vera sveipaður ofbeldi og uppþoti í hverjum frímínútum“ (150). Stundirnar á skrifstofunni hjá yfirkennaranum eru það eina bærilega við skólagöngu sögumanns auk þess sem yfirkennarinn kynnir hann fyrir Náttúrugripasafni Íslands, þar sem hann verður tíður gestur og nýtur mjög.

IV

Halda má fram að erindi höfundar Landvætta sé brýnast þegar kemur að því deiluefni sem hvað helst náð hefur að kljúfa íslenska þjóð í tvær andstæðar fylkingar á undanförnum árum og snertir nýtingu og verndun íslenskrar náttúru. Það kemur því ekki á óvart að táknmynd hins illa afls sem stríðir á móti íslenskri náttúru er Álverið í Straumsvík. Lýsingin á álverinu er ein af gróteskari (suddalegri) lýsingum bókarinnar og kannski er eitraðasta setning bókarinnar einmitt þessi: „Reykjavík er römmuð inn með álverum og svínabúum í réttu samhengi við innihaldið“ (168). Álverinu er lýst sem eyðandi náttúruafli eins og eftirfarandi texti sýnir:

Yfir Álverinu í Straumsvík og umhverfi þess grúfa statt og stöðugt kolamyrk ský er úr fellur svart duft í hrönnum; þá rignir súru svo allt verður að brennandi eðju, blása þar einatt eitraðir vindar svíðandi holdið og gengur á með þrumuveðrum og blossandi eldi og eimyrju svo ekki vex stingandi strá nokkursstaðar í kring nema banvænt öllu lífi; þar er hver dagur niðdimmur sem nótt með linnulausum sorta og brennisteins úrhelli, á meðan heiðbjart og gróðursælt og heilnæmt er annarsstaðar. Gengur þetta ólyfjans mistur á land fram sem á haf út, spillandi öllu lífi og eirir engu kviku í stórum radíus (168–169).

Þessi texti minnir líka mjög á lýsingar sama höfundar á Kötlugosinu í Skáldsögu um Jón sem undirstrikar enn eyðingaraflið sem að verki er í álverinu þótt hin eiturklára forstýra þess, Rut Ragnalz, kunni vel að dulbúa þá staðreynd: „Það er sér deild innan fyrirtækisins með það markmið að dreifa athyglinni frá slysum, sjúkdómum, mengun og dauðsföllum, og sendir daglega áróður á fjölmiðla og setur upp flennistórar auglýsingar með sjálfshóli og blekkingum“ (173). Í álverinu vinnur annar sambýlingur sögumanns, Atli, kraftalegur bóndasonur úr Skaftafellssýslu, sem þrælar sér út á löngum álversvöktum á milli þess sem hann dettur í það með félögum sínum og gamnar sér með spákonunni litríku, Söndru Bang. Og Atli er sannur fulltrúi þeirra sem trúa á fyrirtækið og réttlæta fórnir á íslenskri náttúru í þess þágu – og annarra slíkra – og hann hvetur Sókrates að ganga í liðið:

Atli trúir fyrirtækinu í blindni, honum þykir sannað að þetta sé besti vinnustaður landsins og hann sé heppinn að vera með í teyminu; að álverið hugsi mest um náttúru Íslands og hagsæld landsmanna, það greiðir fyrir skýrslur og rannsóknir, og þú hefur ekki séð nýja lyftingasalinn, segir Atli, allir eru í fantaformi, fjöldinn allur af nýtísku þrekhjólum, allt fyrir vellíðan starfsfólksins, hollustufæði í mötuneytinu, svo er þarna bókasafn, það er nú eitthvað fyrir þig, segir Atli, starfsmenn álversins hafa stofnað rokkhljómsveitina Kerskálann, allir þekkja slagarann Álið er málið! og það vantar bassaleikara, segir Atli, og að ég ætti að sækja um vinnu þarna og komast í hljómsveitina, það er ekkert mál að læra á bassa, segir Atli, þarna er billjardborð og borðtennisborð, starfsfólk fær líka afslátt á golfvöll Hafnarfjarðar, þarna er kynjajöfnuður, allir eru glaðir … hvað hefurðu eiginlega á móti þessu!? klykkir Atli hneykslaður út að lokum. (173–174)

Víða beitir Ófeigur karnívalískum stíl í texta Landvætta og er eftirfarandi texti líklega besta dæmið þar sem hvergi er dregið af í þeim leik:

