4:48 PsychosisEdda Björg Eyjólfsdóttir vann afrek á sviði Kúlu Þjóðleikhússins í gær þegar hún frumsýndi 4:48 Psychosis, síðasta verkið sem enska leikskáldið Sarah Kane (1971-1999) skrifaði áður en hún drap sig. Edda er eini leikarinn á sviðinu í klukkutíma og tólf mínútur; tímalengdin er bundin í texta en passaði merkilega vel á frumsýningu. Með sér hefur hún tvo magnaða tónlistarmenn, Stefán Má Magnússon og Magnús Örn Magnússon, auk þess sem rödd læknisins (leikstjórinn Friðrik Friðriksson) berst úr lofti og veggjum, mild og hlý en – samt – ópersónuleg.

Þetta er áhrifamikið verk og miskunnarlaust. Eintal sálarinnar, ýmist beint inn á við eða að lækninum, stundum beinar upplýsingar um hegðun manneskju í djúpri geðlægð. Þráhyggja konunnar er annars vegar tengd tilfinningum hennar til elskhugans (sem rennur að minnsta kosti stundum saman við lækninn), hann er ýmist svikull og horfinn eða hún vill losna við hann. Til að túlka þær tilfinningar ennþá betur er gripið til laga PJ Harvey, „Rid of me“ og „Oh My Lover“ sem Edda flutti fjandi vel. Hins vegar snýst þráhyggjan um dauðann, sjálfsvígið sem unga konan reynir að telja sig ofan af (bókstaflega, í tölum) en sem skýtur upp kollinum þráfaldlega sem sjálfsögð útleið úr botnlausu og endalausu myrkri ofsakvíðans.

Þetta er afar óhugnanlegt verk sem Edda flutti af djúpri innlifun. En þetta er líka einóð einræða sem virðist vera mun lengri en klukkan sagði til um. Þó bregða þau Edda Björg og Friðrik á það skínandi góða ráð að nota upptökuvél sem Edda stýrir, talar í og varpar með henni við og við mynd sinni upp á tjald. Bæði er rosalega sterkt að sjá tjáningarríkt andlit leikkonunnar hæfilega afmyndað í yfirstærð og svo gefur tæknin til kynna að persónan sé ekki einhöm og það rímar vel við textann.

Sýningin nær slíku valdi á manni að hún virðist vera fædd af fólkinu sem sést og heyrist til á sviðinu. En fleiri komu að. Skáldkonan Didda (Sigurlaug Didda Jónsdóttir) þýðir textann sem er grimmur en líka ljóðrænn og upphafinn. Stígur Steinþórsson og Filippía Elísdóttir sjá um ytra útlit sýningarinnar sem tónaði fullkomlega við texta og flutning. Edda Productions standa að sýningunni í samstarfi við Þjóðleikhúsið og Aldrei óstelandi.

Sarah Kane varð víðkunn fyrir sitt fyrsta verk, hið einstæða Blasted eða Rústað, eins og það hét í Borgarleikhúsinu fyrir fáeinum árum. Þó að hún hafi legið í gröf sinni í sextán ár er ekkert lát á vinsældum hennar. Reyndar gætu verið falin aukaleg skilaboð frá Söruh Kane í öðru laginu eftir Harvey sem Edda Björg syngur í sýningunni: „No, you‘re not rid of me“ – Nei, þið eruð ekki laus við mig.

Silja Aðalsteinsdóttir