Það er sniðug hugmynd á bak við verkið Allt sem er fallegt í lífinu sem Mooz menningarfélag sýndi sem verk í vinnslu í Félagsheimili Seltjarnarness núna í vikunni: Það túlkar samskipti kynjanna sem æfingu í hnefaleik. Sviðið er afmarkað með tvílitri ljósrönd, blárri hans megin, rauðri hennar megin, það er autt fyrir utan tvo stólkolla og fleiri smáhluti hvora í sínu horni. Þátttakendur á sviði eru þrír, karl (Tómas Gauti Jóhannsson) og kona (Brynhildur Karlsdóttir) í æfingabúningi og meðleikari með gítar (Friðrik Margrétar-Guðmundsson) sem situr á stól fyrir utan ljósrammann og leikur undir sýningunni óáleitna og þægilega tónlist.

Leikurinn er þögull lengi framan af meðan Brynhildur og Tómas Gauti setja saman grind sem reynist vera fyrir boxpúða. Meðan þau voru að þessu komu margar hugmyndir í kollinn á mér – voru þau börn að leika sér eða voru þau nýtt sambýlisfólk að setja saman Ikeahúsgögn … eða var þetta bara eitthvað sem þau áttu að vera búin að gera áður en sýningin hófst? Svo settust þau hvort á sinn stólinn og einblíndu hvort á annað drykklanga stund uns þau stóðu upp og hófu stillilegan og skipulegan hnefaleik. Þau skiptast á að vera árásaraðili og þegar þau eru í því hlutverki segja þau inn á milli högga í eintali frá sambandinu eins og það blasir við þeim. Engin samtöl eru í verkinu á þessu vinnslustigi en auðvitað er allur „dansinn“ á sviðinu samtal ef áhorfandinn er tilbúinn til að semja það í huganum meðan hann horfir á. Upplýsingarnar sem þau Brynhildur og Tómas Gauti gefa í texta eru fremur rýrar; þó kemur fram að þau hafa þekkst frá æsku og eru bestu vinir þegar vinskapurinn fer – óvænt? – að þróast út í ástarsamband. Það veldur einkum honum nokkrum kvíða af því að hann óttast að missa besta vin sinn ef ástarsambandið gengur ekki.

Þau hafa ólíka tækni í hnefaleiknum og er gaman að fylgjast með þeim berjast. Tómas Gauti er þyngri á sér, hreyfir sig hægar en er höggfastari en hún. Brynhildur er fjaðurlétt og dansar í kringum hann og kemur höggum á hann óvænt. Þau geta sjálfsagt verið hættuleg þótt þau virðist létt. En dansinn var svolítið einhæfur til lengdar þó að ég viti vel að milljónir manna um allan heim séu sólgnar í einmitt þessa skemmtun. Einhvern veginn tókst ekki alveg í gærkvöldi að gefa manni þá hugmynd að í lokin stæði annað þeirra uppi sem sigurvegari. Það er jú ástæðan fyrir vinsældum hnefaleika en átti ekki við hér. Verkið var unnið í hópvinnu út frá ritgerð Stefáns Ingvars Vigfússonar sem líka er listrænn stjórnandi sýningarinnar og spurningin sem þau lögðu upp með var hvort samskipti kynjanna séu alltaf ofbeldisfull í eðli sínu þótt þau fari af stað sem ljúfur leikur. Það er satt að segja mjög áhugaverð spurning þótt ekki sé auðvelt að svara henni. Við erum dýr en ef maður færir hugmynd verksins yfir í dýraríkið finnst mér eins og átök af þessu tagi séu milli tveggja karldýra frekar en milli kynja. En við erum auðvitað svo miklu þróaðri, hjá okkur fá kvendýrin að slást líka. Það verður gaman að sjá hvað verður úr þessu hjá Mooz menningarfélagi.

-Silja Aðalsteinsdóttir