Sögur eru á kreiki um að ýmislegt misjafnt gangi á í þessari stóriðjumartröð og heljarholu okkar ógæfusömu eyju, enda hefur pólitíska stefnan verið vakin upp úr gráðugri gröf með stjórnmálalegum særingum og typpasogi, rúnaristum og rassasleikingum á fjármálahrímþursum á glæstum lúxushótelum, ráðstefnum, koníaksstofum eftir stífa kjötþunga máltíð og drykkju, í spaðdofa og ógleði og brennivínsdauða – þá er skrifað undir, landið selt erlendum stórfyrirtækjum sem mergsjúga jörðina, bara einhvernveginn á hvolfi með buxurnar á hælunum … allt er þetta mjög svo loðið á milli lappanna og illa lyktandi. (169)

Sögumanni berst stuðningur í náttúruverndarhugsun sinni úr óvæntri átt, þótt á ólíkum forsendum sé, þegar þjóðernissinninn Járngrímur hefur vinnu í Fleski & síðu. Sókrates þekkir þar aftur þann mann sem tók við af honum sjálfum á forsíðu DV; hann er talsmaður félagsskapar sem kallar sig Hvíta Ísland og berst gegn innflytjendum og fyrir íslensku þjóðerni og náttúru. Járngrímur leiðir Sókrates á fund félaga sinna í Hvíta Íslandi sem og í hóp Ásatrúarmanna. Sókrates lendir – með þjóðernisinnum – í átökum við annað fólk í 1. maí göngu sem umturnast í ofbeldi og náttúruhamfarir – og magnaðar eru hugflæðislýsingar höfundar á þeim átökum (sjá bls. 476–491). Slíkt hugflæði kemur víða fyrir í bókinni, setningar afmarkaðar með skástrikum og minnir á mörg ljóða Ófeigs. Svo fer líka að Sókrates gengur í Ásatrúarfélagið og eru skrautlegar lýsingar á þeim félagsskap í bókinni.

Hér að framan minntist ég á að í einstaka köflum rynni efnið á skeið sem hefði ef til vill farið betur á að hafa meira taumhald á. Svo dæmi séu tekin má nefna að einstaka kaflar bókarinnar standa nær fyrirlestraformi en skáldskap (eða fyrirlestrum með skáldskaparívafi), til að mynda mætti nefna langan kafla þar sem sögumaður fjallar um ræðu Halldórs Laxness um Kjarval og kafla þar sem allsherjargoðinn Jörmunrekur fræðir sögumann um ásatrú og Ásatrúarsöfnuðinn. Þá má nefna nokkra kafla þar sem lýst er drykkjutúrum sögumanns og sambýlinga hans á Léttvínsbarnum sem flestir enda í ofdrykkju og ofbeldi.

V

Eins og ljóst má vera af því sem hér hefur verið rætt er þetta skáldverk Ófeigs Sigurðssonar fyrst og fremst breið og margslungin samfélagslýsing, lýsing á íslensku samfélagi fyrir hrun, séð í spéspegli. Sem tíðarandalýsing er bókin afar vel heppnuð og mætti tiltaka ótal fleiri dæmi úr henni þar sem sýnt er inn í kjarna þeirrar neysluhyggju sem varð þjóðinni að falli fyrir örfáum árum. En verkið er einnig stórgóð lýsing á tilvistarkreppu ungs manns sem gengur illa að fóta sig í tilverunni og finna sinn stað. Ófeigur heldur svo sannarlega mörgum boltum á lofti í einu í Landvættum og ógerlegt að gera þeim öllum skil hér.

Að lokum skal minnst á það hversu vel bókin er upp byggð; hún er í fjórum hlutum sem bera yfirskriftirnar: Helfró, Heljarslóðir, Háborg íslenzkrar menningar og Heiðindómur. Hver hluti samanstendur af 9 köflum og hefur sína áherslupunkta sem falla þó allir vel saman í eina heild. Og þá býður hún einnig upp á óvænt endalok. Höfundur hleypur vissulega víða nokkuð útundan sér en það breytir því ekki að Landvættir eru að flestu leyti afbragðs skáldverk sem sýnir enn og aftur að Ófeigur Sigurðsson er einn þeirra rithöfunda okkar sem binda má mestar vonir við í framtíðinni.

Soffía Auður Birgisdóttir

Tilvísanir

  1. Sjá „Að verksmiðjuvæða lífið.“ Viðtal við Ófeig Sigurðsson. Fréttablaðið 20. des. 2012.