Útlenski drengurinnAldursbilið milli barns og unglings er ekki langt og ekki vel afmarkað en spennandi vegna þess hvað við erum opin, óræð og óráðin einmitt þá. Það er til dæmis þá sem við fáum gjarnan þá þráhyggju að við séum ekki í alvörunni þau sem okkur er sagt að við séum. Við getum ómögulega verið börn þessara foreldra sem segjast eiga okkur, þau eru svo allt öðruvísi en við, við erum örugglega ættleidd og eigum allt annan (og kannski mun fínni) uppruna en virðist vera.

Það er þessi hópur, tíu ára plús, sem leikhópurinn Glenna miðar á í sýningunni á Útlenska drengnum eftir Þórarin Leifsson. Hún var frumsýnd í Tjarnarbíó í dag undir stjórn Vigdísar Jakobsdóttur og á sannarlega skilið að fá mun breiðari áhorfendahóp. Þeir sem hafa fylgst með Þórarni Leifssyni vita að aðferð hans er að beita ýkjum. Jafnvel rosalegum ýkjum og fáránleika. Leyndarmálið hans pabba í samnefndri bók frá 2007 er til dæmis það að pabbinn er mannæta. Étur bara alla sem að kjafti koma ef honum líst þannig á þá. Giskað hefur verið á að mannátið í þeirri bók sé tákn fyrir alvarlegan ósið fullorðinna, til dæmis ofdrykkju. Eins má spyrja hvað það þýði í leikritinu þegar Ágúst aðstoðarskólastjóri (Þorsteinn Bachmann) greinir Dóra litla (Halldór Halldórsson, Dóri DNA) skyndilega sem útlending. Pizza-prófið sýni að þessi eftirlætisnemandi Sigrúnar skólastjóra (Arndís Hrönn Egilsdóttir) sé ekki raunverulegur sonur foreldra sinna (María Heba Þorkelsdóttir, Benedikt Karl Gröndal) og eigi líklega engan rétt á að búa á Íslandi.

Dóri litli er greinilega hæfileikaríkur strákur og vinsælasti strákurinn í skólanum en hann er erfiður. Sælgætisfíkill, frekur, sérgóður, ráðríkur strákur sem fer í þagnarbindindi , jafnvel vikum saman, ef hann fær ekki það sem hann vill. Aðstoðarskólastjórinn lætur fara í taugarnar á sér hvað skólastjórinn er hrifinn af þessum óþolandi nemanda og þegar hún fer í frí ákveður hann að niðurlægja drenginn í eitt skipti fyrir öll, sýna honum að hann eigi ekkert erindi upp á dekk. Hann fullyrðir með sönnunum héðan og þaðan að Dóri litli sé útlendingur. Þetta tekst honum ótrúlega vel, kannski vegna þess að Dóri litli er svolítið veikur fyrir því að ekki sé allt sem sýnist með hann og foreldrarnir eru vanir að treysta yfirvöldum. Það gera skólafélagarnir líka nema bekkjarsystirin Ugla (Magnea Björk Valdimarsdóttir) sem ekki trúir Ágústi og það er af því að hún er utangarðs sjálf.

Þetta er bæði óvenjulegt og skemmtilegt leikrit og sýningin var því trú. Leikurinn var í senn raunsær og absúrd ef þið getið gert ykkur það í hugarlund. Arndís Hrönn var jarðbindingin sjálf í hlutverki skólastjórans en Þorsteinn andstæða hennar, í senn kerfiskarl úr spýtu og allur á lofti, alveg dásamlegur. Magnea Björk var sannfærandi nörd og María Heba og Benedikt Karl skínandi góð bæði sem skólafélagar og (ekki síður) sem foreldrar Dóra litla. Sjálfur var Dóri DNA vel valinn í aðalhlutverkið – mun stærri en félagarnir og maður átti auðvelt með að ímynda sér að hann virkaði ógnandi á Ágúst aðstoðarskólastjóra – sem reynist raunar eiga sjálfur sitt erfiða leyndarmál.

Við erum öll skrýtin. Það er boðskapurinn. Enginn er eins og annar og þess vegna eigum við alltaf og ævinlega að sýna umburðarlyndi. Sá boðskapur er þó ekki rekinn ofan í kok á áhorfendum heldur verður hann til við umhugsun eftir á. Allur umbúnaður sýningarinnar var vel gerður, myndbönd Helenu Stefánsdóttur og Arnars Steins Friðbjarnarsonar sem bjuggu til og breyttu baksviði á augabragði voru fjölbreytt og skýr, búningar Evu Signýjar Berger vel valdir og tónlist Jónasar Sigurðssonar afar áheyrileg. Sýning fyrir öll hugsandi börn og aðstandendur þeirra. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig hún spyrst út meðal stálpaðra barna. Þeir sem fylgja börnum á hana ættu kannski að vara þau við að þar gerist sitthvað sem sé ekki nákvæmlega eins og í veruleikanum. Þetta er alger kennslustund í list fáránleikans.

Silja Aðalsteinsdóttir